154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[18:20]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar og svo að það fari ekki á milli mála átta ég mig á því að hv. þingmaður var að hafa eftir ummæli annarra, hann var ekki að lýsa sinni eigin skoðun, enda þakka ég hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp hér á þinginu. En af því að hv. þingmaður talar um málsmetandi menn þá þykir mér slíkir menn ekkert sérstaklega málsmetandi sem apa upp þessar söguskýringar Rússa, raunar var upphafleg söguskýring Rússa sú að þeir hefðu neyðst til þess að fara yfir landamæri Úkraínu til að frelsa þá undan oki nasista. En það hefur nú heyrst minna af þeim málatilbúnaði að undanförnu. Þetta gamalkunna stef að heiðra skálkinn svo að hann skaði þig ekki er stef sem er okkur ekki ókunnugt úr sögunni. Þetta var auðvitað reynt með hörmulegum afleiðingum í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar og þetta var reynt árum og áratugum, til eða frá, saman hér í Evrópu sömuleiðis þegar forsvarsmenn Evrópu reyndu að friðþægja Pútín og hans slekti árum saman til að málin enduðu ekki nákvæmlega eins og þau gerðu, þó svo að Eystrasaltsþjóðirnar, Pólverjar og aðrir hafi varað okkur mjög hávært við því sem koma skyldi ef við sýndum þeim ekki í fulla hnefana strax og drægjum línu í sandinn strax. Þannig að ég átta mig á að þessu sem hv. þingmaður var í rauninni bara að bera hér á borð frá öðrum.

Varðandi eldri ákvarðanir sem hafa verið teknar eða stuðningsyfirlýsingar hér á þingi, þær eru örugglega fjölmargar óheppilegar. Það er með þetta eins og svo margt annað að það er alltaf betra að það sé rætt á vettvangi þingsins og við höfum leitað eftir því, sérstaklega í utanríkismálanefnd, (Forseti hringir.) sem lögum samkvæmt ber að hafa samráð við, að við séum höfð inni í málum og fáum góða upplýsingagjöf. Eftir því hefur verið farið (Forseti hringir.) og ég tel að það sé alltaf til bóta.