154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

almenn hegningarlög.

131. mál
[18:40]
Horfa

Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða spurningu. Það er nú einu sinni þannig að gerendur í þessum málum vita nákvæmlega hvar aldursmörkin eru. Þeir sækja rosalega mikið í 15, 16 og 17 ára börn. Þeir láta 14 ára og yngri oftast vera. Það er líka ekki mikið af 14 ára og yngri inni á samfélagsmiðlum vegna þess að sumir samfélagsmiðlar banna það alla vega frá 12 ára aldri. Það er ekki eins mikill fjöldi og þó að það sé ráðist á þau líka þá sjá þeir 15, 16 og 17 ára sem upplögð skotmörk, sér í lagi vegna þess að þau hafa ekki sama þroska og er auðveldara að tæla heldur en þau sem eru eldri. Og það er ekkert ólöglegt, alla vega miðað við þá dóma sem hafa fallið virðist það bara vera í lagi að 15 ára stúlka sé tæld af 59 ára gömlum manni. Svo lengi sem viðkomandi nær að byggja upp eitthvert trúnaðarsamband við viðkomandi er þetta ekki skilgreint samkvæmt lögum sem nauðgun. Af því að hún hafði ekki þroska til að segja nei þá er það því miður þannig að þessir gerendur komast upp með svona brot. Með því að hækka aldurinn upp í 18 ár þá erum við að setja mörkin hærra fyrir hverja þú mátt vera í sambandi við og erum alla vega að reyna að vernda börnin, sem er jú það sem skiptir öllu máli.