154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:00]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegur forseti. Húsnæði er grunnforsenda búsetu á Íslandi. Undanfarin ár höfum við séð hverja uppbyggingaráætlunina á fætur annarri og okkur hefur verið sagt að óþarfi sé að hafa áhyggjur, hér séu ábyrg stjórnvöld sem geti vel tekist á við vandamálið. En eins og kemur skýrt fram í þeirri fjármálaáætlun sem við fjöllum hér um hefur það svo sannarlega ekki verið raunin. Húsnæðisverð hefur stökkbreyst enda má það vera ljóst að ef fallegum markmiðum um húsnæðisuppbyggingu fylgja ekki aðgerðir til að koma tillögum starfshópa í framkvæmd verður lítið um árangur. Það er alveg ljóst að í núverandi umhverfi, þar sem vaxtakostnaður er eins hár og hann er, er kostnaður uppbyggingarverkefna oft mjög framhlaðinn. Það eru því engar forsendur fyrir verktaka til að fara af stað í verkefnin. Það eru blikur á lofti ef við skoðum t.d. veltuna hjá arkitektum og hönnuðum sem eru alltaf fyrsta skrefið í byggingarframkvæmdum. Veltan þar virðist vera að dragast saman sem bendir til að þegar þeim verkefnum sem nú eru í vinnslu lýkur muni samdráttur verða hraður.

Mig langar því að fá upplýsingar um það frá hæstv. ráðherra hvort til standi að styrkja tillögur og koma til framkvæmdar, t.d. því sem er að finna í hvítbók um húsnæðismál: hærri fasteignagjöld á íbúðir sem ekki eru hugsaðar til búsetu, útgreiðslu hlutdeildarlána á framkvæmdatíma, beina húsnæðisstuðningi að tekjulágum og fyrstu kaupendum frekar en almennum kaupendum, skýra regluverk í gististarfsemi, fjölga byggingarhæfum lóðum og tímabundnum uppbyggingarheimildum og styrkja tæknilega grunninnviði.

Forseti. Við þurfum ekki vinnuhópa til að búa til tillögur. Tillögur sem ekki komast til framkvæmda eru fullkomlega gagnslausar til annars en að þykjast. Hyggst ráðherra veita stofnunum eins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fjármagn til að koma tillögum í framkvæmd? Mig langar líka að spyrja hvort hæstv. ráðherra sjái fyrir sér að fara í frekari samhæfingu vinnuskipulags með það fyrir augum að skapa fleiri þéttbýlissvæði en bara á höfuðborgarsvæðinu til að nýta betur þá innviði sem eru þegar til og til að draga úr samgönguþörf á landinu öllu.