Lagasafn. Uppfært til janúar 2002. Útgáfa 127a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um Útflutningsráð Íslands
1990 nr. 114 31. desember
1. gr. Útflutningsráð Íslands hefur það hlutverk að koma á auknu samstarfi fyrirtækja, samtaka og stjórnvalda í málum er lúta að eflingu útflutnings og veita útflytjendum alhliða þjónustu og ráðgjöf í því skyni að greiða fyrir og auka útflutning á vöru og þjónustu. Enn fremur skal Útflutningsráð vera stjórnvöldum til ráðuneytis í málum sem varða utanríkisviðskipti Íslendinga. [Útflutningsráði ber að stofna til samstarfs við þá aðila sem vinna að markaðssetningu á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta og skal ráðstafa 14% af tekjum af markaðsgjaldi skv. 1. tölul. 3. gr. til verkefna af þeim toga.]1)
1)L. 137/1998, 1. gr.
2. gr. Heimili og varnarþing Útflutningsráðs skal vera í Reykjavík.
3. gr. [Tekjur Útflutningsráðs eru:
1. Markaðsgjald, 0,05%, sem lagt er á gjaldstofn til greiðslu tryggingagjalds eins og hann er skilgreindur í III. kafla laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Um álagningu og innheimtu markaðsgjalds fer eftir ákvæðum þeirra laga. Markaðsgjald má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn þess myndaðist.
2. Þóknun fyrir veitta þjónustu.
3. Sérstök framlög og aðrar tekjur.]1)
1)L. 137/1998, 2. gr.
4. gr. Útflutningsráð skal opið öllum aðilum sem flytja út vörur og þjónustu eða afla gjaldeyris á annan hátt, svo og samtökum atvinnugreina. Allir þeir aðilar, sem greiða til ráðsins skv. 3. gr. þessara laga, verða sjálfkrafa félagar. Af hálfu stjórnvalda eiga aðild að Útflutningsráði utanríkisráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, samgönguráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og viðskiptaráðuneyti.
5. gr. [Stjórn Útflutningsráðs skipa sjö menn sem valdir eru til tveggja ára í senn. Utanríkisráðherra skipar fimm stjórnarmenn eftir tilnefningu fulltrúa atvinnulífsins í samráðsnefnd, sbr. ákvæði 6. gr., og tvo án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
Stjórnin kýs sér formann og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Stjórnin skipuleggur og ákveður verkefni Útflutningsráðs.]1)
1)L. 137/1998, 3. gr.
[6. gr. Í samráðsnefnd Útflutningsráðs sitja fulltrúar samtaka atvinnulífsins og stjórnvalda. Af hálfu atvinnulífsins sitja í nefndinni fulltrúar Vinnuveitendasambands Íslands, Vinnumálasambandsins, Félags íslenskra stórkaupmanna, Verslunarráðs Íslands, Samtaka iðnaðarins, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Samtaka fiskvinnslustöðva, Bændasamtakanna, Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja. Af opinberri hálfu sitja í nefndinni fulltrúi utanríkisráðherra, sem er formaður, og fulltrúar iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sjávarútvegsráðherra og samgönguráðherra. Þá eiga sæti í nefndinni fulltrúar Byggðastofnunar, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Iðntæknistofnunar. Utanríkisráðherra skipar í nefndina samkvæmt tilnefningu framangreindra aðila til tveggja ára í senn. Honum er jafnframt heimilt í reglugerð að veita öðrum samtökum eða stofnunum aðild að samráðsnefndinni að fenginni umsögn hennar.
Samráðsnefnd Útflutningsráðs er vettvangur til samráðs og skoðanaskipta um stefnu og starfsemi ráðsins og staðfestir hún reikninga þess. Nefndin fundar ekki sjaldnar en tvisvar sinnum á ári.
Fulltrúar atvinnulífsins í samráðsnefnd velja fimm aðalmenn og fimm varamenn til setu í stjórn Útflutningsráðs.]1)
1)L. 137/1998, 4. gr.
[7. gr.]1) Útflutningsráð skal starfrækja skrifstofu sem annast öll dagleg störf og þau verkefni er stjórnin tekur ákvörðun um. Skrifstofan skal hafa sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Hún skal undanþegin opinberum gjöldum og sköttum til ríkissjóðs og sveitarfélaga. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra og ákveður laun og önnur starfskjör hans. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk. Stjórnin ákveður gjaldskrá fyrir þjónustu skrifstofunnar. Þess skal gætt að útseld þjónusta standi að mestu leyti undir kostnaði við þau störf sem unnin eru samkvæmt beiðni einstakra útflytjenda.
1)L. 137/1998, 4. gr.
[8. gr.]1) Útflutningsráði skal heimilt að ráða viðskiptafulltrúa sem starfa á skrifstofum Útflutningsráðs erlendis eða í sendiráðum að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið. Um aðstöðu þeirra við sendiráð Íslands skal semja við utanríkisráðuneytið. Um skipan þeirra, stöðu og starfskjör setur stjórn ráðsins sérstakar reglur. Útflutningsráði er einnig heimilt að ráða eða styrkja menn til starfa erlendis í þágu þeirrar starfsemi sem ráðið sinnir.
1)L. 137/1998, 4. gr.
[9. gr.]1) [Utanríkisráðherra er heimilt, að fenginni umsögn stjórnar Útflutningsráðs, að kveða nánar á í reglugerð um starfsemi Útflutningsráðs og um verkaskiptingu milli þess og utanríkisráðuneytisins.]2)
1)L. 137/1998, 4. gr. 2)L. 137/1998, 5. gr.
[10. gr.]1) …
1)L. 137/1998, 4. gr.
[11. gr.]1) Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1991.
1)L. 137/1998, 4. gr.
[Ákvæði til bráðabirgða. [Verði ekki annað ákveðið með lögum fellur markaðsgjald skv. 1. tölul. 3. gr. laga þessara niður frá og með 1. janúar 2003, þó þannig að álagning gjaldsins fari fram árið 2003 vegna gjaldstofns ársins 2002.]1)]2)
1)L. 167/2000, 1. gr. 2)L. 122/1993, 52. gr.