154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[17:46]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég náði nú ekki að sitja alla fundi nefndarinnar þar sem tillagan var til meðferðar og get því ekki gert grein fyrir allri þeirri umræðu sem þar átti sér stað á þeim fundum en var þó við kynningu hennar. Það var niðurstaða nefndarinnar að gera þetta með þessum hætti og mikil sátt meðal nefndarmanna um tillöguna. Ég nefndi líka að hún væri mjög almennt orðuð og hefði kannski mátt vera nákvæmari eins og ég nefndi og þá ganga lengra í þeim áherslum sem við hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir deilum í þessum málum þar sem við teljum okkur jafnvel geta haft meira fram að færa en margar aðrar þjóðir en minna á öðrum sviðum sem einhverjir vilja gera sig gildandi á. Þessi tillaga sem slík eða þessi stefna hefur ekki mikil áhrif eins og staðan er og utanríkisráðherra er að nýta sér ákveðnar heimildir til að taka ákvarðanir eins og nýlega var, varðandi þátttöku okkar í verkefninu með Tékkum sem er ekki undir hér eða stendur ekki og fellur með tillögu sem þessari. Hún er mjög almenn og tekur ekki sérstaklega til eða fjallar um þátttöku eða að það sé verið að veita fjármuni sérstaklega í hergögn nema að mjög takmörkuðu leyti. Það hefði kannski mátt vera og má vera meiri umræða um það. Þetta er stefna. Þetta er einfaldlega yfirlýst skoðun þingsins en ekki ákvörðun sem slík.