154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[15:03]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þingflokkur Pírata styður þetta góða mál og styður að það myndist stöðugleiki og fyrirsjáanleiki í þeirri aðstoð sem Ísland hyggst veita Úkraínu á næstu fimm árum og finnst til fyrirmyndar að það liggi fyrir. Þá styðjum við einnig mannúðaraðstoð og alla þá aðstoð sem hið friðsæla ríki Ísland getur veitt Úkraínu.

Við viljum hins vegar gera athugasemd við þá þinglegu meðferð sem þetta mál hefur hlotið. Þetta er stjórnartillaga og hún var ekki send út til umsagnar. Við höfum gert athugasemdir við þessa málsmeðferð enda er það ekki svo að þó að ein ákveðin nefnd þingsins sé sammála um ágæti einhvers máls þýði það að þjóðin eigi ekki að hafa rödd gagnvart málinu. Eru þessi vinnubrögð utanríkismálanefndar því ekki til fyrirmyndar.

Að lokum gerir þingflokkur Pírata einnig athugasemd við að hluti af þessari aðstoð eigi að fara til kaupa á hergögnum. Við teljum það ekki í samræmi við stefnu Íslands (Forseti hringir.) og munum sum okkar því sitja hjá þegar kemur að þeim lið tillögunnar.