Ferill 594. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1134  —  594. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um upplýsingagjöf lífeyrissjóða um fjárfestingarstefnu.


     1.      Telur ráðherra, í ljósi þess að lög nr. 113/2016, um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, sem m.a. skylda lífeyrissjóði til að setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum, taka gildi 1. júlí 2017 og með tilliti til svars ráðherra á þskj. 896, að ráðuneytinu sé skylt eftir gildistöku umræddra laga að afla þeirra upplýsinga sem beðið var um á þskj. 660?
    Að því er varðar hvort ráðuneytið telji sér skylt að afla upplýsinga um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða eftir gildistöku laga nr. 113/2016 er því til að svara að Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að starfsemi lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og reglna settar samkvæmt þeim, sbr. 44. gr. laga nr. 129/1997. Vakin er athygli á að í 4. gr. laga nr. 113/2016 er kveðið á um að lífeyrissjóður skuli senda Fjármálaeftirlitinu, eigi síðar en 1. desember ár hvert, upplýsingar um fjárfestingarstefnu sína fyrir komandi ár, sbr. núgildandi ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Til viðbótar fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðs skal fylgja greinargerð um hvernig sjóðurinn fylgir reglum 1. mgr. 4. gr. laganna, þar á meðal um siðferðisleg viðmið sjóðsins í fjárfestingum, sem er nýbreytni frá því sem verið hefur. Á lífeyrissjóðum sem og vörsluaðilum séreignarsparnaðar hvílir því lagaskylda til að senda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um fjárfestingarstefnu sína og er það hlutverk Fjármálaeftirlitsins að hafa eftirlit með að fjárfestingarstefnur lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar séu í samræmi við ákvæði laga nr. 129/1997. Það fellur því ekki í hlut ráðuneytisins að hafa eftirlit með fjárfestingarstefnum lífeyrissjóða og fjárfestingum þeirra. Af þeim sökum hefur ekki þótt ástæða til að óska sérstaklega eftir umræddum upplýsingum frá lífeyrissjóðum eða vörsluaðilum séreignarsparnaðar.

     2.      Hvernig telur ráðherra, með tilvísun til svars á þskj. 896, að hið opinbera geti mótað stefnu um eftirfylgni við markmið Parísarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 12. desember 2015 sem Alþingi fullgilti 19. september 2016 með þingsályktun nr. 60/145 ef ekki er á færi ráðuneytisins að afla þeirra upplýsinga sem beðið var um í 1. tölul. fyrirspurnar á þskj. 660 og sambærilegra upplýsinga?
    Líkt og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar ber lífeyrissjóði skylda til að senda Fjármálaeftirlitinu, sem eftirlitsaðila með starfsemi lífeyrissjóða, upplýsingar um fjárfestingarstefnu sína ár hvert ásamt greinargerð þar um sem kann að koma til umræðu í samskiptum eftirlitsins og sjóðsins ef tilefni er til. Upplýsingar um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðs sem og fjárfestingar hans eru því fyrirliggjandi hjá eftirlitsaðila starfseminnar þótt þær séu ekki sendar ráðuneytinu sérstaklega og getur Fjármálaeftirlitið beint leiðbeinandi tilmælum til sjóða standi tilefni til þess. Stjórnvöld hafa nú þegar hafið undirbúning að framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að draga umtalsvert úr losun gróðurhúsalofttegunda með aðkomu ráðuneyta, sveitarfélaga og atvinnulífsins. Ekki stendur til að lífeyrissjóðirnir verði sérstaklega undanþegnir þeim skyldum sem kunna að verða lagðar á einkaaðila í þeim efnum.

     3.      Telur ráðherra að setja þurfi í lög eða reglugerð um starfsemi lífeyrissjóða ítarlegri reglur um upplýsingagjöf þeirra um eftirfylgni við siðferðisleg viðmið varðandi fjárfestingar til að ákvæði um þetta í lögum nr. 113/2016 hafi tilætluð áhrif?
    Eins og að framan greinir ber lífeyrissjóði að senda Fjármálaeftirlitinu greinargerð með fjárfestingarstefnu sinni ár hvert þar sem m.a. skal koma fram hvernig sjóðurinn hefur í stefnu sinni fylgt reglum um siðferðisleg viðmið í fjárfestingum sínum. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort kveðið verði frekar á um upplýsingagjöf lífeyrissjóða, að því er varðar eftirfylgni við siðferðisleg viðmið í lögum eða reglum. Þó má geta þess að með breytingum á reglugerð nr. 916/2009, um fjárfestingarstefnu og úttekt á ávöxtun lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar, er áréttað að í fjárfestingarstefnu skuli koma fram þau siðferðislegu viðmið sem sjóðurinn hefur sett við fjárfestingar sínar. Breytingar á reglugerðinni tóku gildi 1. júlí sl. Þá er í reglugerð um eftirlitskerfi með áhættu lífeyrissjóða, sem jafnframt tók gildi 1. júlí sl., kveðið á um framkvæmd áhættustýringar hjá lífeyrissjóðum í því skyni að sjóðfélagar geti haft vissu fyrir því að lífeyrissjóður hafi yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við starfsemi sína.