Lagasafn.  Íslensk lög 1. janúar 2009.  Útgáfa 136a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Heyrnar- og talmeinastöð

2007 nr. 42 27. mars

Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. september 2007. Breytt með l. 112/2008 (tóku gildi 1. okt. 2008 nema 12. tölul. 59. gr. sem tók gildi 25. sept. 2008; koma til framkvæmda skv. fyrirmælum í 2. mgr. 56. gr.).

1. gr. Starfrækja skal Heyrnar- og talmeinastöð undir yfirstjórn [heilbrigðisráðherra].1)
   1)
L. 112/2008, 66. gr.
2. gr. Heyrnar- og talmeinastöð annast þjónustu við heyrnarlausa, heyrnarskerta og þá sem eru með heyrnar- og talmein. Hlutverk Heyrnar- og talmeinastöðvar er m.a.:
   
1. Að sjá um heyrnarmælingar, greiningu og meðferð á heyrnar- og talmeinum.
   
2. Að veita faglega ráðgjöf og annast þjálfun og endurhæfingu heyrnarlausra, heyrnarskertra og þeirra sem eru með heyrnar- og talmein.
   
3. Að sinna forvörnum á starfssviði sínu í samvinnu við aðrar stofnanir eftir því sem við á.
   
4. Að útvega hjálpartæki fyrir heyrnarskerta, heyrnarlausa og þá sem eru með heyrnar- og talmein og veita fræðslu og þjálfun í notkun þeirra. Stofnunin skal enn fremur sjá um viðhald og uppsetningu hjálpartækjanna.
   
5. Að stunda rannsóknir og sinna fræðslu á starfssviði sínu. Stofnunin skal safna upplýsingum um alla þá sem eru heyrnarskertir, heyrnarlausir eða eru með heyrnar- og talmein og öðrum tölfræðilegum upplýsingum sem nýtast við rannsóknar- og þróunarstörf. Um söfnun upplýsinga skal fara samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglum settum með stoð í þeim lögum og lögum um landlækni eftir því sem við á.
3. gr. Ráðherra skipar forstjóra Heyrnar- og talmeinastöðvar til fimm ára í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu. Forstjóri ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar og skulu þeir hafa viðeigandi menntun á starfssviði stofnunarinnar. Heimilt er að kveða nánar á um menntunarskilyrði starfsmanna í reglugerð.
4. gr. Við Heyrnar- og talmeinastöð skal vera fimm manna fagráð sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Fagráðið skal skipað þremur mönnum með menntun eða sérþekkingu á verksviði stofnunarinnar og tveimur fulltrúum notenda þjónustunnar. Fagráðið skal vera forstjóra til ráðuneytis um fagleg málefni og stefnumótun.
5. gr. Ráðherra skal setja reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við hjálpartæki vegna heyrnar- og talmeina að höfðu samráði við Heyrnar- og talmeinastöð.
6. gr. Sjúkratryggður einstaklingur samkvæmt lögum um [sjúkratryggingar]1) skal greiða gjald fyrir þjónustu Heyrnar- og talmeinastöðvar sem hér segir:
   
1. fyrir viðgerð á hjálpartækjum,
   
2. fyrir sérfræðilæknisþjónustu og rannsóknir samkvæmt ákvæðum laga um [sjúkratryggingar]1) og reglum settum með stoð í þeim lögum,
   
3. fyrir greiningu á máltruflun, komu vegna endurmats hjá talmeinafræðingi og aðrar talrannsóknir.
Fyrir heyrnarrannsókn á vinnustað skal greiða gjald sem standa skal undir kostnaði stofnunarinnar við rannsóknina.
Ráðherra setur reglugerð um gjaldtöku samkvæmt grein þessari að höfðu samráði við forstjóra og fagráð Heyrnar- og talmeinastöðvar. Skal gjaldskráin taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna. Heyrnar- og talmeinastöð innheimtir gjöld þessi.
Þeir sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum um [sjúkratryggingar]1) skulu greiða gjald sem nemur kostnaði við veitta þjónustu í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, nema í gildi sé samningur um þjónustuna við það ríki sem þeir koma frá.
   1)
L. 112/2008, 66. gr.
7. gr. Ráðherra er heimilt, í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu, að fela öðrum aðilum með samningi að annast þá þjónustu sem greinir í 2. gr. eða hluta þeirrar þjónustu.
8. gr. Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara.
9. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. september 2007.