154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[15:51]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil líka aðeins koma inn á það að 5 milljónir eru talsvert mikil refsing þegar fiskur sleppur. Ég held að það teljist vera talsvert stífar reglur. Ef þú hugar ekki vel að þínum búnaði og öðru slíku sem þarf til atvinnustarfseminnar og það sleppur frá þér fiskur þá er talsvert mikið undir og það er umreiknað, eins og ég fór yfir í ræðu minni, þannig að það gæti orðið gríðarlega mikill kostnaður fyrir aðilana.

Ég verð aðeins að koma inn á það, af því að hv. þingmaður var mjög hissa á því að fárviðri og hafís og annað slíkt teldist vera ófyrirséð af því að við byggjum nú á Íslandi. Ég er því ósammála að það geti talist eitthvað sem fyrirtækin ráði við. Ég vil ítreka að það er samt heimild í frumvarpinu til að sekta rekstraraðila, bara í gegnum hefðbundnar stjórnvaldssektir, ef það er sannað að þeir hafi ekki staðið sig, brotið innri ferla eða ekki gert allt sem þeir gátu til að koma í veg fyrir tjón. En ef við horfum bara til þess fárviðris sem hefur geisað hér víða um land þá er það auðvitað eitthvað sem sveitarfélög ráða ekki við. Við horfum til alls konar ofanflóða, t.d. Seyðisfirði sem lenti illa í því. Auðvitað er þetta eitthvað sem sveitarfélögin ráða ekki við, ekki frekar en að fyrirtækin ráða við hvort það kemur hafís inn eða ekki sem getur valdið tjóni.

Að því sögðu aftur þá er gengið út frá því að fyrirtækin séu með allt sitt lagi. Ef það reynist ekki vera svo þá er heimild til að sekta þau. En ég er ekki sammála því að reglurnar og refsingarnar, ef maður getur orðað það með þeim hætti, séu ekki nægjanlega skýrar.