154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[15:34]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Samkvæmt Umhverfisstofnun Evrópu eru ágengar framandi tegundir einn helsti drifkraftur niðurbrots á líffræðilegum fjölbreytileika og óafturkræfum breytingum á vistkerfi. Þær geta verið ein stærsta ógnin við viðkvæm vistkerfi, eins og eru oft á eyjum. Stofnunin bendir á að þótt slíkar tegundir geti skilað efnahagslegum hagnaði til skamms tíma geti þær haft víðtæk og skaðleg áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika og náttúruauðlindir kynslóða til langrar framtíðar. Framandi tegundir geti jafnframt haft áhrif á líf og heilsu manna og valdið efnahagslegu tjóni fyrir landbúnað, skógrækt og fiskveiðar. Stofnunin áætlar að slíkt tjón nemi a.m.k. 12 milljörðum evra á ári í Evrópu.

Niðurstöður rannsóknar Hafrannsóknastofnunar á erfðablöndun eldislaxa við íslenska laxastofna benda til þess að laxastofnar á Vestfjörðum myndi sérstakan erfðahóp og að líta megi svo á að þeir hafi verndargildi út frá sjónarmiðum um varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika. Einnig benda niðurstöður rannsóknarinnar til þess að erfðaefni eldislaxa hafi blandast villtum laxi á Vestfjörðum.

Fyrir stuttu spurði ég sérfræðing frá Hafrannsóknastofnun: Hvað gerist ef heil tegund eins og villti laxinn deyr út? Svörin voru í meira lagi ógnvænleg. Við vitum það ekki, sagði hann, og bætti við að það hræddi hann mikið hvað við værum að taka mikla áhættu. Hver tegund gegnir nefnilega mikilvægu hlutverki í að viðhalda heilbrigði vistkerfa og það er alls óvíst hvað gerist ef ein tegund hverfur út úr vistkerfinu.

Spurningin mín var ekki úr lausu lofti gripin, forseti. Þetta er ekki fjarstæðukennd hugmynd. Hún kom til í kjölfar ítrekaðra umhverfisslysa af völdum fyrirtækja sem reka sjókvíaeldi á Íslandi. Síðasta sumar sluppu 3.500 eldislaxar úr laxeldiskví Arctic Fish. Þessi slysaslepping var önnur stóra slysasleppingin sem komið hefur upp í íslensku sjókvíaeldi á síðastliðnum árum en árið 2020 sluppu um 82.000 eldislaxar úr sjókví hjá Arnarlaxi. Vandamál við slysasleppingar eru ekki ný af nálinni í víðara samhengi fiskeldis. Undanfarin 20 ár hefur villtur laxastofn í Noregi dregist saman um helming og er að finna erfðablöndun í 71% norskra áa. Hingað til hefur hvergi tekist að koma í veg fyrir að laxar sleppi úr opnum sjókvíum. Í raun bendir reynslan hér á landi, og í þeim löndum sem hafa lengri reynslu en við af þessum iðnaði, til þess að sleppilax sé órjúfanlegur partur af sjókvíaeldi. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir það.

Laxalús er það líka og hún herjar á íslenska eldislaxa rétt eins og hún hefur gert undanfarna áratugi í Noregi og Skotlandi. Lyfið sem er notað til að drepa lúsina hefur mikil og víðtæk áhrif á vistkerfið, t.d. á aðra hryggleysingja; krabbadýr og rækju. Svo eru það fleiri hættur sem steðja að vistkerfinu frá fiskeldi því að auk lyfjanna streymir frá sjókvíum, hindrunarlaust í gegnum netmöskvana, skítur, plast, koparoxíð, fóðurleifar og önnur eiturefni. Öll þessi mengun veldur óafturkræfum skaða á vistkerfi fjarða og er möguleg vegna þess að í núverandi lögum um fiskeldi er þessari starfsemi tryggð undanþága frá lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda og reglugerð um fráveitur og skólp. Auðvitað ætti að afnema allar undanþágur sjókvíaeldis frá lögum og reglugerðum sem eiga að vernda hafið gegn mengun og athöfnum sem geta stofnað heilbrigði manna í hættu, skaðað lifandi auðlindir, raskað lífríki og spillt umhverfi. En það er ekki gert í þessu frumvarpi sem við ræðum hér, ekki frekar en aðrar mikilvægar aðgerðir sem væru til þess fallnar að setja hagsmuni náttúru og komandi kynslóða framar en hagsmuni erlendra auðkýfinga. Þetta frumvarp endurspeglar fullkomið skeytingarleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart rányrkju auðmanna á ósnertum víðernum landsins.

Frumvarp matvælaráðherra fór úr samráðsferli í ráðuneytinu til ríkisstjórnarinnar og kom þaðan í nýjum búningi, endurskrifað til að standa betur vörð um rétt sjókvíaeldisfyrirtækjanna til að græða sem allra mest á náttúruperlum almennings. Þar voru tekin út helstu úrræðin sem voru til þess fallin að láta sjókvíaeldisfyrirtækin sæta ábyrgð gagnvart lífríkinu með því að minnka framleiðsluheimildir þeirra í hvert skipti sem eldislax slyppi úr sjókvíum. Þannig fengju fyrirtækin að framleiða minna ef þau myndu valda umhverfisslysi. Nú er búið að breyta þessu yfir í sektir. En þessi fyrirtæki eiga nóg af peningum. Sektir hafa ekkert forvarnagildi og lítinn sem engan hvata fyrir fyrirtækin til að koma í veg fyrir slys. Í mörgum tilfellum myndi það hreinlega borga sig. Við erum komin á þann tímapunkt að við þurfum að spyrja okkur hvort það sé siðferðislega réttlætanlegt að láta efnahagslegan hagnað fyrirtækjaeigenda ráða för þegar ljóst er að um leið og eldislaxinn syndir út úr kvínni getur hann haft víðtæk og óafturkræf áhrif á íslenskt vistkerfi og náttúruauðlindir komandi kynslóða, áhrif sem enginn veit í raun hver verða. Í Noregi hafa greiningar á áhrifaþáttum í umhverfi villtra laxa sýnt að fiskeldi hefur mikil áhrif á vistkerfið og getur leitt til óafturkræfrar breytingar og jafnvel útrýmingar.

Ágallarnir og annmarkarnir í þessu máli eru einfaldlega of margir. Það er rétt að benda á burðarþolsmatið og slysasleppingar í þessu samhengi. Þegar málið var kynnt í samráðsgátt var kveðið á um að hæfilegur frestur til aðlögunar eftir lækkun burðarþolsmats væri ekki lengri en 18 mánuðir. Því var síðan breytt í 24 mánuði þrátt fyrir að náttúruverndarsamtök væru þegar búin að gefa umsagnir sem sýndu fram á að meira að segja 18 mánuðir væru allt of langur tími. En þessu var breytt í 24 mánuði. Þetta er óhæfilega langur frestur í báðum tilvikum, sérstaklega með tilliti til viðkvæmni vistkerfanna sem um ræðir. Svo skortir líka viðurlög þegar rekstrarleyfishafar gerast uppvísir að brotum á ákvæðum um fjölda fiska og þéttleika þeirra í sjókvíum samkvæmt reglugerð eða ef reglulegri skimun fyrir tilkynningarskyldum sjúkdómum í fiski í sjókvíum er ekki sinnt. Það vantar viðurlög. Ef afleiðingarnar eru þær að einungis er slegið létt á puttana á rekstrarleyfishöfum vegna slíkra brota þá höfum við skapað síbrotaumhverfi á kostnað náttúrunnar.

Út frá þessu langar mig að vekja athygli á því að með frumvarpinu fær Matvælastofnun heimild til að lækka eða fella niður þessar sektir, sé ástæða slysasleppingar eða strokatburða vegna óviðráðanlegra atvika sem ekki teljast hluti af fyrirsjáanlegri hættu. Tekin eru dæmi um slík atvik og þykir mér það algjörlega fráleitt að t.d. fárviðri falli hér undir. Við búum á Íslandi, forseti. Hér er vont veður. Fárviðri hlýtur að teljast hluti af eðlilegri áhættu í hvers kyns rekstri á Íslandi sem ætti að vera öllum ljós sem stunda atvinnurekstur hér á landi.

Svo er annað sem veldur mér miklum áhyggjum, — og þetta er ekkert smámál, forseti, það er búið að ræða þetta mikið í þessari umræðu — að ef þessi lög verða samþykkt þá verða leyfin ekki lengur tímabundin til 16 ára heldur kemur fram í 33. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta, að:

„Uppfylli rekstrarleyfishafi öll skilyrði laga þessara og reglna settra með stoð í þeim skal rekstrarleyfi til sjókvíaeldis vera ótímabundið.“

Á sama tíma er búið að taka allar tennur úr ákvæðum sem varða leyfissviptingu. Við erum að horfa á möguleikann á því að þarna verði til nýtt ótímabundið kvótakerfi sem mun skapa ríkinu skaðabótaskyldu ef reynt verður að vinda ofan af því. Þetta er eitthvað sem verður að komast til botns í við vinnu nefndarinnar á þessu máli og skoðun á þessu máli. Þetta þarf að vera algerlega kristaltært. Þessi breyting má ekki verða til þess að við séum að skapa ríkinu skaðabótaskyldu ef reynt verður að vinda ofan af því.

Hvernig gerist það að ráðuneyti sem er undir stjórn grænnar vinstri hreyfingar skuli skila af sér svona frumvarpi? Það er það sem ég á erfitt með að ná utan um, að eftir áralangan fagurgala fyrrverandi matvælaráðherra Vinstri grænna, Svandísar Svavarsdóttur, um að nú skuli aldeilis tekið til hendinni í að hreinsa upp villta vestrið í sjókvíaeldinu, eftir starfshópa og spretthópa og stýrihópa og þrjá matvælaráðherra, að þetta sé niðurstaðan, að við ætlum bara að gefa sjókvíaeldisfyrirtækjunum firðina okkar ótímabundið, draga allar tennur úr getu okkar til að refsa þeim fyrir að menga firðina okkar og sleppa því bara að fyrirbyggja óafturkræfan skaða á náttúru Íslands. Ég segi þetta ekki af léttúð, forseti. Ég segi þetta af því að ég batt vonir við þetta frumvarp. Persónulega batt ég vonir við þetta frumvarp.

Arctic Fish fékk nýlega leyfi fyrir sjókvíaeldi á þremur stöðum í Ísafjarðardjúp. Það var orðað svo fallega í viðtali sem ég hlustaði á fyrir stuttu, en þar var áformum um sjókvíaeldi á Arnarnesi í Ísafjarðardjúpi lýst þannig að nú væri sjókvíaeldið komið í anddyri Hornstranda. En þar er engin brothætt byggð til að bjarga, bara ósnert víðátta. Þessi áform hafa nú þegar verið samþykkt þrátt fyrir að stofnanir vari við því að áformin uppfylli ekki lagalegar skyldur til að tryggja siglingaöryggi.

Forseti. Þetta er mikið áhyggjuefni því að við erum að fórna svo ótrúlega miklu fyrir svo skammsýn gróðasjónarmið og fyrir örfá störf á svæðum sem svo sannarlega þurfa á þeim að halda, enda er eina ástæða þess að þessum iðnaði hefur verið tekið fagnandi hér á landi að hann skapar störf í byggðum sem þurfa sárlega á þeim að halda. Þetta eru byggðir sem sátu eftir þegar kvótinn var framseldur. Ábyrgð stjórnvalda á stöðu þessara byggða er gríðarleg. Það hefur skort metnað og fjármagn til að aðstoða byggðir við að byggja upp fjölbreytta og sjálfbæra atvinnuvegi. Í staðinn hefur fólk verið sett í þá stöðu að þurfa að fórna náttúrunni til að geta haldið áfram að búa í sinni heimabyggð. Stjórnvöldum ber að fara inn á þessi svæði og vinna náið með fólkinu á svæðinu til að skapa tækifæri sem eiga við á hverjum og einum stað. Ef byggðum er gefið tækifæri og bolmagn til að fara í aðrar áttir þá trúi ég því að þær hverfi frá þessum skaðlega iðnaði og horfi til framtíðar. Það er hægt að styðja við frumkvöðlastarf í umhverfisvænni matvælaframleiðslu. Það má styrkja tekjuöflunarleiðir sveitarfélaganna um land allt. Ríkisstjórnin má sýna í verki að hún styður við getu byggðanna til að standa undir blómlegu atvinnulífi í sátt við náttúru til lands og sjávar.

Forseti. Við í Pírötum lögðum fram tillögu til þingsályktunar í haust um bann við fiskeldi í opnum sjókvíum. Ástæðan er einföld. Það skiptir ekki máli hvert maður snýr sér, hvaða gögn eru skoðuð, hvaða reynslusögur eru rýndar, það er ekki hægt að tryggja dýravelferð né umhverfisvernd á sama tíma og fiskeldi í opnum sjókvíum er leyft. Það er ekki hægt. Það er ekki hægt að vernda óspillta náttúru Íslands fyrir fylgikvillum sjókvíaeldis. Þetta hefur reynt annars staðar og hefur ítrekað mistekist. Við erum að taka gríðarlega áhættu með náttúruna okkar og við verðum að spyrja okkur: Hvað erum við að fá í staðinn? Er þetta í alvörunni þess virði? Ég segi nei.