154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

117. mál
[11:20]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég lýsa því yfir að ég er ánægður með anda frumvarpsins. Auðvitað er það sorglegt að svona miklir kraftar og orka fari í stríðsrekstur og það mætti miklu frekar vera þannig að jafn mikill kraftur færi í það að efla friðarviðræður og annað. Það væri auðvitað jákvætt og að því leytinu er þetta frumvarp hið besta mál. En á móti kemur að þetta frumvarp, ef maður ber það saman við stefnu ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra og forsætisráðherra, fer ekki alveg saman við þá stefnu því að það hefur verið rekin svona hernaðaruppbyggingarstefna í valdatíð hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur. Einnig má segja að það hafi borist fagnaðaróp úr herbúðum Vinstri grænna þegar NATO hefur stækkað og jafnvel hefur hæstv. forsætisráðherra beitt sér fyrir stækkuninni og því að greiða götu annarra Norðurlandaþjóða inn í þetta ágæta friðarbandalag NATO. Auðvitað er það jákvætt, ef eitthvað er til í því, að hæstv. forsætisráðherra hafi beitt sér innan NATO fyrir friðarviðræðum, fyrir auknu samtali og að ná saman án þess að fara í stórfelldar hernaðaraðgerðir. En það fer bara ekki saman, þetta frumvarp og þær fréttir sem berast af verkum hæstv. forsætisráðherra og framgöngu hennar. (Forseti hringir.) Það er miklu frekar að hún sé að fagna stækkun bandalagsins en hér kemur hv. þingmaður Vinstri grænna og talar um að hún vilji leggja niður bandalagið.