154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

880. mál
[11:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er rétt að hér er ekki um neinar skyldur að ræða heldur fyrst og fremst heimild. Enda er það, held ég, miklu eðlilegri löggjöf, að setja inn heimildarákvæði fyrir lífeyrissjóðina. Staðreyndin er sú að á íslenskum húsnæðismarkaði er gríðarleg eftirspurn og það er líka eftirspurn eftir húsnæði til langtímaleigu ekki eingöngu til eignar. Ég hef ekki áhyggjur og efast ekki um að aukin aðkoma lífeyrissjóðanna inn á þennan markað mun hafa jákvæð áhrif hvað það varðar að skapa meiri stöðugleika. Ég nefndi það í framsögu minni að það er ekki stór hluti af leigumarkaðnum sem er í höndum á stórum leigufélögum, í raun ótrúlega lítill hluti. Þetta er mest í höndum á einstaklingum og jafnvel allt að 60% þar sem um einstaklings- eða fjölskylduleigu er að ræða og hitt ekki nema um 40%. Þessu er þveröfugt farið í flestum ríkjum sem við berum okkur saman við og í þeim ríkjum þar sem algengara er að fólk búi í leiguhúsnæði er hlutfallið jafnvel allt upp í 80–90%. En nú er það ekki stefnan á Íslandi, við erum enn með séreignarstefnu. Hér er fyrst og fremst verið að hjálpa til við að lífeyrissjóðirnir geti með heimild komið beint að þessu, sem þeir hafa ekki átt möguleika á til þessa. Það mun leiða til þess að þessi markaður verður stöðugri, hann verður jafnari. Það er enginn vafi í mínum huga að á meðan eftirspurnin eftir nýju húsnæði er eins mikil og nú sé það einmitt hagur slíkra félaga að hafa burði til að byggja áfram með hærra eigið fé með sér sem gerir það að verkum að fjármagnskostnaður, og þar með leiga framtíðarinnar, verður lægri.