154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

málefni aldraðra.

143. mál
[12:41]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Herra forseti. Það hafa verið fluttar hér áhrifaríkar ræður af hálfu hv. þm. Ingu Sæland og Tómasar A. Tómassonar, um þetta mál og það er erfitt fyrir mig að koma hér, óreyndan varaþingmann, á eftir svona ræðuskörungum og fjalla um mannréttindamál sem skiptir þjóðina máli, skiptir sjálfsímynd Íslendinga máli. Það skiptir máli hvernig við komum fram við eldra fólk og þessi staða sem uppi er er átakanleg, á sama tíma og ráðamenn guma af góðri stöðu og að allt sé með besta móti í þessu ágæta samfélagi. En staðreyndin er auðvitað sú að það er ástæða fyrir því að þessi staða er uppi, það vantar einfaldlega hjúkrunarrými og það vantar fleiri en hundrað, það eru nokkur hundruð sem vantar. Það er auðvitað erfið staða fyrir þá sem þjónusta eldri borgara sem þurfa að nýta sér hjúkrunarrými á stofnunum, að þurfa að aðskilja sambúðarfólk og hjón til áratuga og það er í rauninni ekki fallegt að setja stjórnendur þessara stofnana í þessa erfiðu stöðu. En ég segi og hef sagt það áður hér úr þessum ræðustóli í dag að við erum hér að horfa framan í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Það var í forgangi að verja 2.005 millj. kr. í hina miklu sýningu á vordögum fyrir ári síðan, sýningu Evrópuráðsins þar sem ráðherrar gátu speglað sig á rauðum dregli með öðrum ráðamönnum Evrópu og borið sig saman við þá og jafnvel skotist inn í einhverjar glefsur í fréttatímum í stóru fjölmiðlunum úti í heimi. Þessi, hvað eigum við að segja, fjölmiðla- og athyglissýki þeirra, að fá þessa veislu hingað til lands, kostaði sem sagt 2.005 millj. kr. Það hefði verið hægt að koma t.d. til móts við þennan vanda, byggja hér hjúkrunarrými en það var ekki gert. Það er auðvitað sorglegt og undarlegt vegna þess að þeir sem halda um budduna hafa setið oftar en ég undir þessum ræðum og hafa greinarbetri upplýsingar heldur en almenningur um þá hræðilegu stöðu sem uppi er, að það sé verið að skilja að fólk og brjóta mannréttindi á eldri borgurum. Þess vegna spyr maður sig: Hvers vegna er forgangsröðunin með þessum hætti?

Það hefur komið fram hér í umræðunni um hagsmunagæslumann eldri borgara, umboðsmann eldri borgara, og hvernig hæstv., maður þarf víst að taka þannig til orða, ráðherra þess málaflokks skuli bara nánast snúa út úr því máli og setja upp einhvern tengil á ísland.is. Þetta er lítilsvirðing við málaflokkinn og er kannski tímanna tákn um þá stöðu sem uppi er og á hvaða leið sá blessaði flokkur Vinstri grænir er á. Það er hálfömurlegt að horfa upp á þetta en það er rétt samt að vekja ákveðna von í brjósti hjá eldri borgurum þessa lands. Það eru kosningar á næsta leiti, það er væntanlega og mögulega í haust sem ég gæti trúað að það yrði kosið. Þá verður fólk að gera sér grein fyrir því að ef það vill leysa úr þessum vanda, þessum mannréttindavanda íslenskra þegna, eldri borgara þessa lands, að vera ekki aðskildir á síðasta æviskeiði sínu frá maka sínum, þá verður það auðvitað að verja atkvæði sínu með ákveðnum hætti. Ég er nokkuð viss um að við í Flokki fólksins munum setja þetta mál ofar á listann heldur en t.d. frelsismál Sjálfstæðisflokksins sem er að setja brennivín í búðir og þvílík mál, sem eru sett hérna mjög mikið í brennidepilinn.

Þetta mál skiptir máli, ekki einungis fyrir þá sem eiga í hlut, heldur vil ég segja að það skiptir máli fyrir okkur sem þjóð, fyrir sjálfsvirðingu okkar. Ég vona svo sannarlega að þetta góða mál fái góða umfjöllun, góðar umsagnir og fái framgang á þessu þingi.