154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2023.

698. mál
[17:54]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2023, frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Ályktunin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að vinna að framkvæmd fjögurra ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins 29.–30. ágúst 2023, um hafið sem matarkistu okkar (nr. 1/2023), um vestnorrænar næringarráðleggingar (nr. 2/2023), um að draga úr matarsóun og auka matvælaöryggi (nr. 3/2023) og um möguleika á auknu samstarfi í tengslum við lýðskóla (d. efterskole) (nr. 4/2023).“

Ég ætla hér að hlaupa yfir þetta, virðulegur forseti, í greinargerð sem fylgir þessari þingsályktunartillögu. Á ársfundi Vestnorræna ráðsins árið 2023, sem haldinn var í sal Alþingis dagana 29.–30. ágúst, voru samþykktar ályktanir og í fyrstu ályktuninni, nr. 1/2023, eru leiðtogar ríkisstjórna og þjóðþinga landanna þriggja hvattir til að útbúa heildræna áætlun um það hvernig vestnorrænu löndin geta unnið saman og staðið vörð um hafið sem matarkistu okkar og þannig komið í veg fyrir að auðlindin fari til spillis og um leið tryggt fæðuöryggi. Ríkisstjórnir Vestur-Norðurlandanna eru hvattar til að bregðast við mengun og tryggja að norðurskautið verði áfram lágspennusvæði og vernda líffræðilegan fjölbreytileika og vistkerfi hafsins.

Í annarri ályktuninni, sem er nr. 2/2023, eru ríkisstjórnir landanna hvattar til að kanna möguleika á að koma á sameiginlegum vestnorrænum næringarráðleggingum. Í þeim næringarráðleggingum yrði áhersla lögð á staðbundna matarmenningu og fæðu úr nærumhverfi. Matarmenning vestnorrænu landanna er um margt ólík því sem er í nágrannalöndunum, til að mynda annars staðar á Norðurlöndunum. Stór hluti þeirrar fæðu sem norræna næringarráðgjöfin er byggð á er ekki fáanlegur á vestnorræna svæðinu og er fluttur inn. Með vestnorrænu næringarráðleggingunum yrði litið til þeirrar fæðu og þess hráefnis sem fæst í löndunum sjálfum.

Í þriðju ályktuninni, nr. 3/2023, eru vestnorrænir umhverfisráðherrar hvattir til að halda fund á árinu 2024 og skiptast á reynslu og hugmyndum um hvernig löndin geti dregið úr matarsóun og aukið matvælaöryggi. Ráðherrarnir eru jafnframt hvattir til að útbúa sameiginlega áætlun þar um. Matarsóun er hin hliðin á fæðuöryggi. Framleiðsla matvæla getur haft neikvæð umhverfisáhrif og því þarf að gera það sem hægt er til að draga úr framleiðslu á mat sem síðan er hent. Auk þess að draga úr offramleiðslu á mat þarf að gæta þess að fara vel yfir þau matvæli sem framleidd eru og nýta þær auðlindir sem til staðar eru til matvælaframleiðslu með sem sjálfbærustum hætti. Að draga úr matarsóun hefur í för með sér samfélagslegan, umhverfislegan og fjárhagslegan ávinning.

Í fjórðu og síðustu ályktuninni, nr. 4/2023, eru stjórnvöld hvött til að kanna möguleika á auknu samstarfi í tengslum við lýðskóla og að athuga hvort nemendur slíkra skóla geti sótt styrk til uppihalds meðan á slíku námi stendur. Með lýðskóla er hér átt við skólastig fyrir nemendur á aldrinum 14–18 ára. Á Grænlandi og í Færeyjum er algengt að ungt fólk á aldrinum 14–18 ára sæki lýðskóla til Danmerkur. Þó eru slíkir skólar bæði til á Grænlandi og í Færeyjum. Vestnorrænu löndin eru hvött til samstarfs í tengslum við þessa skóla. Ef ungt fólk sækir lýðskóla innan vestnorræna svæðisins eykur það tengsl og þekkingu landanna þar á milli, svo sem menningarleg tengsl og þekkingu á vestnorrænu tungumálunum.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið við að flytja þessar fjórar ályktanir vestnorræna ráðsins sem taka nokkuð vel á þeim þáttum sem snúa að því lífi sem þessar ólíku þjóðir lifa í sínum heimalöndum og mér finnst mjög áhugavert í því samhengi, eftir að hafa setið þessa fundi og tekið þátt í umræðu um líf á norðurslóðum, þ.e. í vestnorrænu löndunum, að þá er það þannig að við erum um margt ólík. Menningarheimar okkar eru ólíkir en samt svo nátengdir á svo margan hátt og því finnst mér að þessi lýðháskólahugmynd, og við höfum svo sem starfrækt lýðskóla hér sömuleiðis en það er nú fyrir eldri nemendur, gæti haft verulega góð áhrif og tengt saman þessar þjóðir meira til frambúðar, og það er nú eitt af því sem við höfum mikið rætt um í vestnorræna ráðinu, hvernig við eflum tengslin og hvernig við tökumst saman á við þau miklu verkefni sem fram undan eru varðandi þær breytingar sem eru á loftslagi og hlýnun jarðar.

Virðulegi forseti. Ég læt hér staðar numið og læt þessa þingsályktunartillögu ganga sína leið, eins og maður segir.