154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:04]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svarið. Mig langar að koma aftur inn á það sem ég ræddi um varðandi samgöngur í fyrra andsvari. Á höfuðborgarsvæðinu búa nú um 250.000 manns. Framlög ríkisins til Strætó hafa ekki einu sinni hækkað í samræmi við verðlag í yfir tíu ár. Í Covid, þegar sveitarfélög ætluðu að hætta akstri Strætó, bað ríkið um að svo yrði ekki án þess að bæta við einni einustu krónu í fjármögnun. Vegna fjársveltis Strætó höfum við þurft að sleppa því að rafvæða flotann. Óljóst umhverfi veldur því að verktakar sem keyra fyrir Strætó hafa ekki getað rafvætt sinn kost. Það eru enn nokkur ár í borgarlínu og í staðinn fyrir að við séum að efla þjónustuna erum við að skerða hana. Ef helmingur þess fólks sem býr á höfuðborgarsvæðinu tapar einum klukkutíma á dag í umferðinni tekur það sex daga að fylla heila mannsævi, heil mannsævi sem er eytt í að bíða á rauðu ljósi eða eftir strætó. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Stendur til að fjármagna Strætó svo að sómi sé að?