154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

valfrjáls bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

144. mál
[13:03]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Hér er á ferðinni enn eitt sanngirnis- og réttlætismálið fyrir þá sem höllustum fæti standa í samfélaginu. Við erum að tala um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og í þessu tilviki viðauka við hann. Það er nú svolítið nöturlegt að vera hér ítrekað að hlusta á ræður og fögur fyrirheit um það hvernig eigi að taka utan um fatlað fólk og öryrkja og hvernig jafnvel heilu doðrantarnir koma hér, eins og t.d. þessi framkvæmdaáætlun til næstu fjögurra ára sem var kynnt hér í Alþingi fyrir þremur dögum síðan sem hæstv. félags- og vinnumarkaðs ráðherra hefur lagt fram, sem byggir eingöngu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Er það nema furða, herra forseti, að maður sé í rauninni orðinn bara kexruglaður á því sem fram fer hér á hinu háa Alþingi? Ég er búin að mæla fyrir lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks síðan Flokkur fólksins kom á þing, fyrir sjö árum síðan, enda er sá samningur grundvallarstefnumál Flokks fólksins ásamt því að útrýma fátækt. Og hvernig hefur það gengið? Í sýndarmennsku- og sýndarveruleikaheimi er verið að búa til alls konar aðgerðaáætlanir, skipa stýrihópa, segjast vera í samtali við alla aðila sem málið varðar og þar á meðal að fá stærðarinnar skýrslu frá Félagsvísindastofnun HÍ upp á 55 blaðsíður um það hversu frábært það væri að skipa þetta og gera hitt og hugsanlega gera svona og skoða hitt og skipa og enn og aftur í 50 eða 60 liðum. Það væri líka rosalega gaman að vera aftur orðinn tvítugur, ekki satt? En það er ekki nóg að vera með eitthvað í orði. Við í Flokki fólksins viljum sjá raunverulegar aðgerðir. Við viljum sjá raunverulegan samning Sameinuðu þjóðanna og viðauka við hann lögfestan á Alþingi Íslendinga. Það er ekki fyrr en þá og aðeins þá sem eitthvað er að marka það sem hér hefur verið talað um í aðgerðaáætlun til bóta fyrir fatlað fólk.

Í þessari aðgerðaáætlun er byrjað á því, náttúrlega af því að félagsmálaráðherra er yfirmaður Vinnumálastofnunar og það liggur á borðinu, að það koma skýr skilaboð frá ráðuneyti hans um að það muni ekki verða greidd króna til Múlalundar frá og með næstu áramótum. Múlalundur er verndaður vinnustaður fyrir fatlað fólk sem hefur árum saman starfað þar, fatlað fólk sem er eins og ein fjölskylda með mismiklar stuðningsþarfir. Skilaboðin til þeirra eru skýr: Það verður engin mismunun hér, það verður engin atvinna með einhverri aðgreiningu. Hér erum við að koma með atvinnu án aðgreiningar þannig að jafnvel fólk með miklar stuðningsþarfir, eins og eru til þarna, sérþarfir, á bara að setja á almennan vinnumarkað.

Ég er ekki alveg búin að sjá það, herra forseti, að þrátt fyrir að einstaklingur sem er bundinn í hjólastól geti talað og tjáð sig þá sé víst að hann sé kominn með vinnu við hæfi, ekki frekar en sá sem á erfitt að öðru leyti. Ég er ekki viss um að þeir hefðu tekið mig inn í læknadeildina þótt mig langaði til að verða læknir, í ljósi þess að ég er lögblind. Ég er ekki viss um að þeir hefðu tekið mig inn í læknadeildina. Og ég er litblind líka. Ég er ekki viss um að nokkur hefði viljað hafa mig sem skurðlækni undir þeim formerkjum þrátt fyrir einhvern vilja stjórnvalda að vera með mig án allrar aðgreiningar. Það er galið, herra forseti, að bera þetta á borð fyrir venjulegt fólk sem á að vera með meðalgreind. Það er bara algerlega galið.

Afleiðingarnar sem af þessu hafa hlotist, að senda alls konar skilaboð út í kosmósið og í þessu tilviki til fatlaðs fólks sem líður vel í því vinnuumhverfi sem það hefur á vernduðum vinnustað sem er Múlalundur, senda þessi skilaboð til þessara einstaklinga, eru þær að þetta hefur valdið þeim alveg gríðarlega miklum kvíða, gríðarlega mikilli vanlíðan. Hvernig dettur nokkrum í hug að koma með þessi skilaboð? Við vitum það að þessi verndaði vinnustaður er yndislegur vinnustaður eins og allir aðrir verndaðir vinnustaðir sem við eigum. Það er eitt að aðstoða einstaklinga sem hafa síður svona miklar stuðnings- og sérþarfir við að komast á almennan vinnumarkað og annað að senda skilaboð til þeirra allra um að nú eigi að setja þau á almennan vinnumarkað og eyðileggja það sem þau þekkja og hafa upplifað og verið sátt við árum saman.

Ég hvet sveitarfélögin áfram til þess að gera Múlalund sjálfbæran. Við skulum skipta við Múlalund sem aldrei fyrr, kaupa möppurnar þeirra og allt sem við þurfum fyrir skólana, fyrir skrifstofuna. Við verðum að vera dugleg að taka utan um fólkið okkar. Þarna eru 32 fatlaðir einstaklingar á verndaða vinnustaðnum sínum með mismiklar stuðningsþarfir.

Mér finnst ástæða til að nefna það í framhaldi að það var líka vinnuvernd og átak í því að aðstoða fólk við að komast út á vinnumarkaðinn á Reykjalundi. Það var greitt með því fólki og um 50 einstaklingar höfðu farið í gegnum það ferli og hafði gengið mjög vel. Það er búið að taka það af.

Hver er raunverulegur vilji stjórnvalda til þess að tryggja vellíðan og aðstoð við fatlað fólk? Ég held að það þurfi ekki frekari orð um það, það þarf ekki frekari vitnanna við: Á meðan þau löggilda ekki samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og löggilda ekki þann viðauka sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson var að mæla hér fyrir á undan mér, þá er ekkert að marka það sem þau eru að segja, ekki nokkurn skapaðan hræranlegan hlut. Það eina sem hefur legið að baki öllu þessu brambolti um velferð fatlaðra og öryrkja er að fækka öryrkjum án þess að henda þeim fyrir björg. Og hver er aðferðin? Hún heitir starfsgetumat. Hvort sem þér líkar betur eða verr.