154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

117. mál
[11:23]
Horfa

Flm. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að leiðrétta hv. þingmann, sem kallar NATO friðarbandalag. Þetta er hernaðarbandalag, það er alveg ljóst. NATO er ekki friðarbandalag. Ég ætla einnig að fá að vísa til föðurhúsanna þeirri fásinnu sem hv. þingmaður heldur hér fram. Þetta er auðvitað algerlega úr samhengi tekið og út úr korti að halda því fram að forsætisráðherra Íslands sé einhver sérstakur talsmaður NATO og sé í einhverju klappliði fyrir það.

Ég ætla að ítreka það sem ég sagði hér í andsvari við hv. þm. Andrés Inga Jónsson, að ég hef verið ákaflega stolt af því að forsætisráðherra Íslands hefur notað öll tækifæri á vettvangi NATO til þess að tala fyrir friði. Það mun hún án efa gera áfram.

En svo að öðru, þá finnst mér þetta bara ekki málefnaleg umræða. Ég held að það sé alveg ljóst að hv. þingmaður er í grunninn sammála frumvarpinu. Í stað þess að koma hér upp og fagna því og tala fyrir friði og afvopnun kjarnorkuvopna og friðlýsingu Íslands fyrir þeim, kemur hann upp til að sparka í hæstv. forsætisráðherra og ýjar að því að hér sé einhver maðkur í mysunni og það finnst mér bara fyrir neðan beltisstað.