Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 2005.  Útgáfa 131b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um breytingu á ýmsum lögum við stofnun Landbúnaðarstofnunar

2005 nr. 76 24. maí

Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Taka gildi 1. janúar 2006.

I. kafli. Breyting á lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.
1. gr. Í stað orðsins „yfirdýralækni“ í 1. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Landbúnaðarstofnun.
2. gr. 5. gr. laganna orðast svo:
Landbúnaðarstofnun er ráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um allt er varðar heilbrigðismál dýra og hollustuhætti við framleiðslu og meðferð búfjárafurða.
Landbúnaðarstofnun skal m.a. annast:
   
a. yfirstjórn og eftirlit með störfum héraðsdýralækna, sérgreinadýralækna og annarra dýralækna sem leyfi hafa til að stunda dýralækningar,
   
b. yfirumsjón með öllu er varðar heilbrigðismál dýra, hollustu dýrafóðurs og eftirlit þar að lútandi,
   
c. yfirumsjón með heilbrigði sláturdýra, heilbrigðiseftirliti í sláturhúsum og framleiðslu mjólkur auk yfirumsjónar með heilbrigði búfjár og afurða þess,
   
d. yfirumsjón með sjúkdómavörnum dýra, forvörnum, fræðslustarfi varðandi búfjársjúkdóma, innflutningi og útflutningi lifandi dýra, erfðaefnis og búfjárafurða og útgáfu opinberra heilbrigðisvottorða þar að lútandi,
   
e. skipulagningu, gagnaöflun og skýrslugerð varðandi dýrasjúkdóma, heilbrigðisskoðun sláturafurða og heilbrigðiseftirlit með framleiðslu mjólkur. Stofnunin skal einnig afla upplýsinga um heilbrigðisástand dýra og hollustu dýraafurða í öðrum löndum eftir því sem nauðsyn krefur og sjá um árlega útgáfu heilbrigðisskýrslna.
3. gr. 2. málsl. 5. mgr. 9. gr. laganna orðast svo: Hann skal tafarlaust tilkynna Landbúnaðarstofnun um sjúkdóminn og gera í samráði við stofnunina ráðstafanir sem þurfa þykir.
4. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
   
a. 2. mgr. orðast svo:
   Ráða skal einn héraðsdýralækni í hvert umdæmi, að undanskildu Vestfjarðaumdæmi, Þingeyjarumdæmi og Austurlandsumdæmi nyrðra, en í hvert þeirra skal ráða tvo héraðsdýralækna.
   
b. 6. mgr. orðast svo:
   Forstjóri Landbúnaðarstofnunar ræður héraðsdýralækna og setur þeim erindisbréf. Í erindisbréfinu skal kveðið á um starfsskyldur, eftirlitsstörf og heimild til annarra dýralæknastarfa. Héraðsdýralæknar skulu ráðnir samkvæmt ákvæðum
laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
   c. Í stað orðsins „Landbúnaðarráðuneytið“ í 8. mgr. kemur: Landbúnaðarstofnun.
5. gr. Fyrirsögn IV. kafla laganna verður: Umdæmi héraðsdýralækna.
6. gr. 1. og 2. málsl. 16. gr. laganna falla brott.
7. gr. 1. mgr. 18. gr. laganna orðast svo:
Verði Landbúnaðarstofnun þess vör að dýralæknir, sem hefur starfsleyfi, vanræki skyldur sínar og störf, fari út fyrir verksvið sitt eða brjóti alvarlega í bága við fyrirmæli sem dýralæknum er skylt að starfa eftir ber Landbúnaðarstofnun að áminna hann um að bæta ráð sitt.