154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Því miður virðist það vera landlægt í þessu þjóðfélagi okkar að við virðumst alltaf vilja skilja einhverja út undan. Við höfum aldraða sem hafa verið skildir út undan, við höfum öryrkja, sem er málaflokkur viðkomandi ráðherra hér, og nú eru Grindvíkingar hér fyrir utan að mótmæla og líka hér inni á pöllum. Þar virðist einhvern veginn alltaf vera hægt að skilja einhverja út undan, eða eins og sagt er: Einhverjir detta á milli skips og bryggju. Ég spyr mig að því hvers vegna ríkisstjórn eftir ríkisstjórn getur ekki séð til þess á einfaldan hátt að allir sitji við sama borð, séu jafnir.

Við erum með stórfurðuleg mál í gangi í þjóðfélagi okkar. Við erum með 154 einstaklinga sem eru vistaðir á hjúkrunarheimili, þar sem fólk er að meðaltali 80 ára gamalt, einstaklinga sem eru allt niður undir fertugt. Hver vill vera í þeirri aðstöðu og hvers vegna leyfum við okkur svona? Síðan er hitt að við erum með yndislegan vinnustað sem hefur verið hér sem heitir Múlalundur. Nú er búið að ákveða að brjóta þann vinnustað upp, gjörsamlega. Það á að setja fólk í virkni og í aðra vinnu en ríkið ætlar samt að borga 75% af launum í annarri vinnu næstu tvö árin.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna í ósköpunum var ekki gefinn meiri tími í þetta? Og hvernig í ósköpunum getur það sparað fjármuni og verið gott fyrir þessa einstaklinga, jafnvel þá sem vilja ekki fara annað, að fara í aðra vinnu, og ríkið er samt að borga 75% af launum næstu tvö árin? Hvers vegna í ósköpunum var ekki farið hægar í sakirnar og reynt að tala við þetta fólk og reynt að fá vilja þess fram. Eins og Öryrkjabandalagið og aðrir segja: Ekkert um okkur án okkar.