154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[15:24]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa farið illa með tímann áðan. Það er rétt hjá hv. þingmanni að leyfin eru ótímabundin sem stendur í Noregi en í samkomulagi og stjórnarsáttmála, þetta er kallað Hurdalsplattformen frá 2021, er talað um að vinda ofan af þessu og fara í tímabindingu rétt eins og Færeyingar gera og Írar og í Chile og á Nýja-Sjálandi. Við skulum horfa til þessara landa einnig. Ég er ekki talsmaður þess að hér séu gjöld þannig að fólk geti ekki haft verulega í sig og á við að taka þá áhættu sem því fylgir oft að reka fyrirtæki. En það má nú öllu ofgera. Ég átta mig líka á því hvað felst í ótímabundnum heimildum. Við höfum hins vegar séð það í sjávarútvegsumræðunni að þegar fyrirtæki eru búin að vera starfandi í 30–40 ár, vissulega með ótímabundnum heimildum sem eru veittar til skamms tíma í einu, þá myndast auðvitað ákveðinn réttur þannig að íslenska ríkið getur illa rifið þetta af viðkomandi á stuttum tíma og fólk þarf að hafa einhvern fyrirsjáanleika. Ég hefði talið að það væri miklu eðlilegra eins og í flestum öðrum atvinnugreinum á Íslandi að um sé að ræða einhvers konar tímabindingu og þar eigum við kannski að geta verið sammála. Svo getum við tekist á, hart meira að segja, um það hvort gjöldin eigi að vera svona há eða aðeins hærri eða enn þá lægri. Það einfaldar alla vega umræðuna að við séum komin á sama stað. En ég get með engu móti séð að talsmaður flokks frelsisins vilji afhenda eignir með þessum hætti, eiginlega bara (Gripið fram í.) auðlindir.