154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

117. mál
[11:25]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Þessi svör hv. þingmanns komu mér nokkuð á óvart, að taka þessa stuttu athugasemd svona óstinnt upp. Ég var hér að tala um að það væri jákvætt að efla frið en benti á að það færu ekki saman orð og efndir hjá Vinstri grænum, alls ekki í þessu máli og reyndar ekki í ýmsum öðrum. Það er ekki hægt að líta fram hjá því, ef menn skoða þetta frumvarp, hverja vantar á frumvarpið. Alla ráðherra flokksins og einnig þingmann flokksins sem er í utanríkismálanefnd. Auðvitað er það að leggja þetta frumvarp fram núna fyrst og fremst til þess að friða þá liðsmenn Vinstri grænna sem eru óánægðir með þá stefnu sem hæstv. forsætisráðherra hefur rekið, fagnað stækkun bandalagsins, og nú vill hv. þingmaður og framsögumaður þessa frumvarps halda því fram að um sé að ræða hernaðarbandalag og illt bandalag. Það fer þá ekki saman ef hæstv. forsætisráðherra talar fyrir stækkun bandalags sem er svona illt.

En hvað sem því líður ætla ég að koma að örstuttri athugasemd til að gera þetta frumvarp skárra þegar það verður eflaust flutt í nítjánda eða tuttugasta sinn. Ég að velta fyrir mér 10. gr. og hvort hún sé ekki óþörf. Er ekki frjáls för umræddra skipa fyrir utan 12 mílurnar og hafa ekki íslensk stjórnvöld lítið um það að segja? Auðvitað hefur svona tillaga einhver pólitísk áhrif og hún er jákvæð að því leytinu til. Það er jákvætt að tala fyrir friði, en ef maður skoðar kannski verk hæstv. forsætisráðherra þá eru þau ekki í samræmi við þetta frumvarp. (Forseti hringir.) Það held ég að fari alls ekki á milli mála.