154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:26]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mig langar hér í seinna andsvari mínu að spyrja um afstöðu ráðherrans til þeirra breytinga sem voru gerðar á endurgreiðslu virðisaukaskatts við nýbyggingu íbúðarhúsnæðis. Ráðherrann kom inn á það í ræðu sinni hér áðan, frekar en í andsvari við annan þingmann, að hún hefði áhyggjur af framboðshlið fasteignamarkaðarins. Endurgreiðslukerfi virðisauka er einn af lykilþáttum þeirra hvata sem nýttir hafa verið í þeim efnum um áratugi og endurgreiðsluhlutfallið hefur aldrei verið lægra en það er nú. Ég spyr um afstöðu til þess. Ég spyr sömuleiðis hvort það liggi fyrir, í þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir hjá ráðherra í tengslum við endurskoðun samgöngusáttmálans, tímalína varðandi það hvenær ríkissjóður sér fram á að fara að leggja til fjármuni til reksturs borgarlínu.