Lagasafn.  Íslensk lög 1. janúar 2009.  Útgáfa 136a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um landgræðslustörf skólafólks

1974 nr. 58 21. maí

Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 5. júní 1974.
1. gr. Heimilt er að kveðja til starfa við landgræðslu a.m.k. tvo daga á hverju skólaári hvern þann nemanda, sem orðinn er 12 ára eða eldri og stundar nám í skóla, sem kostaður er af ríkinu að einhverju eða öllu leyti, enda sé nemandinn hraustur og ófatlaður.
2. gr. Landgræðslustörf samkvæmt lögum þessum eru græðsla lands og hvers konar vinna vegna gróðurverndar, gróðursetning trjáplantna, grisjun skóga og fegrun skóglendis; gróðursetning skrúðjurta og endurbætur skrúðgarða; lagfæring og fegrun umhverfis skóla, gistihúsa, sjúkrahúsa eða annarra opinberra menningar- og líknarstofnana.
Lög þessi taka hvorki til túnræktar né annarra sérstakra framkvæmda á lögbýlum.
3. gr. Menntamálaráðuneytið hefur yfirumsjón með framkvæmd þessara laga.
Skógrækt ríkisins — að fengnum tillögum Skógræktarfélags Íslands — velur verkefni og skipuleggur framkvæmdir, þar sem unnið er á skóglendi.
Landgræðsla Íslands — að fengnum tillögum Landverndar — velur verkefni og skipuleggur landgræðslustörf nemenda í skólum í Reykjavík, sbr. þó 2. mgr.
Búnaðarsamband á því svæði, þar sem skóli starfar utan Reykjavíkur, velur verkefni og skipuleggur landgræðslustörf skólafólks á búnaðarsambandssvæðinu.
Verkefni skólafólks við landgræðslu, sbr. 2. gr., skulu valin í samráði við hlutaðeigandi skólastjóra og fyrir eitt skólaár í senn.
4. gr. Skólastjóri ákveður, hvaða dag á skólaárinu skal unnið að landgræðslu, og tilkynnir það nemendum skólans.
Skólastjóri eða kennari skal hafa eftirlit með landgræðslustörfum nemenda skólans.
5. gr. Ferðakostnað nemenda vegna landgræðslustarfa skal telja með skólakostnaði.
6. gr. Í reglugerð,1) sem menntamálaráðuneytið setur, skal kveða nánar á um landgræðslustörf skólafólks.
   1)Rg. 448/1975
.