154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

brottfall ýmissa laga á sviði fjármálamarkaðar.

913. mál
[12:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er gaman að fá svona nostalgíukast í frumvarpi. Hér eru dregin upp mál sem tengjast hruninu og við fáum að rifja upp hvaða banka ríkið eignaðist. Útvegsbankinn dúkkar hérna upp líka. Þetta er bara óvenjulega skemmtileg sagnfræðirispa sem birtist hér í frumvarpsformi. Það liggur við að manni finnist leiðinlegt að vera að leggja til að fella úr gildi lög sem eiga rætur til 1888. Það er næstum orðið það gamalt að það væri kannski rétt að friðlýsa þetta eins og gamla byggingu. Jú, ætli við þurfum ekki að hafa lagasafnið sem hreinast af einhverju sem ekki er notað lengur. Ég ætla ekki að láta nostalgíuna bera mig ofurliði hér.

Mér dettur í hug og þetta er nú kannski aðeins út fyrir efni málsins vegna þess að þegar ég les fyrstu lögin sem lagt er til að fella brott sem tengjast Fiskveiðisjóði, sem rann inn í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, þá rifjast upp fyrir mér eðlislíkur sjóður sem ekki er lengur til, Lánasjóður landbúnaðarins. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, nýta mér tækifærið — vegna þess að það hefur borið mikið á því í umræðum um stöðu bænda síðustu árin að í því hávaxtaumhverfi sem hefur verið hérna á síðustu árum sé fjármagnskostnaður orðinn mjög sligandi fyrir fólk í búrekstri og oft er fólk að rifja upp með nostalgíu í augunum þá daga þegar bændur áttu aðgang að lánsfé á viðráðanlegum kjörum í gegnum lánasjóð Landbúnaðarins — hvort við megum búast við því að litið verði til einhverra slíkra ráðstafana núna á næstu misserum til að búa betur um bændastéttina.