154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

lögreglulög.

128. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegur forseti. Þetta mál er frekar smátt í sniðum en gæti haft mikilvægar afleiðingar í för með sér fyrir rétt okkar allra hér á Íslandi til þess að mótmæla friðsamlega án þess að vera sótt til saka fyrir það. Það sem við leggjum til með þessu frumvarpi er að á undan orðinu „fyrirmælum“ í 19. gr. lögreglulaga, þar sem talað er um að almenningi sé skylt að hlýða fyrirmælum lögreglu, komi: lögmætum. Við leggjum þetta til vegna þess að borið hefur á því að mótmælendur hafi verið sóttir til saka fyrir að hafa neitað að færa sig, neitað að hlýða fyrirmælum lögreglu þegar þeir standa í friðsömum mótmælum og hafa síðan verið dæmdir fyrir það til refsingar. Sum tilvikanna þar sem mótmælendur hafa verið dæmdir til refsingar eru mjög skýr dæmi; viðkomandi mótmæltu mjög friðsamlega og neituðu að færa sig þegar lögreglan bað þá um það, þó að engin ógn stafaði af þeim, enginn ami og ekkert segði í raun að um ólögmætt athæfi væri að ræða.

Rétturinn til að mótmæla er gríðarlega mikilvægur og hann má einungis skerða á grundvelli laga. Hann má einungis skerða ef meðalhófs er gætt og ef skerðingin er nauðsynleg í lýðræðislegu samfélagi. Þetta segir mannréttindasáttmáli Evrópu okkur og dómasaga Mannréttindadómstóls Evrópu. Ef við tökum kannski skýrasta dæmið um vandamálið sem 19. gr. lögreglulaga, beiting ákæruvaldsins á henni og svo túlkun dómstólanna á henni — skýrasta dæmið um þá áskorun og það vandamál sem 19. gr. í sínu núverandi formi felur í sér gagnvart réttinum til mótmæla eru tvö mál gagnvart sama manni í dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2010 og 2011. Í þeim málum var sami einstaklingur tvisvar sinnum sakfelldur fyrir brot gegn 19. gr. lögreglulaga og í báðum tilvikum hafði hann haft í frammi mótmæli fyrir framan sendiráð Bandaríkjanna við Laufásveg í Reykjavík. Mótmælin fólust í því að hann stóð með skilti fyrir framan sendiráð Bandaríkjanna og nálægt inngangi þess en þó ekki þannig að af honum stæði nein sérstök truflun. Þegar hann neitaði að láta af mótmælunum og færa sig frá sendiráðinu var hann handtekinn og síðan sakfelldur á grundvelli 19. gr. lögreglulaga.

Í þessum málum mátti sjá að mótmælandinn truflaði ekki eða hafði áhrif á starfsemi sendiráðsins að neinu leyti en var sakfelldur þrátt fyrir það. Það verður að teljast skýr skerðing á réttinum til þess að mótmæla. Vissulega var lagaheimild til staðar til þess að skerða þennan rétt, en var það nauðsynlegt í lýðræðisþjóðfélagi? Nei. Var meðalhófs gætt? Nei. Við hljótum að velta fyrir okkur hvort það geti verið lögmæt fyrirmæli lögreglu að biðja mótmælanda um að færa sig frá almennri götu þegar ekki stafar af honum nein ógn, hann truflar ekki starfsemi sendiráðsins og stendur bara þarna með skilti og fer eitthvað í taugarnar á sendiráðsstarfsmönnum. Það er ekki grundvöllur þess að skerða réttindi fólks til að mótmæla. Vandamálið við dómana í þessum málum sem og öðrum er að okkar mati að þar fer ekki fram nógu ítarleg greining á rétti fólks til að mótmæla versus rétti lögreglunnar til þess að segja þér að færa þig og hvers vegna það þýði endilega að það þurfi að sækja þig til saka þegar þú óhlýðnast lögreglunni, því að það er eitt að lögreglan færi þig og fari jafnvel með þig inn í klefa en annað er að þú sért meira að segja í kjölfarið sóttur til saka fyrir það eitt að hafa mótmælt, neitað að færa þig og staðið fyrir rétti þínum til að mótmæla. Þetta finnst mér vera stórt vandamál þegar kemur að fundafrelsinu á Íslandi, sem er varið í stjórnarskrá. En þessi réttur er líka varinn samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu.

Til eru önnur dæmi í dómaframkvæmdum um beitingu 19. gr. Henni er ansi oft beitt gegn þeim sem eru að mótmæla. Að okkar mati er 19. gr. ekki nógu skýr lagagrundvöllur til að handtaka mótmælendur og sækja þá svo til saka fyrir friðsamleg mótmæli, vegna þess að í 19. gr. stendur bara að okkur sé skylt að fylgja fyrirmælum lögreglu, svo sem til að halda uppi lögum og reglu eða varðandi umferðarlög, að stýra umferðinni. Það að ætla svo að sækja fólk til saka fyrir t.d. að hafa neitað að færa sig úr nálægð við inngang bandaríska sendiráðsins með skiltið sitt eða inngang Alþingishússins, eins og dæmi eru um, þótt starfsfólk hafi getað komist leiðar sinnar og þingmenn líka — ekki er nógu skýr lagagrundvöllur til þess að sækja fólk til saka á þessum grunni.

Við teljum að með því að bæta orðinu „lögmætum“ inn sé hvergi verið að draga úr mikilvægri heimild lögreglunnar til að halda uppi lögum og reglu í samfélaginu heldur frekar verið að setja skýrari og afmarkaðri kröfu um að slík fyrirmæli skuli ávallt byggjast á lögum og að alltaf skuli meðalhófs vera gætt þegar lögreglan gefur út fyrirmæli til hins almenna borgara, vegna þess að lögreglan hefur auðvitað gríðarlegt vald í íslensku samfélagi. Við eigum skýlausa kröfu á að öll fyrirmæli sem hún gefur séu byggð á lögum og að meðalhófs sé gætt við beitingu þeirra heimilda sem lögreglan hefur. Við bendum þess vegna á að eins og staðan er núna virðist sem dómstólar taki mjög lítið tillit til þess hvort gætt sé meðalhófs þegar lögreglan beitir þessum valdheimildum á grundvelli þessarar greinar þó að lögreglunni beri skylda til að meta meðalhófið við beitingu heimildarinnar. Með því að auka kröfurnar um beitingu 19. gr. lögreglulaga og gefa fyrirmæli um að það skuli aðeins vera gert á grundvelli lögmætra fyrirmæla þá sköpum við nauðsyn fyrir dómstóla til að taka afstöðu til þess hvort fyrirmæli lögreglu hverju sinni séu lögmæt eður ei. Við það mat verður óhjákvæmilega einnig að taka tillit til þess hvort meðalhófs hafi verið gætt.

Auðvitað þarf að undirstrika mikilvægi þess að slíkt mat fari alltaf fram, bæði af hálfu lögreglu þegar hún veitir fyrirmælin og handtekur eða ákærir einstaklinga á grundvelli brota gegn 19. gr. sem og af hálfu dómstóla þegar þeir kveða upp dóm fyrir brot gegn greininni. Þar af leiðandi er ætlunin ekki aðeins að skýra heimildir lögreglunnar, sem við teljum að sé til þess fallið að auka traust almennings í hennar garð, heldur jafnframt að auka réttaröryggi og renna styrkari stoðum undir réttindi borgaranna. Með því að bæta þessu eina orði þarna inn erum við að veita lögreglunni visst aðhald en dómstólum landsins líka, að þeir þurfi alltaf að fara í þetta mat þegar óskað er eftir því af hálfu ákæruvaldsins að þeir sakfelli fyrir brot gegn 19. gr. lögreglulaga. Því miður er misbrestur á að dómstólar geri það og þess vegna er nauðsynlegt að bæta „lögmætum“ hérna inn. Þetta mun á engan hátt draga úr getu lögreglunnar til að gefa fyrirmæli, fylgja þeim eftir og halda uppi lögum og reglu. Þetta undirstrikar einungis það að lögreglan má aðeins gefa okkur lögmæt fyrirmæli og ekki er hægt að sakfella okkur fyrir að hlýða þeim ekki, þótt lögreglan geti vissulega áfram fjarlægt okkur frá inngangi sendiráðs Bandaríkjanna.

Að þessu sögðu, virðulegur forseti, þá er þetta að ég tel í þriðja sinn sem ég flyt þetta mál. Ég vona að það fái betri framgang í þetta sinn heldur en hin málin. Það vill nú þannig til með þingmannamál, sér í lagi mál stjórnarandstöðunnar, að þau vilja oft sofna í nefnd. En þetta er það einfalt í sniðum og mikilvægt að ég held að það hljóti að takast í þetta sinn að koma þessu í gegn. Ég hvet hv. þingmenn til að veita því liðsinni að styrkja fundafrelsi á Íslandi, að styrkja rétt okkar allra til að mótmæla. Á þessum tímum er ótrúlega mikilvægt að við stöndum vörð um og eflum okkar borgararéttindi. Þau eiga undir högg að sækja. Það er ekki sjálfgefið að við eigum þau, það er ekki sjálfgefið að við höldum þeim og mikilvægt er að við höldum alltaf áfram að berjast fyrir þeim.