154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:27]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Við erum auðvitað fyrst og fremst, eins og kom fram í framsögu minni og ekki síður í samskiptum við aðra þingmenn, að horfa til þess að styrkja framboðshliðina. Það er það sem skiptir mestu máli í þessari jafnvægislist sem við stöndum frammi fyrir. Framboðshliðin er vandamálið og við erum að glíma við það að til séu byggingarhæfar lóðir þar sem eftirspurnin er mest. Eftirspurnin hefur ekki gefið eftir og vextir hafa mikil áhrif á greiðslugetu. Með því að afturkalla það værum við einkum að hafa áhrif á eftirspurnarhliðina frekar en framboðshliðina og meðan vextir eru háir verður það til að draga úr vilja verktaka til að fara af stað. Það eru of fá sveitarfélög sem eru að skrifa undir rammasamninga við innviðaráðuneytið, sem er í sjálfu sér líka áhyggjuefni.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um borgarlínu þá liggur ekki fyrir nákvæm tímasetning á því hvenær ríkið kemur að rekstri hennar.