Lagasafn. Íslensk lög 1. október 2003. Útgáfa 129. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um lækningaferðir
1955 nr. 21 27. apríl
Tóku gildi 23. maí 1955.
1. gr. Það er hlutverk laga þessara að auðvelda fólki í byggðum, sem langt eiga að sækja til augnlæknis, háls-, nef- og eyrnalæknis og tannlæknis, að ná til þessara sérfræðinga og njóta þjónustu þeirra.
2. gr. Í því skyni, sem í 1. gr. getur, semur ráðherra við nægilega marga hlutaðeigandi sérfræðinga um árlegar lækningaferðir um landið með viðkomu og hæfilega langri dvöl á þeim stöðum, þar sem ætla má, að þjónustu þeirra sé mest þörf og hennar verði auðveldast og almennast notið.
Þegar því verður við komið, skal fela einum sérfræðingi hverrar greinar að ferðast um tiltekinn landshluta, og ef unnt er þeim sérfræðingi, sem búsettur er í þeim landshluta.
3. gr. Verja má fé úr ríkissjóði til styrktar lækningaferðum, eftir því sem fjárlög heimila á hverjum tíma.
Það er kvöð á því sveitarfélagi, þar sem sérfræðingur í lækningaferð samkvæmt lögum þessum hefur viðdvöl, að það sjái honum fyrir viðunandi ókeypis húsnæði til starfa sinna, svo sem í sjúkrahúsi eða læknisbústað staðarins, skólahúsi, samkomuhúsi eða annars staðar eftir því sem á stendur.