Lagasafn. Íslensk lög 1. febrúar 2006. Útgáfa 132a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi
1972 nr. 70 29. maí
Ferill málsins á Alþingi.
Tóku gildi 26. júní 1972. Breytt með l. 83/1997 (tóku gildi 6. júní 1997).
1. gr. Heiti stofnunarinnar er: Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Hún er háskólastofnun með sérstakri stjórn og sjálfstæðum fjárhag og heyrir undir menntamálaráðherra, en undir ríkisstjórnina um varðveislu og umsjón með handritum þeim og skjalagögnum, sem til Íslands verða flutt frá Danmörku, sbr. 2. gr.
2. gr. Stofnunin varðveitir handrit þau og skjalagögn, sem ríkisstjórn Íslands hefur veitt og veitir viðtöku samkvæmt sáttmála milli Danmerkur og Íslands um flutning á hluta af handritum Stofnunar Árna Magnússonar í Danmörku í vörslu og umsjón Háskóla Íslands, dagsettum 1. júlí 1965 og fullgiltum 1. apríl 1971.
Enn fremur varðveitir stofnunin önnur handrit og gögn, sem hún á og kann að eignast eða henni verða falin til varðveislu.
3. gr. Tilgangur stofnunarinnar er að vinna að aukinni þekkingu á máli, bókmenntum og sögu íslensku þjóðarinnar fyrr og síðar. Þetta gerir stofnunin með öflun og varðveislu gagna um þessi efni, sbr. 2. gr., rannsóknum á heimildum um þau, útgáfu handrita og fræðirita, hljóðritun þjóðfræðaefnis og með hverju öðru, sem stutt getur að þessu markmiði.
4. gr. Rekstur stofnunarinnar annast sérstakur forstöðumaður. Hann annast og fræðilega stjórn stofnunarinnar ásamt öðrum starfsmönnum samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Forstöðumaður skal jafnframt vera prófessor í heimspekideild með takmarkaðri kennsluskyldu og leiðbeina þeim nemendum, er taka hjá honum ritgerðarefni til lokaprófs. Um veiting starfsins fer eftir sömu reglum sem um önnur prófessorsembætti.
Við stofnunina starfar stjórnarnefnd þannig skipuð: Forstöðumaður stofnunarinnar, rektor Háskóla Íslands, sem jafnframt er formaður stjórnarinnar, og einn skipaður af menntamálaráðherra, án tilnefningar, til sex ára í senn. Nefndarstörf eru ólaunuð.
5. gr. Við stofnunina starfa sérfræðingar, sem hafa þar fullt og fast starf, eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum. [Þeir skulu ráðnir af forstöðumanni.]1) Auk þess starfa við stofnunina styrkþegar, sem ráðnir eru til náms og starfa takmarkaðan tíma í senn. Heimilt er að ráða annað nauðsynlegt starfslið.
1)L. 83/1997, 101. gr.
6. gr. Heimilt er með reglugerð að skipta stofnuninni í deildir eftir fræðigreinum. Kjarni stofnunarinnar skal vera sú deild, sem annast útgáfu handrita eða rita eftir handritum, svo og rannsóknir á þeim.
7. gr. Háskólaráð kýs stofnuninni tvo tilsjónarmenn (ephori) til fjögurra ára í senn, og skulu þeir líta eftir því, að stofnunin starfi í samræmi við stofnskrá dánargjafar Árna Magnússonar frá 18. janúar 1760.
8. gr. Menntamálaráðherra setur í reglugerð1) nánari ákvæði um starfsemi stofnunarinnar, þ. á m. um réttindi og skyldur starfsmanna í því efni.
1)Rg. 324/1978.
9. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi …