154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:11]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir viðbrögðin. Hún kom inn á vetrarþjónustuna sem ég ætlaði einmitt að nefna líka. Nútímasamgöngur til og frá svæðum kalla á öfluga vetrarþjónustu. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Þessar snjómokstursreglur og þjónustuflokkar hafa ekki breyst í 13 ár. Samfélagið hefur breyst gríðarlega á þessum tíma og þess vegna fagna ég því að sjá aukna áherslu á þessa vinnu. Mig langar til að spyrja hvort við megum sjá þessa vinnu og viðbrögð Vegagerðarinnar við þessari vinnu sem hefur farið fram í haust með sveitarfélögunum við að búa til þessar nýju reglur og hvort við getum unnið með þær í samgönguáætlun sem er í vinnslu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd.