Lagasafn. Íslensk lög 1. október 2008. Útgáfa 135b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um Grænlandssjóð
1980 nr. 102 31. desember
Ferill málsins á Alþingi.
Tóku gildi 2. janúar 1981.
1. gr. Stofna skal sjóð, er nefnist Grænlandssjóður, til að stuðla að nánari samskiptum Íslendinga og Grænlendinga.
2. gr. Grænlandssjóður skal veita styrk til kynnisferða, námsdvalar, listsýninga, íþróttasýninga og annarra málefna á sviði lista, vísinda og tæknimála, er geta stuðlað að eflingu samskipta Grænlendinga og Íslendinga.
3. gr. Ríkissjóður skal leggja í Grænlandssjóð árin 1981 og 1982 125 milljónir kr. hvort ár. Verði breyting á gengi danskrar krónu frá því að lög þessi taka gildi skal framlag ríkissjóðs til sjóðsins breytast í samræmi við það. Auk þess skal sjóðsstjórnin leita eftir framlögum í sjóðinn frá fyrirtækjum, stofnunum, félagssamtökum og einstaklingum.
4. gr. Seðlabanki Íslands skal annast fjárreiður Grænlandssjóðs og ávaxta fé hans. Framlögum og öðrum tekjum sjóðsins má jafnóðum breyta í grænlenskan gjaldeyri.
5. gr. Til styrkveitinga skal verja allt að 9/10 hlutum vaxtatekna sjóðsins. Eigi skal skerða stofnfé sjóðsins. Gjafir til sjóðsins skulu að jafnaði leggjast við stofn hans, nema stjórn sjóðsins sé sammála um að verja ákveðnum gjöfum eða framlagi til einstaks verkefnis, sem hún telur að sé sérstaklega þörf fyrir.
6. gr. Stjórn sjóðsins skal skipuð 5 mönnum. Alþingi kýs þá hlutfallskosningu í sameinuðu Alþingi. Forsætisráðherra skipar formann stjórnarinnar. Kjörtímabil stjórnarinnar skal vera til þriggja ára. Stjórn sjóðsins skal vera ólaunuð.
7. gr. Formaður sjóðsstjórnar ákveður hvenær stjórnin kemur saman til fundar, en auk þess geta tveir stjórnarmenn krafist fundar.
Forsætisráðherra setur reglugerð um starfsemi sjóðsins, ef sjóðsstjórnin óskar þess.