154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

880. mál
[11:49]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Skemmtilegt að frumraun hæstv. ráðherra í nýju embætti sé að mæla fyrir þessu máli vegna þess að tengslin við innviðaráðuneytið eru svo skýr. Þetta frumvarp snýst um eina leið sem hægt er að fara að þeim stóra vanda sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag, hvernig sé hægt að tryggja nægilegt framboð af húsnæði, tryggja nægilegt framboð af þeim grundvallarmannréttindum að fólk geti haft þak yfir höfuðið. Það er nú þannig með stærstu áskoranirnar að svona á yfirborðinu er lausnin mjög einföld, að bara byggja meira af húsum og þá verði nóg af húsnæði. En einhvern veginn hefur þetta reynst þrautin þyngri og hér er litið til aðila sem ég verð að viðurkenna að ég hef stundum furðað mig á að hafi ekki verið dregnir miklu fyrr af miklu meira afli inn í það að leysa framboðsvanda á húsnæðismarkaði. Lífeyrissjóðir landsins búa yfir gríðarlegri fjárfestingargetu en þurfa kannski að vera dálítið íhaldssamir þegar kemur að því hvaða fjárfestingar þeir velja sér vegna þess að þeir höndla með fjöregg fólks á efri árum og mega ekki vera að gambla með það þannig að lífeyrir skerðist hjá sjóðfélögum. En það eru örugglega leitun að öruggari fjárfestingarkosti, sérstaklega hér á Íslandi, en húsnæði. Það hefur þar að auki þau jaðaráhrif sem lífeyrissjóðirnir ættu að geta tekið tillit til og spurning hvort hæstv. ráðherra taki það með sér upp í ráðuneyti að skoða hvort sé hægt að víkka aðeins út, hvað eigum við að segja, að leyfa lífeyrissjóðunum að víkka sjóndeildarhringinn þannig að þeir séu ekki bara að horfa á arðsemiskröfu, séu ekki bara að skoða krónur og aura heldur skoða í auknum mæli hvernig þetta mikla eignasafn þeirra getur haft jákvæð áhrif á þróun samfélagsins.

Segjum að lífeyrissjóðir myndu bara ákveða að leysa húsnæðisvandann, myndu bara sjá til þess að það yrði jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði á Íslandi, myndu fjárfesta í alls konar búsetukostum. Hér er mælt fyrir um uppbyggingu leiguhúsnæðis. Áður hafa lífeyrissjóðir komið að uppbyggingu almennra íbúða til fólks með lágar tekjur og það eru ýmsir aðrir kostir sem lífeyrissjóðirnir gætu komið að. Segjum að lífeyrissjóðirnir myndu bara stökkva fram og á nokkrum árum fylla upp í gatið sem til staðar er. Það myndi hafa jákvæð ruðningsáhrif á allt samfélagið og þar með jákvæð áhrif á skjólstæðinga lífeyrissjóðanna, á lífeyrisþega og verðandi lífeyrisþega. Það myndi tempra óhóflegar verðhækkanir á húsnæðismarkaði sem koma illa við allt fólk í landinu, hvort sem það á eða leigir þá hafa verðhækkanir bein áhrif. Vitandi að hæstv. fjármálaráðherra er skynsamur maður þá reikna ég með að hann muni eiga einhvers konar samtöl af þessu tagi við lífeyrissjóðina í nýju embætti vegna þess að þarna geta þeir virkilega unnið til góðs.

Það er skemmtilegt líka að skoða þetta frumvarp í ljósi þess að það var prentað af öðrum ráðherra en mælti fyrir því en samt sjáum við hér skína í ákveðna samvinnuhugsjón, að í 2. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að það megi rýmka mörk fyrir eignarhluti lífeyrissjóða í félögum þar sem tilgangurinn er að leigja húsnæði til einstaklinga úr 20% í 50%. Þar með erum við komin með hugmynd að módeli sem gæti bara reynst nokkuð gott, að þeir lífeyrissjóðir taki sig saman og vinni saman að því að reka umfangsmikil leigufélög sem geti þá kannski einbeitt sér að ákveðnum svæðum eða að ákveðnum tegundum húsnæðis eða að ákveðnum hópum samfélagsins, tveir eða fleiri lífeyrissjóðir saman gætu gert þetta.

Það sem þyrfti kannski að skoða líka, og það getur vel verið að það sé verið að skoða það uppi í ráðuneyti án þess að ég viti af því, er hvort ríkið þurfi að stíga inn líka, hvort ríkið þurfi að draga sveitarfélögin með sér í samstarf við lífeyrissjóðina eða aðra fjársterka aðila sem hafa almannahagsmuni sem eitt af sínum markmiðum. Ég var t.d. í salnum á viðskiptaþingi í vor þegar nýr borgarstjóri Reykjavíkur, Einar Þorsteinsson, ég held hann hafi aðallega verið að stríða öllum hægri mönnunum í salnum en kannski var eitthvert sannleikskorn í þessu þegar hann sagði að mögulega værum við bara komin á þann stað að það þyrfti opinbert húsnæðisfélag, að ríki og sveitarfélög þyrftu að koma að því að byggja upp húsnæði.

Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að mér finnst þetta bara alls ekki versta hugmynd sem ég heyrt, hvað þá versta hugmynd sem ég heyrt á viðskiptaþingi, sennilega bara ein sú besta sem þar hefur verið borin fram í pontu vegna þess, svo ég komi aftur að upphafspunktinum mínum, að húsnæði er mannréttindi. Það að geta átt heima einhvers staðar er ekki eitthvað sem við getum valið eða hafnað. Við þurfum að búa einhvers staðar. Þess vegna er húsnæðisskortur eitthvað sem við sem samfélag getum ekki sætt okkur við og þau vandræði sem við höfum horft fram á síðustu árum, að fylla upp í gatið á milli framboðs og eftirspurnar, benda til þess að við verðum að fara að hugsa út fyrir boxið. Sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga gæti einmitt verið það sem þarf, að horfa aðeins fram hjá kreddum sem segja að markaðurinn eigi að leysa alla hluti vegna þess að augljóslega hefur hann ekki gert það og vegna þess líka að markaðurinn — ég ætla ekki að tala illa um markaðinn endalaust, tökum hann út fyrir sviga, en það er enginn aðili á Íslandi sem hefur það meginmarkmið að byggja húsnæði til að tryggja það að fólk geti örugglega búið einhvers staðar. Við erum komin með ýmis félög sem standa í uppbyggingu gagnvart ákveðnum hópum í samfélaginu. Við erum með Brynju sem byggir félagslegt húsnæði fyrir öryrkja og gegnir ákveðinni skyldu gagnvart þeim hópi. Við erum með Bjarg sem byggir handa fólki með lægri tekjur, sem nálgast húsnæðisvanda þess hóps sem lausn á því að réttindi séu ekki uppfyllt. Við erum með Félagsstofnun stúdenta sem hefur lyft grettistaki í að jafna aðstöðumun fólks til náms eftir búsetu og efnahag. En þegar litið er á heildarmyndina, þegar litið er á Ísland sem samfélag þá er enginn sem sest yfir allar húsnæðisáætlanir allra sveitarfélaga, öll uppbyggingaráform allra leigufélaganna eða húsnæðissamvinnufélaganna eða hvað það heitir og spyr hvort til sé nægilegt húsnæði til þess að enginn þurfi að búa við skort á þeirri nauðsyn.

Ég held að ég ljúki bara þessari ræðu minni á því að rifja upp þessa afbragðshugmynd borgarstjóra um að ríki og sveitarfélög fari að stinga saman nefjum um það að vinna saman að því að byggja upp húsnæði fyrir fólkið í landinu, ekki bara með því að breyta reglum og vona að einhverjir aðilar taki við sér heldur með því beinlínis að ráða fólk með skóflur, hamar og sög til þess að koma þessu húsnæði á laggirnar. Með því er líka unnið gegn verðbólgunni, með því eru lífskjör í landinu bætt. Með því að draga úr eftirspurnarþrýstingnum á húsnæðismarkaði myndu stjórnvöld vinna almenningi í landinu mikið gagn.