154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[15:31]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að byrja á því, af því að þingmaðurinn talaði um að það væri gott að sýna auðmýkt: Ég tel að ég hafi gert það og sé að gera það þegar ég ræði um að málið fái tilhlýðilega umfjöllun í atvinnuveganefnd. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að mál eins og þetta, þar sem er heildarendurskoðun á lögum, fái góða og mikla umfjöllun.

Bara svo að því sé haldið til haga, eins og ég sagði áðan; þegar kemur að leyfum gagnvart Færeyjum þá var í rauninni svipað undir hér þegar lögin voru sett. Við erum hins vegar að bæta því inn núna að við getum afturkallað leyfin. Það er ekki í núverandi lögum að við getum afturkallað þau með þeim hætti sem hér er undir og ég held að það sé mikilvægt, ekki síst ef aðilar eru ekki að standa sig. Það er bara gott að hafa það inngrip undir. Ég er sannfærð um að við erum á góðri vegferð með því að fara þá leið að ýta við þeim sem stunda atvinnugreinina til að fara út í fjárfestingar og annað slíkt sem er til þess fallið að færa greinina fram á við fremur frekar en að hún sé kannski áfram í þeim sporum sem við höfum séð undanfarin ár. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fá hana í lið með sér til að bregðast við þeim áhættum sem við henni hafa blasað undanfarin ár og ég tel þetta vera gott skref á þeirri leið. Ég átta mig alveg á því að við sættum aldrei öll sjónarmið en ég held að við séum að fara talsvert langt til þess í þessu frumvarpi.