154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

málefni aldraðra.

143. mál
[12:36]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Kæra þjóð. Mér rennur blóðið til skyldunnar að tala um þetta frumvarp Ingu Sæland. Þetta er eitt það sanngjarnasta frumvarp sem ég hef heyrt hér í þessum sal. Þannig er mál með vexti að ég er alinn upp hjá afa mínum og ömmu. Þegar ég var 15 ára gamall þá féll amma mín frá að morgni til í nóvember 1964. Afi minn sem var sex árum eldri, hann var 85 ára, hún var 79, dó úr sorg sama dag. Þetta undirstrikar það hversu þýðingarmikið það er fyrir fólk að fá að vera saman í ellinni. Í mínu umhverfi voru hjón, sem eru fallin frá í dag, sem voru aðskilin þannig að eiginmaðurinn var settur á dvalarheimili og eiginkonan fékk ekki að vera með honum. Hann grét sig í svefn árum saman af sorg. Þetta er ekki boðlegt. Þetta voru hjón sem höfðu staðið sig vel í lífinu, lagt sig að öllu leyti fram til að vera fyrirmyndarborgarar, borgað háa skatta og staðið sig vel og verið til fyrirmyndar í alla staði en þau enduðu lífið þannig í einsemd árum saman af því að kerfið bauð ekki upp á það að þau gætu verið saman.

Eins vil ég taka undir það sem hv. þm. Inga Sæland kom inn á, að fá að búa í sínu eigin húsnæði í ellinni. Það eru ekki allir sem geta gert það en þeir sem geta það þurfa að fá aðstoð við það að vera þar í sínu umhverfi þannig að allir séu sáttir við það og allir viti að það fari vel um viðkomandi aðila. Það er eins og Inga segir, aðra hverja viku deyr eldri borgari einn heima hjá sér og finnst ekki fyrr en eftir einhverja daga eða vikur þess vegna. Jafnvel um daginn heyrði ég þess getið að viðkomandi hefði fundist eftir þrjá mánuði.

Við þurfum að vanda okkur við það að hjálpa fólki að lifa í ellinni þó að það sé ekki lengur að skaffa til hins sameiginlega sjóðs okkar. Þetta er fólk sem á það skilið að lifa með reisn. Það er spurning þegar talað er um að viðkomandi sem er kominn inn á stofnun geti haft með sér sambúðaraðila, hvort ekki megi gefa ráðherra tækifæri til að vega og meta hversu vítt það er og leyfa fólki að búa saman, jafnvel þó að það sé ekki í hefðbundnum skilningi hjón, það gæti verið þess vegna dóttir viðkomandi sem er orðin fullorðin en ekki nógu gömul til að fara á elliheimili en þau eru búin að búa saman allt sitt líf. Það má telja þetta fólk sem sambúðarfólk. Það er svo mikið atriði að vera í nánu umhverfi við ástvini sína öllum stundum. Það eru ekki allir sem eru tilbúnir til að vera einir dögum saman. Þeir sem geta það, það er bara fínt, það er þeirra val og þeir eru bara ánægðir, en um hina sem þurfa á því að halda þarf að búa þannig um að þeir fái þá aðstoð sem þarf. Við erum ekkert of góð til þess að sjá til þess að hinn fullorðni einstaklingur á Íslandi geti lifað sómasamlegu lífi allt til enda dags.