Lagasafn. Uppfært til janúar 2002. Útgáfa 127a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um sjúkraliða
1984 nr. 58 28. maí
1. gr. Rétt til að starfa sem sjúkraliði hér á landi og kalla sig sjúkraliða hefur sá einn sem til þess hefur fengið leyfi heilbrigðisráðherra.
2. gr. [Leyfi skv. 1. gr. má veita þeim sem lokið hafa námi frá skóla hér á landi sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið viðurkennir.]1)
Einnig má veita þeim leyfi sem lokið hefur hliðstæðu námi erlendis. Áður en slíkt leyfi er veitt skal leita umsagnar Sjúkraliðafélags Íslands.
1)L. 15/1992, 2. gr.
3. gr. Óheimilt er að ráða sem sjúkraliða aðra en þá sem hafa starfsleyfi samkvæmt þessum lögum.
4. gr. Sjúkraliða ber að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða starfið.
5. gr. [Sjúkraliði starfar á hjúkrunarsviði og vinnur undir stjórn þess hjúkrunarfræðings sem fer með stjórn viðkomandi stofnunar, deildar eða hjúkrunareiningar og ber ábyrgð á störfum sínum gagnvart honum.
Þar sem hjúkrunarfræðingur hefur ekki fengist til starfa að undangenginni auglýsingu getur sjúkraliði borið ábyrgð á störfum sínum gagnvart þeim sérfræðingi sem hlotið hefur viðurkenningu heilbrigðisráðuneytisins. Þó skal slík skipan háð samþykki heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og ekki standa lengur en eitt ár í senn og er þá skylt að auglýsa á ný eftir hjúkrunarfræðingi.
Komi upp ágreiningur um ráðningu sjúkraliða samkvæmt 2. mgr. skal ráðuneytið skera úr um þann ágreining.
…1)]2)
1)L. 15/1992, 2. gr. 2)L. 73/1989, 1. gr.
6. gr. Sjúkraliða er skylt að gæta þagmælsku um atriði sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi hafi látið af störfum.
7. gr. Ef sjúkraliði vanrækir skyldur sínar eða brýtur gegn heilbrigðislöggjöf landsins að dómi landlæknis skal landlæknir áminna hann. Komi áminningin ekki að haldi leggur landlæknir málið fyrir ráðherra. Getur þá ráðherra úrskurðað að hlutaðeigandi skuli sviptur starfsleyfi, en skjóta má hann þeim úrskurði til dómstóla.
Nú hefur sjúkraliði verið sviptur starfsleyfi samkvæmt 1. mgr. og er þá ráðherra heimilt að veita honum leyfið aftur, enda liggi fyrir meðmæli landlæknis.
8. gr. Ráðherra getur í reglugerð1) sett nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.
1)Rg. 897/2001.
9. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. …