Lagasafn. Íslensk lög 1. janúar 2009. Útgáfa 136a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um Vísinda- og tækniráð
2003 nr. 2 3. febrúar
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 7. febrúar 2003. Breytt með l. 59/2007 (tóku gildi 4. apríl 2007).
1. gr. Markmið laga þessara er að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í landinu í því skyni að treysta stoðir íslenskrar menningar og auka samkeppnishæfni atvinnulífsins.
2. gr. Stefna stjórnvalda í vísinda- og tæknimálum skal mörkuð af Vísinda- og tækniráði til þriggja ára í senn. Umfjöllun þess á hvoru sviði um sig skal undirbúin af vísindanefnd og tækninefnd.
3. gr. [Forsætisráðherra skipar 16 menn í Vísinda- og tækniráð til þriggja ára í senn og jafnmarga til vara.1) Tveir skulu skipaðir án tilnefningar en 14 samkvæmt tilnefningum eftirtalinna aðila:]2)
a. fjóra samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins,
b. tvo samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands,
c. tvo samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins,
d. einn samkvæmt tilnefningu menntamálaráðherra,
e. einn samkvæmt tilnefningu iðnaðarráðherra,
f. einn samkvæmt tilnefningu sjávarútvegsráðherra,
g. einn samkvæmt tilnefningu landbúnaðarráðherra,
h. einn samkvæmt tilnefningu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra,
i. einn samkvæmt tilnefningu umhverfisráðherra.
Auk framangreindra skulu forsætisráðherra, fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og menntamálaráðherra eiga föst sæti í ráðinu, en þar að auki skal forsætisráðherra vera heimilt að kveðja allt að [fjóra]2) ráðherra til setu í ráðinu í senn. Forsætisráðherra er formaður ráðsins.
1)Forsætisráðherra skipar tvo menn í Vísinda- og tækniráð frá 1. september 2007 til 31. mars 2009 skv. l. 59/2007, brbákv. 2)L. 59/2007, 1. gr.
4. gr. Úr hópi þeirra sem skipaðir eru skv. 1. mgr. 3. gr. tilnefnir Vísinda- og tækniráð fulltrúa í vísindanefnd og jafnmarga til vara, sem menntamálaráðherra skipar. Ráðherra skipar jafnframt formann og varaformann úr hópi nefndarmanna.
Iðnaðarráðherra skipar tækninefnd með sama hætti.
Nefndirnar skulu hafa með sér samráð um þau atriði sem máli skipta fyrir stefnumótun Vísinda- og tækniráðs.
5. gr. Með reglugerð getur forsætisráðherra mælt nánar fyrir um starfsemi Vísinda- og tækniráðs, menntamálaráðherra um starfsemi vísindanefndar og iðnaðarráðherra um starfsemi tækninefndar.
6. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.