154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

fullnusta refsinga.

928. mál
[16:37]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um fullnustu refsinga nr. 15/2016 með síðari breytingum. Með fumvarpinu er lagt til að ákvæði til bráðabirgða sem sett voru með lögum nr. 98/2021 og tóku gildi 10. júlí 2021 verði framlengd en að öðrum kosti myndu ákvæðin falla á brott þann 1. júlí næstkomandi. Ákvæðin lúta að reynslulausn og heimild til fullnustu með samfélagsþjónustu og er ákvæðunum ætlað að gilda tímabundið til næstu þriggja ára eða á meðan heildarendurskoðun í fullnustumálum fer fram.

Með frumvarpinu er lagt til að heimila Fangelsismálastofnun að fullnusta allt að 24 mánaða óskilorðsbundið fangelsi með samfélagsþjónustu. Áður var stofnuninni aðeins heimilt að fullnusta allt að 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi með samfélagsþjónustu. Jafnframt er lagt til að hið sama eigi við þegar um refsingu samkvæmt fleiri en einum dómi er að ræða, og í þeim tilvikum þegar hluti fangelsisrefsingar er skilorðsbundinn. Verði frumvarpið að lögum verði því áfram heimilt að afplána með samfélagsþjónustu þegar samanlögð refsing eða heildarrefsing er allt að 24 mánuðum, í stað 12 mánaða samkvæmt almennum ákvæðum laganna.

Með frumvarpinu er einnig lagt til að Fangelsismálastofnun verði heimilað að veita föngum sem eru með styttri refsingu en 90 daga óskilorðsbundið fangelsi reynslulausn fimm dögum áður en reynslulausn hefði annars verið veitt og föngum með lengri refsingu en 90 daga óskilorðsbundið fangelsi reynslulausn tíu dögum fyrr.

Með upphaflegu frumvarpi því sem varð að lögum um breytingu á lögum um um fullnustu refsing var brugðist við tillögum starfshóps þáverandi dómsmálaráðherra til aðgerða sem stytta eiga boðunarlista til afplánunar refsinga. Í lok árs 2020 voru 706 einstaklingar á boðunarlista Fangelsismálastofnunar en í mars 2024 voru þeir 714. Þannig eru fleiri á boðunarlista nú en þegar ákvæðin voru sett árið 2021 en þá stöðu má m.a. rekja til þess að nú standa yfir framkvæmdir á stærsta fangelsi landsins, Litla-Hrauni, þar sem þurft hefur að loka klefum. Þá hafa fyrningar refsinga aukist á þessum tíma en gera má ráð fyrir að þær væru enn fleiri ef ekki hefði komið til lagabreytingarinnar 2021.

Almennt er samfélagsþjónusta talið skilvirkt úrræði þegar það á við, sem gefur dómþola tækifæri til að bæta fyrir brot sitt með því að láta gott af sér leiða um leið og hann afplánar refs¬ingu sína. Það er hins vegar ljóst að horfa þarf á málaflokk fullnustukerfisins, þar á meðal fullnustu refsinga í formi samfélagsþjónustu, með heildstæðum hætti. Í heildarendurskoðun fullnustukerfisins verður tekin m.a. tekin afstaða til fyrirkomulags og umfangs samfélagsþjónustu. Á meðan þeirri vinnu vindur fram er talið nauðsynlegt að bráðabirgðaákvæðin verði framlengd.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins og legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessarar umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umræðu.