Ferill 970. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1627  —  970. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur og Birni Leví Gunnarssyni um skrifleg svör ráðherra við fyrirspurnum frá alþingismönnum.


     1.      Hvert er ferlið í ráðuneytinu þegar fyrirspurn skv. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis berst frá alþingismanni sem óskar skriflegs svars? Hvernig er það skráð í skjalavistunarkerfi ráðuneytisins?
    Verklag í ráðuneytinu við svör fyrirspurna frá þingmönnum er sem hér segir:

Vöktun og skráning.
    Fyrirspurnir frá alþingismönnum berast ráðuneytinu í tölvupósti. Starfsmaður skjalasafns stofnar mál um fyrirspurnina. Ábyrgðarmaður máls á þessu stigi er skrifstofustjóri þeirrar skrifstofu sem fyrirspurnin varðar. Aðrir starfsmenn eru ritari ráðherra, ráðuneytisstjóri og aðstoðarmenn ráðherra. Í skráningu kemur fram hvort um er að ræða fyrirspurn sem ber að svara munnlega eða skriflega. Einnig er skráð dagsetning fyrir lokaafgreiðslu málsins.

Úthlutun.
    Skrifstofustjóri kannar hvort fyrirspurn sé í samræmi við reglur um áætlað umfang svars, tíma og efni, einnig hvort fyrirspurnir um sambærilegt efni hafi borist frá fyrri þingum og vekur athygli á því ef svo er. Hið sama gildir um fyrirspurnir sem beint er til allra ráðherra. Viðkomandi skrifstofustjóri lætur skjalasafn vita ef verkefnið heyrir undir aðra skrifstofu en þá sem fyrirspurn var upphaflega skráð á og svarar þá sú skrifstofa sem málið tilheyrir. Þegar fleiri en ein skrifstofa kemur að gerð svars sér sá skrifstofustjóri sem er ábyrgur fyrir svarinu um að setja saman hluta þess í eitt skjal. Skrifstofustjóri felur sérfræðingi/um að undirbúa svar og bætir honum inn á málið í málaskrá.

Mat á umfangi.
    Sérfræðingur sem vinnur svar gerir tímaáætlun þar sem kemur fram hvort hægt er að svara fyrirspurn innan tímaramma eða 15 daga. Í tímaáætlun þarf að gera ráð fyrir yfirlestri og þarf svar því að vera tilbúið nokkrum dögum fyrir lokadagsetningu. Jafnframt þarf að gera grein fyrir því hversu umfangsmikið svar verði með tilliti til lagaákvæðis um að svar skuli vera stutt, sbr. 57. gr. laga, nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Lögð er rík áhersla á að fyrirspurnum sé svarað á réttum tíma og því á ekki að sækja um frest nema þegar nauðsyn krefur.

Tilkynning um tafir.
    Ef ábyrgðarmaður máls sér ekki fram á að takist að svara fyrirspurn innan tilskilins frests er óskað eftir því við ritara ráðherra að hann sendi Alþingi tilkynningu um tafir. Í bréfi til forseta Alþingis, þar sem farið er fram á frest, er gerð grein fyrir ástæðu tafar og hvenær vænta megi svars. Tilkynning um tafir er send til Alþingis.

Vinnsla.
    Sérfræðingur á að vista öll ytri samskipti vegna undirbúnings í málaskrá á viðkomandi málsnúmeri. Sérfræðingur ber drög að svari undir viðkomandi skrifstofustjóra áður en þau eru send til yfirlestrar hjá ráðuneytisstjóra.

Yfirferð.
    Drög að svari eru borin undir ráðuneytisstjóra og að lokum aðstoðarmenn ráðherra. Aðstoðarmenn ráðherra bera ábyrgð á því að afla samþykkis ráðherra um að senda megi svarið til Alþingis. Gera má ráð fyrir allt að þremur dögum í vinnslu á þessum lið. Sérfræðingur skráir ákvarðanir er varða fyrirspurn í málaskrá.

Skil til Alþingis og verklok.
    Ritari ráðherra fær upplýsingar um að svar hafi verið samþykkt og er ábyrgur fyrir því að senda svarið rafrænt til Alþingis. Ritari ráðherra vistar lokaútgáfu svars í málaskrá, skráir í tilmæli að svar hafi verið sent til Alþingis og lokar málinu.

     2.      Hversu langur tími leið að jafnaði undanfarin þrjú ár frá því að fyrirspurn var útbýtt þar til ráðuneytið sendi forseta Alþingis skriflegt svar? Svar óskast sundurliðað eftir löggjafarþingum og fyrirspyrjendum.
    Sjá fylgiskjöl.

     3.      Hvaða aðilar í ráðuneytinu sjá um vinnslu skriflegra svara, frágang þeirra, yfirlestur og sendingu til forseta Alþingis? Hversu langan tíma tók hvert þessara skrefa að jafnaði undanfarin þrjú ár? Svar óskast sundurliðað eftir löggjafarþingum og fyrirspyrjendum.
    Verkferli er lýst í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.
    Gerð er tímaáætlun hverju sinni fyrir skil á svörum vegna innkominnar fyrirspurnar. Ekki er haldið aðskilið verkbókhald vegna þeirrar vinnu sem fer í að svara fyrirspurnum og eru því upplýsingar um tímalengd aðskilinna verkhluta ekki fyrirliggjandi. Eðli máls samkvæmt krefjast svör við fyrirspurnum mismikils tíma og fer það m.a. eftir því hversu víðtæk fyrirspurn er hverju sinni.
    Fyrirspurnir snúa gjarnan að starfsemi stofnana og leitar ráðuneytið í þeim tilvikum til viðkomandi stofnana. Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um hversu mikill tími fer hjá hverri stofnun í afgreiðslu einstakra fyrirspurna.



Fylgiskjal I.


Fyrirspurnir frá 151. löggjafarþingi.


www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s1627-f_I.pdf






Fylgiskjal II.


Fyrirspurnir frá 152. löggjafarþingi.


www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s1627-f_II.pdf




Fylgiskjal III.


Fyrirspurnir frá 153. löggjafarþingi.


www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s1627-f_III.pdf