154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

139. mál
[12:06]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hérna frumvarp til laga um breytingu á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, fjárhagsupplýsingar einstaklinga. Það er eiginlega stórfurðulegt ef við hugsum út í það að þeir sem eru búnir að vera kannski í lánastofnunum, banka, með viðskiptin í tugi ára og eru t.d. að reyna af fremsta megni að safna sér inn til að geta keypt sér húsnæði — ég veit um dæmi um fólk sem er búið að vera að reyna að safna og er bara á t.d. örorkubótum. Sumir hafa með ótrúlegri sparsemi náð því að reyna fyrst að ávaxta sitt fé vegna þess að það er nú ekki heiglum hent vegna þess að fyrst þarftu að borga fjármagnstekjuskatt af því og svo þegar þú ert kominn yfir frítekjumark þarftu að borga 45% aukaskatt ofan á það þannig að viðkomandi er aldrei að fá ávöxtun á fé sitt. Síðan fer viðkomandi til bankans síns og ákveður að hann er búinn að finna ódýra íbúð og hann sér fram á að hann geti farið úr 220.000–230.000 kr. leigu niður í 150.000 kr. útborgun. Hann getur bætt hag sinn í sjálfu sér þarna, a.m.k. það að hann er að eignast húsnæði, og minnkað greiðslubyrðina á mánuði um 70.000–80.000 kr. Hvað verður gert við þennan einstakling? Jú, hann verður að fara í greiðslumat. Bankinn sendir hann þangað, í greiðslumat. Auðvitað fær þessi einstaklingur ekki greiðslumat af því þeir hjá Creditinfo reikna út að það sé alveg vonlaust að gefa þessum einstaklingi greiðslumat vegna þess að hann standi ekki undir því að greiða. Bankinn tekur það bókstaflega og neitar viðkomandi, um að hann standist ekki greiðslumat. Samt hefur viðkomandi kannski sannað fyrir bankanum að hann sé búinn að borga húsaleigu í nokkur ár og ráði alveg við 220.000–230.000 kr. húsaleigu og lifi af með það, en má ekki bæta hag sinn um 70.000–80.000 kr. og reyna að eignast sitt eigið húsnæði.

Það er eiginlega fáránlegt að bankastarfsemin og að lánastofnanir skuli nota Creditinfo sem hækju til að lemja á þeim sem virkilega þurfa og geta sýnt fram á það að þeir geta stórlækkað greiðslubyrði sína með því að fara úr okurleiguhúsnæði í eigið húsnæði. Það segir sig sjálft að út frá því þá eigum við hreinlega að sjá til þess að samþykkja svona frumvarp en eins og hv. þm. Inga Sæland tók fram, það er ekki mikil stemning í salnum, nema jú, stemningin er hjá Flokki fólksins, við erum hérna ein í salnum auk hæstv. forseta. Þetta sýnir alveg svart á hvítu fyrir hverja þessi ríkisstjórn starfar. Hún er langt frá því að starfa fyrir almenning í landinu, hún er bara fyrir auðvaldið og útvalda sem þeim eru þóknanlegir. En maður getur alltaf látið sig dreyma, það er a.m.k. allt þegar þrennt er, sem er búið að reyna og núna er þetta í fjórða skiptið. Vonandi verður það þá fullreynt og þetta verður vonandi samþykkt.