Lagasafn. Uppfært til 1. júlí 2003. Útgáfa 128b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um gæðamat á æðardún
1970 nr. 39 11. maí
Tóku gildi 27. maí 1970. Breytt með l. 92/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 103. gr. sem tók gildi 9. jan. 1992) og l. 73/1996 (tóku gildi 19. júní 1996).
1. gr. Allur æðardúnn, sem fluttur er úr landi, skal metinn og veginn af lögskipuðum dúnmatsmönnum. Hverri dúnsendingu skal fylgja vottorð matsmanna um, að dúnninn sé metinn og veginn. Skal [lögreglustjóri]1) votta með undirskrift sinni, að lögskipaður dúnmatsmaður hafi undirritað vottorðið í viðurvist hans.
1)L. 92/1991, 54. gr.
2. gr. Ráðherra getur mælt svo fyrir, að ákvæði 1. gr. um mat og flokkun á æðardún, sem út er fluttur, skuli einnig ná til dúns, sem seldur er á innlendum markaði.
3. gr. Allan dún skal merkja greinilega með merki útflytjanda.
4. gr. Nánari reglur um mat, merkingu og meðferð dúnsins setur landbúnaðarráðuneytið í erindisbréfum til matsmanna.1)
1)Erbr. 64/1972.
5. gr. Lögreglustjóri skipar dúnmatsmenn á þeim stöðum, er landbúnaðarráðuneytið telur þörf á, að fengnum tillögum [Bændasamtaka Íslands].1)
1)L. 73/1996, 11. gr.
6. gr. Matsmenn æðardúns skulu, áður en þeir taka til starfa, undirrita drengskaparheit um, að þeir vilji rækja starf sitt með alúð og samviskusemi og fylgja settum reglum. Ráðuneytið stílar þeim heitið.
7. gr. Kaup dúnmatsmanna greiðir útflytjandi eftir nánari ákvörðun í erindisbréfi, sbr. 4. gr. Ekki mega matsmenn þiggja neina þóknun, hverju nafni sem nefnist, frá þeim, sem metið er fyrir eða öðrum, sem við útflutning dúnsins eru riðnir, aðra en þá, sem ákveðin er í erindisbréfi. Ekki mega þeir heldur vera í þjónustu þeirra, sem flytja út æðardún.
8. gr. Brot á lögum þessum varða sektum og sæta meðferð opinberra mála.