154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:23]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Vinna við endurskoðun á breyttri gjaldtöku á umferð stendur yfir. Ekki er búið að loka þeirri umfjöllun þannig að ég hef ekki fengið til mín tillögur um það með hvaða hætti það yrði útfært. En ég geri ráð fyrir því eðli máls samkvæmt að það komi til umræðu þegar þingmálum sem af því leiða vindur fram. Þetta er auðvitað viðfangsefni sem er stöðugt. Ég minnist þess nú reyndar sjálf að ég sem þingmaður hafi tekið upp sérstaka umræðu við þáverandi samgönguráðherra um fjármögnun samgönguinnviða því að það er stöðugt umræðuefni. En nú hefur verið sett á laggirnar sérstök vinnustofa í samvinnu fjármála-, innviða- og forsætisráðuneytis sem fjallar um fjármögnun samgönguinnviða og ekki bara þeirra innviða sem hv. þingmaður nefnir hér heldur ekki síður jarðganga og sértækra viðfangsefna og verkefna sem falla fyrir utan samgönguáætlun.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um afstöðu mína til samgönguáætlunar eins og hún liggur fyrir þinginu. Og hv. þingmaður spyr sérstaklega um Vesturland. Það er náttúrlega alveg ljóst að þar hafa verið að rísa áskoranir sem voru hreinlega ekki fyrir hendi þegar mælt var fyrir áætluninni á sínum tíma. Ég nefni til að mynda þá staðreynd að við erum að horfast í augu við endurheimt malarvega í Dölum vegna þess hversu mikið álag hefur verið af þungaumferð á því svæði. Það eru auðvitað í áætluninni aukin framlög til viðhalds og til tengivega og til Skógarstrandarvegar sem ættu að nýtast vel á Vesturlandi og skipta miklu máli fyrir hringumferð á því svæði.

Ég treysti hv. umhverfis- og samgöngunefnd vel til að vinna á grundvelli málefnalegra sjónarmiða með augun opin gagnvart þeim áskorunum sem hv. þingmaður nefnir hér.