Lagasafn. Íslensk lög 10. október 2011. Útgáfa 139b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um ættleiðingarstyrki
2006 nr. 152 15. desember
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 2007. Breytt með l. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011) og l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi taka til fjárstyrkja úr ríkissjóði til kjörforeldra sem ættleitt hafa erlent barn eða börn í samræmi við lög um ættleiðingar. Lög þessi taka ekki til alþjóðlegra fjölskylduættleiðinga.
II. kafli. Stjórnsýsla.
2. gr. Yfirstjórn.
[Ráðherra]1) fer með yfirstjórn ættleiðingarstyrkja samkvæmt lögum þessum.
1)L. 126/2011, 442. gr.
3. gr. Framkvæmdaraðili.
[Ráðherra]1) ákveður með reglugerð hvaða aðila hann felur framkvæmd laga þessara.
Kostnaður vegna ættleiðingarstyrkja í lögum þessum greiðist úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni.
1)L. 162/2010, 34. gr.
4. gr. Kæruheimild.
Ákvörðun um synjun ættleiðingarstyrks og leiðréttingu á greiðslum skv. 8. gr. er heimilt að kæra til [ráðherra].1) Um kæru gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
1)L. 162/2010, 34. gr.
III. kafli. Greiðsla ættleiðingarstyrks.
5. gr. Greiðsla og skilyrði styrks.
Ættleiðingarstyrkur er eingreiðsla sem er greidd út samkvæmt umsókn kjörforeldra þegar erlend ættleiðing hefur verið staðfest hér á landi eða ættleiðingarleyfi hefur verið gefið út hér í samræmi við ákvæði laga um ættleiðingar.
Kjörforeldrar sem hafa fengið útgefið forsamþykki í samræmi við lög um ættleiðingar eiga einir rétt á ættleiðingarstyrk. Þessi réttur er ekki framseljanlegur.
6. gr. Umsókn um styrk.
Kjörforeldrar skulu sækja um ættleiðingarstyrk á þar til gerðum eyðublöðum. Sækja skal um styrk innan sex mánaða frá því að erlend ættleiðing er staðfest hér á landi eða ættleiðingarleyfi gefið út hér í samræmi við lög um ættleiðingar. Réttur til ættleiðingarstyrks fellur niður að þessum tíma liðnum.
Ákveða skal með reglugerð sem [ráðherra]1) setur hvaða gögn skuli fylgja með umsókn um ættleiðingarstyrk.
1)L. 162/2010, 34. gr.
7. gr. Fjárhæð styrks.
Fjárhæð ættleiðingarstyrks nemur 480.000 kr. Fjárhæð styrksins skal endurskoðuð í tengslum við afgreiðslu fjárlaga á tveggja ára fresti. [Ráðherra]1) setur í reglugerð2) ákvæði um endurskoðaða fjárhæð styrksins.
Ef kjörforeldrar hafa ættleitt fleiri en eitt barn samtímis er veittur styrkur vegna hvers barns umfram eitt sem nemur 20% af fjárhæð skv. 1. mgr.
1)L. 162/2010, 34. gr. 2)Rg. 950/2007, sbr. 1198/2008 og 576/2011.
8. gr. Leiðrétting á greiðslum.
Hafi styrkþegi ranglega fengið ættleiðingarstyrk skal hann endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var.
IV. kafli. Ýmis ákvæði.
9. gr. Reglugerð.
[Ráðherra]1) setur reglugerð2) um nánari framkvæmd laga þessara.
1)L. 162/2010, 34. gr. 2)Rg. 950/2007, sbr. 1198/2008 og 576/2011.
10. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.
Rétt til styrks samkvæmt lögum þessum eiga kjörforeldrar barna sem ættleidd eru eftir gildistöku laganna.