Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 2008.  Útgáfa 135b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga

1985 nr. 63 26. júní

Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 11. júlí 1985. Breytt með l. 108/1989 (tóku gildi 21. des. 1989), l. 41/1991 (tóku gildi 17. apríl 1991) og l. 59/2004 (tóku gildi 14. júní 2004).

1. gr. [Tilgangur laga þessara er að jafna greiðslubyrði af fasteignaveðlánum einstaklinga sem tekin eru til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Skal misgengi, sem orsakast af hækkun lánskjaravísitölu eða annarrar viðmiðunarvísitölu lána umfram hækkun launa, ekki valda því að greiðslubyrði af lánum þyngist.]1)
   1)L. 41/1991, 1. gr.

2. gr. Lög þessi taka til fasteignaveðlána einstaklinga sem tekin eru til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota hjá byggingarsjóðum ríkisins og sams konar lána hjá öðrum sjóðum og stofnunum eftir því sem um semst milli lántaka og lánveitanda. [Ákvæði laga þessara taka þó ekki til ÍLS-veðbréfa sem Íbúðalánasjóður veitir eða afgreiðir frá og með 1. júlí 2004.]1)
Lögin geta einnig tekið til almennra lána vegna fasteignaviðskipta þar sem samið er sérstaklega um að ákvæðum um greiðslujöfnun við endurgreiðslu eftirstöðva kaupverðs skuli beitt.
Lög þessi taka eingöngu til verðtryggðra lána, en viðskiptaráðherra er heimilt að setja reglur um sambærileg lánskjör óverðtryggðra lána.
   1)L. 59/2004, 1. gr.

3. gr. [Við gerð lánssamnings skal ákveða greiðslumark fyrir lánið:
   
a. Greiðslumark af verðtryggðu láni með jöfnum afborgunum er gjaldfallin afborgun og vextir eins og þeir eru á hverjum gjalddaga á verðlagi við lántöku.
   
b. Greiðslumark af verðtryggðum jafngreiðslulánum er ársgreiðslan á verðlagi við lántöku miðað við vexti eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma.]1)
   1)L. 41/1991, 2. gr.

4. gr. Greiðslumark af fullverðtryggðum lánum, sem tekin hafa verið á tímabilinu frá 1. mars 1982 til gildistöku laga þessara, er gjaldfallin afborgun og vextir á verðlagi við lántöku.
Greiðslumark af fullverðtryggðum lánum, sem tekin voru fyrir 1. mars 1982, er gjaldfallin afborgun og gildandi vextir á verðlagi 1. mars 1982.
Greiðendum lána, er um ræðir í þessari grein sem eiga í umtalsverðum greiðsluerfiðleikum að mati Húsnæðisstofnunar, skal gefinn kostur á að fresta greiðslum af þessum lánum samkvæmt ákvæðum 5. gr. þessara laga, enda berist stofnuninni umsókn þar að lútandi fyrir 1. september 1985.
5. gr. Á gjalddaga láns er greiðslumark framreiknað miðað við breytingu á launavísitölu skv. 6. gr. og borið saman við gjalddagafjárhæð lánsins sem er samanlögð fjárhæð afborgunar, verðtryggingarþáttar (verðbóta) og vaxta samkvæmt lánssamningi án greiðslujöfnunar.
Sé framreiknað greiðslumark lægra en gjalddagafjárhæð gjaldfellur einungis sá hluti gjalddagafjárhæðar sem samsvarar greiðslumarki. Greiðslu á ógreiddum hluta gjalddagafjárhæðar er frestað og myndar hann skuld á sérstökum jöfnunarreikningi sem telst hluti af höfuðstól lánsins.
Sé greiðslumark hærra en gjalddagafjárhæð skal heildargreiðslan miðuð við greiðslumark að því marki sem skuld er á jöfnunarreikningi, en sé jöfnunarreikningur skuldlaus skal gjalddagafjárhæð ráða greiðslu.
Ef skuld er á jöfnunarreikningi eftir að upprunalegum lánstíma er lokið skal endurgreiða hana á sama gjalddaga (gjalddögum) ársins miðað við framreiknað greiðslumark á síðasta gjalddaga lánsins.
Lánskjör, þ.m.t. vextir og verðtrygging vegna skuldar á jöfnunarreikningi, skulu vera þau sömu og af upprunalegu láni.
6. gr. [Með launavísitölu, sem beitt er við framreikning greiðslumarks, sbr. 5. gr., er átt við þá vísitölu sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir samkvæmt lögum nr. 89/1989. Launavísitala sú, sem Hagstofan birtir í mánuði hverjum, skal gilda við útreikning greiðslumarks lána frá og með fyrsta degi næsta mánaðar.]1)
   1)L. 108/1989, 1. gr.
7. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.