Lagasafn.  Íslensk lög 10. október 2011.  Útgáfa 139b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík

2010 nr. 64 22. júní

Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 24. júní 2010. Breytt með l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

1. gr. [Ráðherra]1) er heimilt að stofna opinbert hlutafélag sem hefur það að markmiði að standa að nauðsynlegum undirbúningi og láta bjóða út byggingu nýs Landspítala, háskólasjúkrahúss við Hringbraut í Reykjavík, og að semja um að ríkið taki bygginguna á langtímaleigu að loknu útboði. Fyrir undirritun samninga að loknu útboði skal leita samþykkis Alþingis með almennum lögum.
[Ráðherra]1) er heimilt í þessu skyni að leggja félaginu til hluta þeirra lóðarréttinda sem spítalinn hefur yfir að ráða við Hringbraut undir bygginguna.
Ákvæði laga um hlutafélög gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum.
   1)L. 126/2011, 529. gr.

2. gr. Tilgangur félagsins er að standa að undirbúningi og útboði á byggingu nýs Landspítala, háskólasjúkrahúss við Hringbraut í Reykjavík, með það að markmiði að ríkið taki bygginguna á langtímaleigu þegar byggingaverktaki hefur lokið umsömdu verki.
Félaginu skal vera heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt. Tilgangi félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess.
Stjórn félagsins skal eins og unnt er vinna að verkefnum skv. 1. mgr. í samráði og samvinnu við helstu hagsmunaaðila verkefnisins.
3. gr. Stjórn félagsins skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert.
Framkvæmdastjóri skal hafa haldgóða menntun eða reynslu af sambærilegum verkefnum.
Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða. Þeir mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um fjármálafyrirtæki, hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga eða gjaldþrotaskipti o.fl.
Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga verulegra hagsmuna að gæta né mála er varða aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega.
4. gr. Hlutafé félagsins við stofnun þess skal vera 20 milljónir króna og greiðast úr ríkissjóði.
5. gr. Félagið skal hefja rekstur 1. júlí 2010. Upplýsingalög, nr. 50/1996, gilda um starfsemi félagsins.
6. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.