Lagasafn.  Íslensk lög 1. febrúar 2006.  Útgáfa 132a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Örnefnastofnun Íslands

1998 nr. 14 25. mars

Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. ágúst 1998. Breytt með l. 126/2002 (tóku gildi 20. des. 2002).

1. gr. Hlutverk Örnefnastofnunar Íslands er að safna íslenskum örnefnum frá öllum tímum þjóðarsögunnar og skrá þau og varðveita á aðgengilegan hátt eftir viðurkenndum fræðilegum kröfum á hverjum tíma. Þá skal stofnunin og starfsmenn hennar stunda og stuðla að fræðistörfum á sviði örnefnafræða, m.a. með fræðilegri útgáfu, og leggja rækt við náið og virkt samstarf og samráð við aðrar stofnanir og einstaka fræðimenn, innan lands sem utan, er fást við hvers kyns fræði og starfsemi er örnefnum tengjast eftir því sem frekast má verða örnefnafræðum til eflingar. Stofnunin tekur þátt í fjölþjóðlegu samstarfi í örnefnafræðum eftir því sem föng eru á.
Stofnunin þjónar eftir megni öllum þeim er leita eftir upplýsingum og leiðbeiningum um hvaðeina er heyrir til fræðasviðs hennar og býður fram vinnuaðstöðu í því augnamiði eftir því sem aðstæður leyfa. Lögð skal áhersla á að almenningur geti aflað sér glöggra upplýsinga um örnefni, fræðirit í safni stofnunarinnar og ýmsar aðrar heimildir á sviði örnefnafræða, m.a. með tilstilli nettengingar um tölvur. Þá skal stofnunin styðja við kennslu í örnefnafræðum eftir því sem henni verður komið á við Háskóla Íslands eða á öðrum vettvangi.
2. gr. Örnefnastofnun Íslands tekur til varðveislu öll örnefna- og heimildasöfn sem nú eru geymd í Örnefnastofnun Þjóðminjasafns og tekur jafnframt við öllum eignum þeirrar stofnunar.
Auk þess fjár sem veitt verður til stofnunarinnar á fjárlögum ár hvert er henni heimilt að afla sértekna, m.a. fyrir verkefni eftir samkomulagi við tiltekna aðila, svo sem sveitarfélög og félagasamtök.
Stofnuninni er heimilt að semja svo um, eftir því sem fé fæst til, að tilteknir aðilar, einstaklingar eða stofnanir, er búa yfir sérþekkingu og reynslu á sviði örnefnasöfnunar, annist afmörkuð söfnunar- og skráningarstörf fyrir stofnunina sem verktakar.
3. gr. [Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Örnefnastofnunar Íslands til fimm ára í senn. Forstöðumaður skal hafa háskólapróf og fræðilega reynslu á vísindasviði er tengist örnefnafræðum. Forstöðumaður markar stefnu stofnunarinnar, annast daglegan rekstur hennar og er í fyrirsvari fyrir hana út á við. Hann ber ábyrgð á rekstri stofnunarinnar og að starfsemi hennar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Jafnframt annast forstöðumaður ráðningu annarra starfsmanna. Menntamálaráðherra setur forstöðumanni erindisbréf.]1)
   1)
L. 126/2002, 1. gr.
4. gr. Menntamálaráðherra er heimilt að mæla fyrir um að Örnefnastofnun Íslands hafi nánar tiltekin rekstrar- eða aðstöðutengsl, svo sem um bókhald og húsnæði, við aðra stofnun er undir ráðuneyti hans heyrir sé það talið hagkvæmt.
5. gr. Menntamálaráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um starfsemi Örnefnastofnunar Íslands.
6. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1998. …
Ákvæði til bráðabirgða.