Lagasafn.  Íslensk lög 1. janúar 2014.  Útgáfa 143a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um veiðieftirlitsgjald

2000 nr. 33 5. maí


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 26. maí 2000. Breytt með l. 142/2000 (tóku gildi 30. nóv. 2000), l. 125/2001 (tóku gildi 30. nóv. 2001), l. 148/2001 (tóku gildi 1. jan. 2002), l. 121/2002 (tóku gildi 29. nóv. 2002), l. 137/2002 (tóku gildi 30. des. 2002), l. 62/2004 (tóku gildi 1. sept. 2004), l. 33/2010 (tóku gildi 1. maí 2010), l. 165/2010 (tóku gildi og komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 69. gr.) og l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Fyrir veitingu almenns leyfis til veiða í atvinnuskyni og veiðileyfa, sem veitt verða á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða, skal greiða [22.000 kr.]1)
[Við útgáfu leyfis til strandveiða skal, auk greiðslu fyrir leyfi skv. 1. mgr., greiða 50.000 kr. í strandveiðigjald. Fiskistofa innheimtir gjaldið. Tekjum af strandveiðigjaldi skal ráðstafa til þeirra hafna þar sem afla, sem fenginn er við strandveiðar, hefur verið landað. Eftir lok veiðitímabils skal Fiskistofa á grundvelli aflaupplýsingakerfis Fiskistofu greiða hverri höfn sinn hlut í hlutfalli viðkomandi hafnar í heildarafla sem fenginn er við strandveiðar á því tímabili, reiknað í þorskígildum.]2)
   1)L. 165/2010, 64. gr. 2)L. 33/2010, 1. gr.
2. gr. [Gjöld samkvæmt lögum þessum renna til reksturs Fiskistofu.]1)
   1)L. 62/2004, 1. gr.
3. gr. Fyrir staðfestingu Fiskistofu á flutningi [sóknardaga],1) aflahlutdeildar og krókaaflahlutdeildar milli skipa skal eigandi þess skips sem flutt er frá greiða [5.000 kr.]2)
   1)L. 62/2004, 2. gr. 2)L. 165/2010, 65. gr.
4. gr. Greiða skal fyrir veru eftirlitsmanna um borð í skipum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
Útgerð skips skal greiða fæði veiðieftirlitsmanna og sjá þeim endurgjaldslaust fyrir aðstöðu meðan þeir stunda eftirlitsstörf um borð í skipum sem stunda veiðar á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða.
Auk kostnaðar skv. 2. mgr. skulu útgerðir [skipa sem hafa leyfi Fiskistofu til að vinna afla um borð]1) greiða [29.000 kr.]2) vegna eftirlits fyrir hvern dag eða hluta dags sem eftirlitsmaður er um borð. [Sama gildir sé veiðieftirlitsmaður Fiskistofu um borð í fiskiskipi á kostnað útgerðar samkvæmt sérstakri heimild í lögum.]3)
Hafi stjórnvöld, á grundvelli milliríkjasamnings eða með öðrum skuldbindandi hætti, samið um að eftirlit með veiðum fiskiskipa úr stofni sem alfarið veiðist utan lögsögu Íslands skuli vera með þeim hætti að um borð í hverju fiskiskipi skuli starfa eftirlitsmaður skulu útgerðir skipa er veiðar stunda úr þeim stofni, auk kostnaðar skv. 2. mgr., greiða [19.500]3) kr. fyrir hvern dag er skipið stundar þær veiðar. Verði samið um minna eftirlit, þannig að veiðieftirlitsmaður verði við eftirlitsstörf um borð í hluta skipa er stunda veiðar úr viðkomandi stofni, skal hvert skip greiða gjald, fyrir hvern dag er skipið stundar þær veiðar, er nemur sama hlutfalli af daggjaldinu skv. 1. málsl. og umsömdu hlutfalli skipa með eftirlitsmenn um borð. Skal gjaldið greitt af öllum skipum er veiðarnar stunda, án tillits til veru eftirlitsmanna um borð í einstökum skipum.
Gjald vegna eftirlitsmanna greiðist Fiskistofu mánaðarlega eftir á, fyrir eftirlit síðastliðins mánaðar.
   1)L. 137/2002, 1. gr. 2)L. 165/2010, 66. gr. 3)L. 142/2000, 2. gr.
5. gr. Sé ákveðið að tiltekin skip skuli búin staðsetningar- og sendingarbúnaði sem veitir sjálfvirkt upplýsingar um staðsetningu þeirra til stöðvar í landi skulu viðkomandi útgerðir kosta nauðsynlegan búnað í skip sín og greiða kostnað við sjálfvirkar sendingar upplýsinga um staðsetningu.
6. gr. [Ráðherra]1) getur kveðið nánar á um framkvæmd þessara laga með reglugerð.
   1)L. 126/2011, 299. gr.
7. gr. Lög þessi taka þegar gildi.