154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

brottfall ýmissa laga á sviði fjármálamarkaðar.

913. mál
[12:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað mjög mikilvægt verkefni sem hér er verið að framfylgja, þ.e. að gera lagasafnið skýrara og eyða þar með óvissu þeirra sem þurfa að fara eftir lögunum. Við þekkjum það sérstaklega á fjármálamarkaði að þar höfum við verið að gjörbreyta öllu lagaumhverfinu og það er orðið miklu flóknara og vissulega meira íþyngjandi og takmarkaðra heldur en var, að gefnu tilefni, vegna efnahagskrísu sem gekk yfir heiminn á árunum 2008 og 2009. Það er hins vegar mikilvægt að gaumgæfa það vel hvort þar séu einhver lög eða einhver atriði í lögum sem virðast ekki skipta máli, hvort þau séu enn í gildi, hvort eitthvað annað hafi tekið við eða hvort það er. Í því ljósi hefur þessi ríkisstjórn verið að gera þetta í fjölmörgum ráðuneytum og hér er afrakstur fjármálaráðuneytisins. Ég tek við hrósinu og er sammála hv. þingmanni um að þetta sé mikilvægt að gera með reglubundnum hætti.