Lagasafn.  Íslensk lög 10. október 2011.  Útgáfa 139b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

1995 nr. 53 8. mars

Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 9. mars 1995. Breytt með l. 84/2005 (tóku gildi 9. júní 2005), l. 115/2005 (tóku gildi 30. des. 2005), l. 167/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008), l. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011) og l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

1. gr. Markmið laga þessara er að stuðla að framkvæmdum við fráveitur sveitarfélaga með styrkveitingum.
Með fráveitu er í lögum þessum átt við leiðslukerfi og búnað til að meðhöndla skolp sem fullnægir kröfum laga og reglugerða um hreinsun þess áður en því er veitt í viðtaka.
2. gr. Frumkvæði að gerð áætlana um fráveitur og framkvæmdir í fráveitumálum er í höndum sveitarstjórna og á ábyrgð þeirra.
3. gr. Framkvæmdir við sniðræsi frá safnkerfum fráveitna, rotþrær, hreinsi- og dælustöðvar og útrásir, sem unnar verða á tímabilinu 1. maí 1995 til [31. desember 2008],1) geta notið styrks úr ríkissjóði. Enn fremur er heimilt að styrkja úr ríkissjóði önnur skyld mannvirki, svo og framkvæmdir sem snúa að tvöföldun lagna í safnkerfum eldri fráveitna, enda sé sýnt að slíkar framkvæmdir lækki stofnkostnað við styrkhæfar framkvæmdir. [Heimilt er með sama hætti að veita sveitarfélögum styrki til stofnframkvæmda við fráveitur sem fjármagnaðar eru samkvæmt samningum um einkaframkvæmd, hvort sem er á grundvelli eignarleigu- eða rekstrarleigusamnings, enda falli framkvæmdirnar undir ákvæði 1. málsl. og uppfylli að öðru leyti skilyrði til úthlutunar samkvæmt þessari grein. Ráðherra setur, að fengnum tillögum fráveitunefndar, nánari ákvæði um framkvæmdina í reglugerð. Skuldbindingar sem sveitarfélögin taka á sig vegna rekstrarleigu skulu koma fram í ársreikningum þeirra. [Styrkupphæð vegna slíkra einkaframkvæmda getur aldrei verið hærri en sem nemur virðisaukaskatti vegna framkvæmdanna.]1)]2)
Undirbúningsrannsóknir, hönnun, kostnaður við útboð, fjármagns- og lántökukostnaður og kaup á löndum og lóðum vegna framkvæmda í fráveitumálum njóta ekki fjárstuðnings samkvæmt lögum þessum. Sama gildir um endurbætur á eldri kerfum og framkvæmdir sem eru umfram það sem krafist er í lögum og reglugerðum um hreinsun fráveituvatns.
   1)L. 115/2005, 1. gr.
2)L. 84/2005, 1. gr.
4. gr. Fjárhagslegur stuðningur ríkisins vegna framkvæmda sveitarfélaga við fráveitur skv. 3. gr. getur numið allt að 200 m.kr. á ári eftir því sem nánar er kveðið á um í fjárlögum, þó aldrei hærri upphæð en sem nemur 20% af staðfestum heildarraunkostnaði styrkhæfra framkvæmda næstliðins árs.
Heimilt er að ráðstafa allt að fjórðungi styrkupphæðar á hverju ári í þeim tilgangi að jafna svo sem kostur er kostnað einstakra sveitarfélaga við fráveituframkvæmdir þegar miðað er við heildarkostnað á íbúa. Skal fráveitunefnd skv. 5. gr. gera tillögur um beitingu þessa ákvæðis sem ráðherra staðfestir.
[Heimilt er að ráðstafa allt að 10 millj. kr. ár hvert til rannsókna á viðtökum fráveitu með það að markmiði að þær leiði til lækkunar kostnaðar við fráveituframkvæmdir á síðari stigum.]1)
   1)L. 115/2005, 2. gr.

5. gr. [Ráðherra]1) skipar fráveitunefnd sér til ráðuneytis um fráveitumál sveitarfélaga. Í fráveitunefnd skulu eiga sæti þrír fulltrúar skipaðir til fjögurra ára í senn. Einn skal skipaður samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga, annar samkvæmt tilnefningu [þess ráðherra er fer með sveitarstjórnarmál]1) og sá þriðji skal skipaður án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.
   1)L. 126/2011, 209. gr.

6. gr. Fráveitunefnd fjallar um styrkumsóknir og framkvæmda- og kostnaðaráætlanir sveitarfélaga vegna framkvæmda í fráveitumálum á yfirstandandi ári og áætlar styrkhæfni hverrar áætlaðrar framkvæmdar.
Í samræmi við mat á styrkumsóknum sveitarfélaga skal fráveitunefnd gera tillögu til [ráðherra]1) um framlag til fráveitumála sveitarfélaga á fjárlögum næsta árs.
Fráveitunefnd fjallar um upplýsingar sveitarfélaga um raunkostnað við framkvæmdir í fráveitumálum á næstliðnu ári. Nefndin skal meta og staðfesta kostnað við styrkhæfa framkvæmd í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Á grundvelli þeirrar staðfestingar gerir fráveitunefnd tillögur til [ráðherra]1) um styrkveitingu til hvers sveitarfélags vegna framkvæmda í fráveitumálum.
Fráveitunefnd er heimilt að leita sérfræðilegrar ráðgjafar í störfum sínum.
   1)L. 126/2011, 209. gr.

7. gr. Sveitarfélög skulu fyrir 1. maí ár hvert senda fráveitunefnd [ráðuneytisins]1) umsókn um styrk vegna fráveituframkvæmda á yfirstandandi ári. Með umsókninni fylgi heildaráætlun um fráveituframkvæmdir í sveitarfélaginu sem fyrirhugað er að sækja um styrk fyrir og sérstök áætlun um þann áfanga sem áætlað er að vinna á yfirstandandi ári. Einnig fylgi með umsókninni tæknilegar upplýsingar um framkvæmdina ásamt teikningum og sundurliðaðri kostnaðaráætlun. Skilyrði fyrir fjárstuðningi er að framkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags.
   1)L. 126/2011, 209. gr.

8. gr. Sveitarfélög, sem fengið hafa úthlutað fjárstuðningi vegna fráveituframkvæmda, skulu fyrir 1. mars ár hvert senda fráveitunefnd [ráðuneytisins]1) upplýsingar um raunkostnað sveitarfélagsins vegna framkvæmda við fráveitumál á næstliðnu ári í samræmi við áður senda áætlun.
   1)L. 126/2011, 209. gr.

9. gr. Styrkir til sveitarfélaga vegna framkvæmda í fráveitumálum á næstliðnu ári skulu greiddir sveitarfélögunum fyrir 1. maí ár hvert.
10. gr. [Ráðherra]1) hefur á hendi yfirstjórn fjárhagslegs stuðnings ríkissjóðs við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum og tekur endanlegar ákvarðanir um úthlutun styrkja að fengnum tillögum fráveitunefndar.
   1)L. 126/2011, 209. gr.

11. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.