154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

uppbygging klasa opinberra fyrirtækja og stofnana.

133. mál
[11:47]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Hér er þingsályktunartillaga sem ég styð heils hugar og ætla að leggja henni örlítið nesti. Það er að ég held að ef svona tillaga eigi að ná fram að ganga og verða að veruleika þá þurfi þeir sem stýra opinberum stofnunum að fá eitthvert hagræði. Það þarf að vera einhver hvati fyrir þá að færa störf út á land, það verði einhver sjóður eða eitthvað sem þeir geta sótt í eða einhver ávinningur sem verður til þess að þeir leitist eftir því að staðsetja störfin annars staðar en akkúrat hér í umferðarteppunni í annars fallegri borg. Ég held að það sé málið. Síðan er ég viss um að við sem erum hér inni, þingmenn og stjórn Alþingis, ættum líka að horfa aðeins inn á við. Það hafa verið störf úti á landi á vegum Alþingis á Norðurlandi og að nokkrum árum liðnum voru þau dregin til baka.

Þetta er gott mál og ef þetta á að heppnast þá þarf, held ég, að búa til einhverja hvata inni í kerfinu þannig að það verði ekki þannig að einhverjar beinar tillögur koma fram, það verði sett nokkur störf út á land eða eitthvert húsnæði og síðan verður dreginn kraftur úr því þegar árar illa í efnahagslífinu og viðkomandi stofnun þarf að rifa seglin.