154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:09]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir að framlög til viðhalds vaxi á tímabili þeirrar áætlunar úr tæplega 13 milljörðum á ári í tæpa 15 milljarða. Í fjármálaáætlun er svo bætt um betur og aukið fé veitt til verkefnisins. Þetta er mikilvægt enda hefur verið bent á það, bæði af hendi Vegagerðarinnar og einnig frá Samtökum iðnaðarins, og frá þingmönnum, eins og hv. þingmanni sem hér spyr, að aukin þörf hefur safnast upp. Samtök iðnaðarins hafa raunar kallað það innviðaskuld í samgönguinnviðum sem í raun á bæði við um vegi ríkis og vegi sveitarfélaganna, um flugvelli og hafnir.

Stærsta skuldin er þó í þjóðvegakerfinu. Það er ljóst að álag á vegi landsins hefur vaxið hratt á undanförnum árum, bæði vegna mikils vaxtar í ferðaþjónustu en líka vegna aukningar í umferð mjög þungra ökutækja. Ráðuneytið er mjög meðvitað um mikla þörf á vetrarþjónustu um allt land. Vegagerðin hefur verið að endurskoða þjónustureglur um vetrarþjónustu og sú vinna er á lokametrunum. Í fjármálaáætlun leggjum við til aukin framlög til vetrarþjónustu en sú þjónusta er í eðli sínu mjög sveiflukennd enda mjög háð veðri og vindum hvert ár eins og gefur að skilja. Undanfarin ár hefur kostnaður við vetrarþjónustu verið meiri en áætlanir hafa gert ráð fyrir. Með auknu framlagi vonumst við til að hægt verði að reka þjónustuna með sambærilegum hætti og hingað til. Þarna erum við að auka sérstaklega í viðhaldsliðinn, um 1 til 1,5 milljarða á ári, þannig að við gerum ráð fyrir að enda í 16,5 milljörðum í lok tímabilsins, sem er þá stökk úr 12 milljörðum miðað við þær áætlanir sem við höfum verið að skoða. Þarna erum við því að tala um aukið fjármagn og líka bætta forgangsröðun.