154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

880. mál
[11:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er létt og lítið frumvarp en hefur væntanlega ansi víðtæk áhrif. Ég tel þó að áhrifanna mætti gæta víðar, það mætti stíga aðeins fastar til jarðar hérna. Ráðherra kom inn á það í andsvörum áðan að þetta mál hefði ekki verið á þingmálaskrá en var metið mikilvægt þrátt fyrir það, enda segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Í yfirlýsingu stjórnvalda frá 12. desember 2022“ — það er eitt og hálft ár síðan — „vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði kom fram að stjórnvöld myndu á samningstímabilinu vinna með aðilum til að kanna grundvöll ýmiss konar umbóta. Þar á meðal voru heimildir lífeyrissjóðanna til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði.“

Við verðum dálítið að átta okkur á því hvernig lífeyrissjóðakerfið er uppbyggt. Það er, held ég, ekki sagt nægilega oft eða nægilega skýrt að u.þ.b. þriðjungur af lífeyrissparnaði landsmanna felst í að eignast skuldlaust húsnæði. Það er þessi svokallaða séreignarstefna sem er í rauninni þriðjungur af lífeyrissjóðakerfinu. Lífeyrissjóðakerfinu er ætlað til að taka við ákveðnum vasapeningum í rauninni, framfærslu fólks þegar það kemur á ellilaun. Það er framfærsla án húsnæðiskostnaðar. Lífeyrissjóðakerfinu, eins og við greiðum í það, er ekki ætlað að standa undir því að fólk geti greitt af lífeyri leigu eða afborganir af húsnæði. Það er ekki gert ráð fyrir því og við þurfum að vita það af því að það hefur áhrif á allt sem við gerum í kjölfarið hvað varðar uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem fólk þarf að kaupa og eignast og síðan leiguhúsnæðis. Ef við erum að byggja upp leigumarkað hérna og fólk á að vera alla ævi á leigumarkaði, þá þurfum við að átta okkur á því að þegar fólk fer á ellilífeyri þá hefur það ekki efni á því að greiða leigu. Það er grundvallaratriði að skilja þetta.

Þegar verið er að gefa lífeyrissjóðum heimildir til að kaupa og eiga í leigufélögum, óhagnaðardrifnum leigufélögum, er það gott og blessað en það leysir samt ekki lífeyrissjóðsvanda þessa fólks, þ.e. að hafa ofan í sig og á þegar kemur að ellilífeyristöku. Mér finnst þannig vanta heildarsamhengi í þetta frumvarp, eins og ég gagnrýndi í andsvörum, varðandi mat á áhrifum. Í frumvarpinu er farið yfir mat á áhrifum á hagkerfið og þau eru, eins og segir hérna, með leyfi forseta: „Aukið framboð af leiguhúsnæði fjölgar valmöguleikum einstaklinga til að finna sér hentugt búsetuform.“ Vissulega, en það er tímabundið út af því hvernig lífeyrissjóðakerfið er hannað. Það er ekki hannað til þess að fólk sé í leiguhúsnæði alla ævi og án þess að taka tillit til þess þá er ekki hægt gera svona frumvörp nema þú metir áhrifin af því, heildaráhrif á hagkerfið. Er þetta að fara að skapa einmitt auknar álögur á ríkissjóð þegar kemur að almannatryggingum vegna þess að fólk á ekki eigið húsnæði, þ.e. varðandi húsnæðisstuðning? Hér er sagt um áhrif frumvarpsins á lífeyrissjóði, í einni og hálfri línu: „mun hafa áhrif á alla lífeyrissjóði hér á landi þar sem það felur í sér að heimildir til að fjárfesta eru rýmkaðar.“ Þetta er ekki greining, þetta er staðhæfing. Hún er alveg rétt, en hún er ekki í neinu samhengi við neitt sem er skiljanlegt um hvers konar áhrif þetta hefur og hverjar eru afleiðingarnar. Hér eru líka nefnd þjóðhagsleg áhrif, áhrif á stjórnsýslu og síðast en ekki síst áhrif á ríkissjóð, með leyfi forseta: „Engin bein áhrif eru fyrirséð á ríkissjóð.“ Þetta er rangt. Þetta er bókstaflega rangt. Kannski verða engin bein áhrif á ríkissjóð í fjármálaáætlun eða fjárlögum næsta árs en það verða tvímælalaust stærri áhrif vegna þess einmitt að með þessu er að verið að ýta undir aukningu á leigumarkaðnum sem hefur áhrif á lífeyrissjóðakerfið, hefur áhrif á framfærslu fólks, hefur áhrif á almannatryggingakerfið sem er einmitt fjármagnað af ríkissjóði.

Það virðist vera einhver hefð fyrir því, ég veit ekki hvað ég á að kalla það, að horfa ekki til lengri tíma þegar verið er að greina svona áhrif. Lög um opinber fjármál eru mjög skýr með það að það eigi að greina kostnað og ábata af ákvörðunum og stefnu stjórnvalda og það er sagt til a.m.k. fimm ára. Það má vel vera að þetta frumvarp muni ekki hafa nein áhrif á ríkissjóð næstu fimm árin, það getur vel verið, en ríkið er samt með húsnæðisstuðning, hjálpar fólki við að greiða leigu og ef fleiri sækja um leigustuðning og verðbólgan fer í hina eða þessa átt o.s.frv., þá hefur það áhrif á ríkissjóð. Engin greining hvað það varðar.

Eins jákvætt og það er í rauninni að lífeyrissjóðir stígi skrefið inn á íbúðamarkaðinn þá verðum við samt að huga að stærri myndinni. Það ætti að vera mjög eðlilegt fyrir lífeyrissjóði að fjárfesta í húsnæði einmitt af því að þriðjungur af framfærslu fólks eða svo á efri árum á lífeyristökualdri fer í húsnæði. Það að eiga skuldlaust þak yfir höfuðið er hluti af lífeyrissjóði í rauninni þannig að það er mjög eðlilegt að lífeyrissjóðir tryggi þann hluta. Það hjálpar þeirra hlutverki gríðarlega mikið. Við getum hugsað okkur t.d. að lífeyrissjóðir útfærðu eins konar kaupleigufyrirkomulag fyrir fólk sem er á þessu bili, að geta ekki safnað sér upp í útborgun og byrjað að eignast húsnæði. Það er alveg hægt að ímynda sér að lífeyrissjóðirnir hjálpi þar til við að útvega húsnæði sem er smám saman síðan keypt í formi kaupleigu og lífeyrissjóðurinn fær þannig fjárfestinguna til baka á líftíma viðkomandi kaupanda og húsnæðis, sem er þá hægt að nota til að byggja næstu íbúð o.s.frv. Þannig myndast ákveðin keðja nýrra bygginga sem smám saman mata lífeyrissjóðina með fjármagni til þess að halda áfram. En sú hugsun er ekki til staðar hérna heldur er verið að grípa til einföldu lausnarinnar. Best að leyfa þeim að fara inn á fjármálamarkaðinn og kaupa í þessum fyrirtækjum sem eru að sérhæfa sig í þessu. Gott og blessað, það er ein lausn. En það vantar heildarhugsunin þarna á bak við. Hvaða áhrif mun þetta hafa í samhengi þess að húsnæði er þessi hluti af lífeyri fólks, þ.e. að fólk verði að eiga skuldlaust húsnæði? Það má síðan hugsa um að breyta því, að sjálfsögðu. Það er möguleiki í stöðunni. Allt í lagi, við hættum við séreignarstefnuna og íhugum hvernig við getum útfært lífeyrissjóðakerfið öðruvísi ef við ætlum að gera ráð fyrir því að fólk muni leigja húsnæði út alla ævina. Það er meiri háttar breyting á lífeyrissjóðakerfinu sem þarf þá að taka tillit til líka í stefnu stjórnvalda. En það er ekki verið að gera af því að það er ekki lagt mat á áhrif þess að stíga þessi skref.

Ég kvarta hástöfum yfir því í hvert skipti sem ég sé svona kafla, þetta er hálf blaðsíða hérna um mat á áhrifum, merkilega margir þættir. Nýlunda að sjá að sérstaklega er fjallað um áhrif á hagkerfið, sérstaklega um áhrif á lífeyrissjóði, um þjóðhagsleg áhrif og áhrif á stjórnsýslu og á ríkissjóð, það er nýtt að sjá svona marga þætti, yfirleitt er bara um áhrif á á ríkissjóð. Það er jákvætt að það sé verið að huga að fleiri atriðum. En það vantar algjörlega greininguna og sérstaklega á samhengi mála hvað varðar húsnæði og lífeyriskerfið í heild sinni, hvað séreignarstefnuna varðar og hvernig þetta hefur síðan áhrif til næstu ára og áratuga á þessa blessuðu séreignarstefnu og lífeyrissjóðakerfið eins og það leggur sig.

Það er gott og blessað að leyfa lífeyrissjóðum að fjárfesta aðeins í húsnæði en ég segi bara: Gerum betur. Það þarf að gera betur og gera mikið betur. Þessar greiningar eru ekki boðlegar. Þó að leyfi til fjárfestinga sé svo sem alveg fínt þá vil ég að stjórnsýslan og ráðuneytin sýni okkur svart á hvítu hver áhrifin eru, af því að annars getum við ekkert verið að tala um hvað það kostar að reka hið opinbera og hvað kostar að reka lífeyrissjóðakerfið og þess háttar. Þá erum við alltaf blankó í allri umræðu um efnahagsmál af því að við erum að byggja þá umræðu á einhverjum svona greiningum: Já, já, þetta hefur bara engin áhrif. Eða: Þetta mun hafa áhrif. Hvaða áhrif eru það sem við verðum að tala um?

Hæstv. forsætisráðherra kom hingað í gær og talaði um það í þessari blessuðu stefnuræðu sinni, hálfgerðu stefnuræðu, að fólk þyrfti að ræða málin hérna efnislega. Hvernig er það að ræða málin efnislega þegar greiningin á mati á áhrifum er svona? Ég bara spyr.