Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 2008.  Útgáfa 135b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um starfsréttindi tannsmiða

2000 nr. 109 25. maí

Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 6. júní 2000. Breytt með l. 88/2008 (taka gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008).

1. gr. Tannsmiðir með meistararéttindi geta á eigin ábyrgð smíðað tanngóma og þá m.a. unnið að töku móta og mátun, enda séu ekki sjúklegar breytingar eða meðfæddir gallar í munni eða kjálka viðskiptavinar samkvæmt læknisvottorði, svo og gert við tanngóma og tannparta. Að smíði tannparta á eigin ábyrgð skulu þeir starfa í samvinnu við tannlækni.
Ákvæði 1. mgr. hagga ekki rétti tannsmiða til annarra starfa í löggiltri iðngrein sinni. Þau hagga heldur ekki rétti tannlækna eða þeirra sem starfa undir handleiðslu og á ábyrgð tannlækna til að vinna við töku móta og mátun né áunnum réttindum þeirra samkvæmt ákvæðum eldri laga.
2. gr. Brot, sem framin eru af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gegn ákvæðum laga þessara, varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
Með mál út af brotum gegn lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.1)
   1)Málsgreinin var felld brott með
l. 88/2008, 233. gr. Breytingin tekur gildi 1. jan. 2009 skv. 232. gr. s.l.
3. gr. Iðnaðarráðherra skal með reglugerð1) setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara. Þar skal hann kveða á um það með hvaða skilyrðum tannsmiðir skuli sækja námskeið til að geta öðlast starfsréttindi samkvæmt lögum þessum. Ráðherra skal, að höfðu samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, setja reglur2) um að hluti af starfi tannsmiða skv. 1. mgr. 1. gr. skuli unninn í samstarfi við tannlækni og reglur um skilyrði starfsleyfis, og skal landlæknir hafa eftirlit með þessum þáttum.
   1)Rg. 904/2000
. 2)Rgl. 937/2000.
4. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.
5. gr.