154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:12]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur. Já, ég geri ráð fyrir því að nefndin hafi möguleika til þess, í samræmi við ábendingu hv. þingmanns. Ég hef ekki staðfestingu á því fyrir framan mig en ég geri ráð fyrir því. Við búum í ótrúlegu landi sem við höfum í sífellt ríkari mæli líka nýtt sem grundvöll ferðaþjónustunnar, við höfum boðið hingað fólki í stórum stíl til að njóta þeirrar ótrúlegu náttúru sem hér er. Með því erum við líka að leggja meira á innviðina okkar, á vegina okkar. Við þurfum að horfast í augu við það að uppbygging þeirrar atvinnugreinar en ekki síður þættir sem eru hornsteinar búsetufrelsis og möguleika til þess að búa hvar sem er á landinu eru algert grundvallaratriði. Það sem hv. þingmaður nefnir hér með mikilvægi viðhalds á vegum er því grundvallaratriði. Ég vil að lokum þakka hv. þingmanni fyrir góðar óskir til mín í embætti.