154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

880. mál
[11:18]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er væntanlega til þess gert að auka möguleika lífeyrissjóða til fjárfestinga. Að því hefur verið unnið á þessu kjörtímabili, m.a. með því að heimila þeim auknar fjárfestingar í útlöndum sem var af hinu góða og lífeyrissjóðirnir tóku fagnandi. Maður veltir hins vegar fyrir sér tilganginum með þeim breytingum sem þarna er verið að leggja til. Ég er fyrst og fremst að hugsa um lífeyrissjóðina sjálfa. Við vitum auðvitað hvaða hlutverki lífeyrissjóðir gegna til að fólk geti lifað mannsæmandi lífi á efri árum. Ég er því að velta tilganginum fyrir mér, hvort hann hafi verið sá að styðja og styrkja lífeyrissjóðina með einhverjum hætti eða hvort tilgangurinn sé hreinlega sá að reyna að fá þá til að fjárfesta meira í því að auka húsnæðisframboð á Íslandi. Við vitum auðvitað að lífeyrissjóðir eru væntanlega þeir sem hafa haldið uppi lánveitingum inn á íslenskan húsnæðismarkað og ekki bara með því að lána til félagsmanna sinna heldur einnig til að fjármagna fjárfestingar á húsnæðismarkaði með því að veita alls konar lán. Ég spyr um tilganginn, hvort hann sé sá að styrkja lífeyrissjóðina með einhverjum hætti eða hvort þetta sé eingöngu hugsað til þess að reyna að auka framboð á húsnæðismarkaði.