154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:19]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra fyrir að vera hér við þessa umræðu. Það er kannski ekki beint á málefnasviði hæstv. ráðherra en það skiptir miklu máli að heyra afstöðu hans til máls sem hann kom með mjög afgerandi hætti inn á á vísi.is í byrjun vikunnar og tengist verðmætasköpun í samfélaginu. Verðmætasköpun er auðvitað grundvöllur þess að hægt sé að styðja með þeim hætti við velferðarkerfin sem við viljum gera mögulegt. Þetta snýr að einum af þremur kjarnaatriðum ríkisstjórnarinnar sem kynnt voru þegar hún var skrúfuð saman, þ.e. orkumálunum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra — ég vona að hann fyrirgefi mér þetta en ég og minn flokkur teljum gríðarlega mikilvægt að verðmætasköpun geti staðið undir velferðarkerfinu sem hæstv. ráðherra á svo mikið undir að virki vel: Hvernig sér ráðherra fyrir sér að ríkisstjórnin haldi á málum sem tengjast orkuframleiðslu næstu 18 mánuði eða fram til loka þessa kjörtímabils? Ég spyr í ljósi þess að hæstv. ráðherra vitnaði nú næstum því með beinum hætti í orð varaformanns Sjálfstæðisflokksins í grein sinni á vísi.is. Það skiptir því máli að við sem hér sitjum getum áttað okkur á hvort verðmætasköpun sé mögulega að koma úr aukinni orkuframleiðslu á næstu misserum eða undirbúningi verkefna, þó að þau taki öll sinn tíma, eða hvort horfa þurfi til annarra átta hvað það varðar að ýta undir aukna verðmætasköpun í samfélaginu.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að fjármálaáætlun er hér til umræðu en ekki er um að ræða almennan fyrirspurnatíma. Ráðherrar sitja hér til svara varðandi málefnasvið enda er umræðu um hinn almenna hluta fjármálaáætlunar lokið. )