Lagasafn. Uppfært til 1. júlí 2003. Útgáfa 128b. Prenta í tveimur dálkum.
Forsetabréf um afreksmerki hins íslenska lýðveldis
1950 nr. 85 9. október
Tók gildi 1. apríl 1951.
1. gr. Heiðurspeningurinn nefnist: Afreksmerki hins íslenska lýðveldis. Afreksmerkið er í tveimur stigum. Fyrra stig er peningur úr gulli, 3 cm að þvermáli og 2 mm á þykkt. Á framhlið peningsins skal mótuð mynd Fjallkonunnar og umhverfis letrað í boga: Afreksmerki hins íslenska lýðveldis. Á bakhlið peningsins er skjaldarmerki Íslands. Á rönd peningsins skal letra nafn þess, er peninginn hlýtur, og hvaða dag og ár afrek það var unnið, er gerði hann merkisins verðan.
Annað stig merkisins er eins og hið fyrra, nema silfur í stað gulls.
2. gr. Afreksmerkið skal bera á brjóstinu vinstra megin í bláu silkibandi.
3. gr. Afreksmerkinu má sæma innlenda menn og erlenda, er hætt hafa lífi sínu eða heilsu við björgun íslenskra manna úr lífsháska, enda sé upplýst með lögreglurannsókn, eða á annan fullgildan hátt, um öll atvik björgunarinnar.
4. gr. Afreksmerkið er eign þess, er hlýtur það, og erfingja hans að honum látnum.
5. gr. Forseti Íslands veitir afreksmerkið.
6. gr. Forsetinn skipar þriggja manna nefnd, er gerir tillögur um veiting afreksmerkisins. Einn skal skipa að ráði forsætisráðherra og sé hann jafnframt formaður nefndarinnar, annar sé forseti Slysavarnafélags Íslands, en hinn þriðji formaður orðunefndar hinnar íslensku fálkaorðu.
Nefndin skal halda gerðabók um störf sín.
7. gr. Engan má sæma afreksmerkinu, nema nefndarmenn séu sammála um að leggja það til. Ef um erlendan ríkisborgara er að ræða, skal leita umsagnar utanríkisráðherra Íslands áður en ákvörðun er tekin um veitingu merkisins.
8. gr. Veiting afreksmerkisins skal að jafnaði fram fara 1. desember.
Merkinu skal fylgja skjal, undirritað af forseta og nefndarmönnum, þar sem greint sé, fyrir hvaða afrek merkið er veitt.
9. gr. Birta skal í Lögbirtingablaði og Stjórnartíðindum, hverjir afreksmerkið hljóta og fyrir hvað.
10. gr. Kostnaður við afreksmerkið greiðist úr ríkissjóði.