154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[15:06]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við höfum frá upphafi staðið þétt og sameinuð að baki úkraínsku þjóðinni. Það höfum við gert hér í þinginu eins og með samþykkt tillögu um Holodomor og brottnám úkraínskra barna og vorum við fyrst þjóða í Evrópu til að gera slíkt. Við eigum auðvelt með að skilja stöðu þeirra. Það er ekkert langt síðan við endurheimtum okkar sjálfstæði, Ísland sem fullvalda þjóð, og við skiljum hvað það þýðir að vera fullvalda og hvaða máli það skiptir að hafa eigin menningu, sögu og þjóðarvitund. Tillagan sem hér er til afgreiðslu er mjög almenns eðlis og hefði verið kostur að stuðningsverkefni hefðu verið betur skilgreind með áherslu á borgaraleg verkefni og mannúðaraðstoð í því sem við erum best sem lítil vopnlaus þjóð. En varðandi okkar áherslur hér og það að samþykkja tillögu sem þessa þá er það sem skiptir mestu máli, og það er það sem Úkraínumenn hafa kallað eftir, það er fyrirsjáanleiki og það er mikilvægt að geta sent þau skilaboð. Við erum hér að staðfesta það að (Forseti hringir.) við ætlum að standa með úkraínsku þjóðinni, ekki bara til næsta árs heldur næstu ára.