154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:07]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029 sem byggir á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Í þeirri áætlun birtist forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er áhersla á þau fjölmörgu verkefni sem talið er brýnast að ráðast í við uppbyggingu hinna ýmsu innviða samfélagsins á tímabilinu. Það er auðvitað áskorun þegar fyrir liggur mikilvægasta markmið ríkisstjórnarinnar, að skapa aðstæður til að verðbólga haldi áfram að lækka af því að hún er þegar byrjuð á því.

Hæstv. innviðaráðherra fylgja héðan góðar óskir um velfarnað í sínu starfi. Næg eru verkefnin en það má sjá að ríkisstjórninni sé full alvara með að vinna áfram að uppbyggingu öruggra innviða til að mæta þjónustu og þörfum almennings og atvinnulífs sem stuðlar að sjálfbærri þróun byggða í sveitarfélögum um allt land. Í umhverfis- og samgöngunefnd liggur samgönguáætlun í vinnslu. Þar má finna góð áform um að halda áfram vinnu við endurnýjun á vegum um allt land auk þess sem sést í fyrsta skipti í jarðgangaáætlun. Það er vel og vonandi kemst sú áætlun fljótt og vel til framkvæmda. Nýframkvæmdir í samgöngum hafa verið sem aldrei fyrr í tíð núverandi ríkisstjórnar og það styttist t.d. í að hringvegur um Vestfirði, svo að eitthvað sé nefnt, fari að nálgast nútímann.

Það er sem vorboðinn ljúfi þegar maður fer að heyra um þungatakmarkanir á vegum víða um land. Það er þó ekkert fagnaðarefni þegar verið er að fletta slitlagi ofan af mörgum kílómetrum, eins og t.d. dæmi eru um frá Dölum og fyrir vestan, á Snæfellsnesinu og víðar. Það er auðvitað vegna þess að þungaflutningar hafa aukist gríðarlega um þessa vegi.

Þá langar mig að beina kastljósinu að viðhaldi vega sem er sérfjárliður. Ég vil spyrja hæstv. innviðaráðherra: Er hægt að finna þess merki í fjármálaáætlun að hugað verði sérstaklega að viðhaldi vega, að auknu fjármagni í viðhald vega?