154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:17]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég held að við séum öll sammála um að dreifing umsækjenda um alþjóðlega vernd mætti vera með öðrum hætti. Það er ein ástæðan fyrir því að ég beitti mér fyrir því að Vinnumálastofnun og Reykjanesbær ynnu með aðkomu ráðuneytisins sérstaka aðgerðaáætlun sem var gefin út í júní í fyrra, akkúrat til þess að vinna að málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Reykjanesbæ. Eitt af markmiðunum með því er að draga úr fjöldanum sem þar er, hann er hlutfallslega miklu hærri en annars staðar, en líka að ráðast í aðgerðir eins og Offiseraklúbbinn til að geta betur haldið utan um umsækjendur um alþjóðlega vernd í sveitarfélaginu. Það voru óskir frá sveitarfélaginu sjálfu sem skiluðu sér í fjölmörgum aðgerðum akkúrat inn í þá aðgerðaáætlun sem ágæt og góð sátt er um.