154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

málefni aldraðra.

143. mál
[12:15]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Herra forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, um rétt til sambúðar. Ég vil taka það fram að Flokkur fólksins er ítrekað að koma með úrbætur og koma með gæði til handa eldra fólki sem er að ganga í gegnum sitt síðasta æviskeið. Í rauninni get ég sagt það hér að það virðist vera afskaplega innantómur og holur hljómur í því þegar félags- og vinnumarkaðsráðherra kemur hér með samantekt um hversu gott það sé að eldast á Íslandi í dag. Dæmi hver fyrir sig. Ég veit um þúsundir aldraðra sem myndu alls ekki getað tekið undir það að það væri gott að eldast á Íslandi, hvað þá að það sé einhver möguleiki á því að eiga áhyggjulaust ævikvöld.

Með mér á þessu frumvarpi er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins að vanda, þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Öllum þingmönnum var boðið að gerast meðflutningsmenn á þessu frumvarpi.

1. gr. frumvarpsins:

„Við 14. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

Maki eða sambúðarmaki heimilismanns á stofnun fyrir aldraða skal, án tillits til þess hvort hann hafi gengist undir færni- og heilsumat, eiga þess kost að dvelja á stofnun ásamt heimilismanni.“ — Maka sínum. — „Maki skal greiða sanngjarna leigu vegna veru sinnar og greiða þann kostnað sem af dvöl hans hlýst og maki skal eftir atvikum hafa aðgang að þjónustu stofnunarinnar gegn gjaldi. Maki eða sambúðarmaki getur dvalið á öldrunarstofnuninni eftir fráfall heimilismanns og öðlast þá viðkomandi sjálfstæðan rétt sem heimilismaður á stofnun fyrir aldraða ef hann kýs svo.“

Þarna er Flokkur fólksins að tryggja það að einstaklingur sem vill fylgja maka sínum, sem er orðinn veikur og hefur gengið í gegnum færni- og heilsumat og talið að hann þurfi nauðsynlega að búa síðustu æviárin á hjúkrunarheimili, geti fylgt honum, verið með honum og verið hjá honum, fyrir utan það að ef í rauninni sá aðili sem hefur gengið í gegnum færni- og heilsumat fellur frá á undan þá muni makinn fá áframhaldandi rétt til að búa á stofnuninni.

„Ráðherra setur reglugerð um dvöl maka og sambúðarmaka á öldrunarstofnunum þar sem m.a. skal tilgreina greiðslur, greiðslufyrirkomulag, réttindi, tryggingar og kostnaðarþátttöku ríkisins.“

2. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„2. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Enginn getur dvalið til langframa í hjúkrunarrými eða dvalarrými án undangengins mats færni- og heilsumatsnefndar á þörf fyrir slíka dvöl nema“ — þetta er algjört grundvallaratriði, sá sem getur það er: „maki eða sambúðarmaki heimilismanns skv. 14. gr.“

Þarna erum við að tryggja að það verði ekki aðskilnaður. Hjónum og sambúðarfólki, sem hefur haldið saman megnið af ævinni og þekkir í rauninni best og gerst hvort annað í gegnum allt lífið, á aldrei undir neinum kringumstæðum að stía í sundur, aldrei nokkurn tíma. Það er alveg 100% hjarta Flokks fólksins sem slær í takt við það, aldrei á löggjöfin að ganga fram með þeim hætti að það sé mögulegt að stía þessu fólki í sundur.

Í 3. gr. segir að lögin öðlist þegar gildi.

Í 4. gr. kemur fram breyting á öðrum lögum, af því að það er nú oft þannig að það er keðjuverkandi, þú ætlar að laga eitt en það hefur áhrif á aðra lagabálka þannig að það þarf að reyna að líta til þeirra í leiðinni þannig að 4. gr. er breyting á öðrum lögum:

„Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007:

a. 2. málsl. 7. gr. c laganna orðast svo: Enginn getur dvalið til langframa í hjúkrunarrými án undangengins mats færni- og heilsumatsnefndar á þörf fyrir slíka dvöl nema maki eða sambúðarmaki heimilismanns samkvæmt lögum um málefni aldraðra.“

Þarna erum við að ítreka nákvæmlega þetta. Svona höldum við áfram í gegnum ferlið og ég ætla ekki að tíunda það lengra en ég ætla að líta hér inn í greinargerðina með frumvarpinu.

Öll viljum við fá að eldast með reisn. Við viljum njóta efri áranna í faðmi fjölskyldu okkar enda er það svo að friðhelgi fjölskyldunnar er varin í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, hvorki meira né minna, stjórnarskrárvarinn réttur okkar, friðhelgi fjölskyldunnar. Það er engin almenn löggjöf sem á að geta stíað mökum í sundur eða sambúðarmökum eða þeim sem vilja fylgjast að þar til yfir lýkur. Stjórnarskráin tryggir það en því miður er fjölskyldusameining ekki tryggð í lögum um málefni eldra fólks en það er það sem við erum að biðja um hér.

Réttur til dvalar á öldrunarstofnun er bundinn því skilyrði að viðkomandi hafi undirgengist færni- og heilsumat sem sýni fram á þörf hans fyrir dvöl í hjúkrunar- og dvalarrými og því gerist það iðulega þegar einstaklingur þarf heilsu sinnar vegna að leggjast inn á hjúkrunarheimili að hann er gerður viðskila við maka sinn. Við skulum ímynda okkur hvernig það er að vera búin að halda saman lífið, allt lífið, vera með í rauninni það sem eftir stendur þegar börnin eru flogin úr hreiðrinu að eiga bara hvort annað í rauninni dagsdaglega sem lífsförunaut og ástvin. Er einhver að velta því fyrir sér, með þeirri aðför sem gerð er að eldra fólki þegar verið er að stía því í sundur, hversu alvarlegar afleiðingar það hefur á andlega líðan einstaklinganna, ekki síst þess sem er skilinn frá og er eftir heima? Allt í einu er ástvinurinn farinn á hjúkrunarheimili og viðkomandi er einn eftir. Félaginn er farinn og hann má ekki fylgja honum þó að hann vilji það af öllu hjarta.

Það gengur það langt að eldra fólk, vegna fráflæðisvandans hins svokallaða, sem við í Flokki fólksins höfum kosið að kalla útskriftarvanda á Landspítala, þar sem hátt í hundrað eldri borgarar daga uppi í kerfi sem getur ekki tekið utan um þá, getur ekki fundið þeim eðlilega búsetu, hugsið ykkur, getur ekki fundið þeim hjúkrunarrými — hvers lags stjórnvöld eru þetta, virðulegi forseti? Hvers lags utanumhald er þetta um samfélagið? En það ætti ekki að koma neinum á óvart því það er í rauninni sama hvert við lítum, hvaða stoð við ætlum að skoða í samfélaginu í dag, þær standa nánast allar á brauðfótum. Við getum í rauninni hvorki litið til menntamála, heilbrigðismála, samgöngumála, húsnæðismála eða bara atvinnumála eða hvað eina annað sem er öðruvísi en að þurfa að viðurkenna að það standi á brauðfótum. Við skulum ekki gleyma að það er mannanna verk, algjörlega í umboði ríkisstjórnar hverju sinni, algerlega. Öll góð mál sem gætu hjálpað þessum einstaklingum — en þau sjá ekki einu sinni sóma sinn í að fylgjast með því sem stjórnarandstaðan er að gera og þeim góðu verkum sem við erum að vinna að og gætu leikandi fengið hvatningu frá. Ég veit að stjórnarandstaðan eins og hún leggur sig, við höfum alltaf greitt atkvæði með því sem við teljum vera jákvætt fyrir samfélagið í heild, alltaf. Við höfum aldrei verið að velta því upp hvaða flokkur það er sem kemur með góðu hugmyndina. Ef hún er góð þá ber okkur skylda til að veita henni brautargengi. Það er bara þannig. Til þess erum við kjörin og við sverjum drengskapareið um að við ætlum að gera okkar besta fyrir land og þjóð.

Með frumvarpi þessu erum við að leggja til þessar breytingar á lögum um málefni aldraðra til að tryggja réttinn til sambúðar. Við eigum aldrei að aðskilja fólk, aldrei nokkurn tíma. Við getum bara séð fyrir okkur núna tæplega hundrað einstaklinga sem eru í rauninni inni á Landspítala þar sem stjórnendur hafa ítrekað kallað eftir úrbótum hvað það varðar, ítrekað kallað eftir búsetuúrbótum fyrir fólkið sem þau geta ekki gert neitt lengur fyrir. Það er tilbúið til útskriftar. Þetta eru dýrustu hjúkrunarrými á landinu ef ekki í öllum heiminum. Þetta eru dýrustu legurými sem hægt er að finna á Íslandi í dag, mörgum sinnum og margfalt dýrari heldur en það að ráðast í alvöruuppbyggingu, að fylla þörfina fyrir raunveruleg hjúkrunarrými þannig að allir geti í rauninni vel við unað og það sé raunverulega gott að eldast á Íslandi í dag. En í staðinn fyrir það að þessir einstaklingar upplifi áhyggjulaust ævikvöld, upplifi að stjórnvöld séu að virða verkin sem þau hafa unnið í sveita síns andlitis alla ævina, taki utan um þau og sýni þeim virðingu eins og okkur hefur verið kennt frá bernsku, að sýna fullorðnu fólki virðingu, í stað þess að gera það er sýnd alger vanvirðing og upp á vegg eru hengd alls konar plaggöt um það hvað sé gott að eldast á Íslandi og hvað allir eigi að vera góðir við aldraða.

Ég segi, virðulegi forseti: Hér erum við með fjölskyldusameiningu sem grundvöll að gæsku, mannúð og mannréttindum, fjölskyldusameiningu þar sem við viljum að enginn sé skilinn frá fjölskyldu sinni öðruvísi en að við komum þeim til aðstoðar til að sameina fjölskylduna ef þess er nokkur kostur. En við getum ráðist á eldra fólk og stíað því í sundur. Það er það sem við erum að gera. Þarna fer ekki saman hljóð og mynd, mismunun og aðför að eldra fólki og hvernig í rauninni — af því að þau eru hætt að vinna, þau eru hætt að borga skatta í kassann. Þau eru í rauninni farin að fá greitt úr þeim sjóðum sem þau hafa þegar í rauninni áunnið sér allan rétt til þess að fá greitt úr, og þau eru komin á þann stað að þau þurfa að fá 100% þjónustu og þakklæti fyrir lífið með okkur hér í samfélaginu fram á sitt síðasta æviskeið. Það sem þau fá er vanþakklæti, lítilsvirðing, orð á blaði, engar gjörðir og haldið áfram í rauninni þeirri stefnu að gefa þeim ekki kost á að fá varanlegt búsetuúrræði á hjúkrunar- og dvalarheimilum.

Við skulum líka átta okkur á því hvernig stjórnvöld hafa farið með hjúkrunar- og dvalarrými. Þau ákváðu að það væri best að eldast heima, að vera heima sem lengst. Það sá ég á mínum elskulega föður að hann var löngu hættur að geta sinnt sér sjálfur. Hann vissi ekki lengur hvort það var morgun eða kvöld. Af því að hann bjó ekki hjá okkur gerðum við okkur ekki grein fyrir því hversu erfitt hann átti raunverulega. Það kom þarna annað slagið einhver hjúkrunarfræðingur og tók hjá honum blóðþrýstinginn og hann var að verða níræður og fékk ekki pláss á hjúkrunar- og dvalarrými í sinni heimabyggð. Hann þurfti að bíða og hann var ekki bær til að vera heima. Hann bjó hjá mér í rúm tvö ár áður en hann fékk pláss á hjúkrunar- og dvalarrými, ósjálfbjarga, þurfti alla þjónustu og umönnun frá okkur heima. Það er ekki nóg að segja: Elskulegi eldri borgari, þú átt að búa heima hjá þér eins lengi og mögulegt er, þangað til þú ert orðinn algerlega ósjálfbjarga. Þá munum við grípa þig. Þá færðu í fyrsta lagi ekki þá þjónustu sem þú þarft þótt þú búir heima. Í öðru lagi er enginn að fylgjast með því hvenær raunverulega þú ert ekki bær til að vera einn lengur heima og ert orðinn sjálfum þér jafnvel hættulegur í allri þinni einsemd. Enginn fylgist með því. Í þriðja lagi, þegar þú kemst loksins í hjúkrunarrými þá ertu búinn að bíða mislengi, mismörg ár. Það eiga ekki allir bakland eins og pabbi minn. Það eiga ekki allir fjölskyldu sem getur tekið utan um þá og hjálpað þeim eins og pabbi minn. Hins vegar deyja heima eldri borgarar, ég man ekki hvort það var aðra hverja viku, aðra hverja viku deyr eldri borgari einn heima. Um 26 einstaklingar á ári deyja einir heima og finnast eftir mislangan tíma. Hugsið ykkur, svona er Ísland í dag, þetta litla samfélag þar sem við höfum viljað taka utan um og raunverulega gefa fólki kost á því að upplifa að það sé gott að eldast hér heima, að það sé gott og við sýnum kærleika og gæsku gagnvart hvert öðru.

Flokkur fólksins kom líka með þingsályktunartillögu um hagsmunafulltrúa fyrir eldra fólk. Hún var einróma samþykkt hér á Alþingi Íslendinga — það er gott að eldast á Íslandi — og hvernig var farið með þá þingsályktunartillögu? Einróma samþykkt, einróma. Það vildu allir að eldra fólk fengi hagsmunafulltrúa sem myndi þá kortleggja stöðu þess félagslega og fjárhagslega, koma í veg fyrir að það myndi einangrast heima, koma í veg fyrir það sem ég sagði áðan, að það dæi aleitt heima með ekkert bakland. Hvernig tók framkvæmdarvaldið á því? Hvernig tók hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, á því? Hann fleygði því hreinlega í ruslið. Það er langt síðan þetta embætti átti að vera komið til framkvæmda, langt síðan. En í staðinn er verkefnið Gott að eldast og það eiga að vera tveir símsvarar á island.is sem eiga að anna um 60.000 eldri borgurum á Íslandi í dag og þeirra spurningum: Hver er réttur minn? Hvert á ég að snúa mér? Hver þekkir það ekki að eiga erfitt með að skilja t.d. samskipti sín við Tryggingastofnun ríkisins? Hver þekkir í rauninni rétt sinn gagnvart íslenskri löggjöf? Það þarf í rauninni löglærðan einstakling, lögfræðing, til að geta gengið um þetta stjórnsýslukerfi hér og fullkomlega vitað hvaða réttindi viðkomandi hefur.

Bara þetta frumvarp sem ég er að mæla fyrir hér og nú, að tryggja það að fullorðnu fólki sé ekki stíað í sundur á síðasta æviskeiðinu, tryggja að það sé raunverulega a.m.k. liður í því sem hér hefur verið boðað og básúnað hástöfum hér úr þessum ræðustól, að hér sé raunverulega gott að eldast og það sé raunverulegur vilji stjórnvalda til þess að framkvæma og sýna það í verki að hér sé gott að eldast — nei, ég þarf ítrekað að koma fram með mál til að tryggja það að makar séu ekki skildir að, sambúðarmakar séu ekki skildir að á síðasta æviskeiðinu, að þeir fái að ganga síðasta æviskeiðið saman og styðja hvort annað, að við séum raunverulega að fylgja friðhelgi fjölskyldunnar sem tryggð er í 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Ég segi bara þetta, virðulegur forseti: Maður getur alltaf látið sig dreyma um að allt í einu vakni þessi ríkisstjórn upp við það að hún sé í rauninni ekkert svo sérstök fyrir alla, hún sé í rauninni ekki að hugsa um heildina, hún sé í rauninni vond á köflum við þá sem hún þyrfti í rauninni að taka utan um. Þessi sjö ár sem ég hef verið hér kjörinn fulltrúi á Alþingi Íslendinga hef ég orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum. Ég kom hingað uppfull af væntingum um að það væri raunverulegur vilji hér til að gera góða hluti. Ég var jafnvel enn þá með þessar væntingar þegar ég var búin að vera hér í tvö ár og hélt að þetta hefði bara verið einhver misskilningur, að öll okkar góðu mál Flokks fólksins, sem sneru öll að því að hjálpa okkar minnstu bræðrum og systrum, skyldu einhvern veginn alltaf daga uppi í nefndum og aldrei fá hér lýðræðislega meðferð á Alþingi, að við fulltrúarnir gætum aldrei greitt um þau atkvæði nema ríkisstjórninni þóknaðist svo. Ég hélt að þetta væri einhver misskilningur en nú sjö árum seinna er það enginn misskilningur. Það er staðreynd. Það er staðreynd að hið svokallaða lýðræði hér er ekkert lýðræði. Lýðræðið hér felst bara í því að velja sér valdhafana, að kjósa þá sem velja saman til að vera ríkisstjórn og vera alráður í samfélaginu. Við hin, tæplega helmingur kjörinna fulltrúa, þingmanna, höfum í rauninni ekkert að segja. Hér ríkir sem sagt lýðræði í því formi að velja sér valdhafana. Eftir það ríkir hér á milli kosninga algjört einræði og í sumum tilvikum hrein og klár valdníðsla.