Lagasafn.  Uppfært til janúar 2002.  Útgáfa 127a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um einkaleyfi handa Háskóla Íslands til útgáfu almanaks

1921 nr. 25 27. júní


1. gr. Háskóli Íslands skal hafa einkarétt til þess að gefa út og selja eða afhenda með öðrum hætti almanök og dagatöl á Íslandi.
2. gr. Háskólaráðið sér um útreikning almanaksins, útgáfu þess og sölu. Það heldur reikning yfir tekjur og gjöld af útgáfunni og birtir hann árlega í Árbók Háskólans, endurskoðaðan af hálfu Háskólans, með sama hætti sem ársreikningur Háskólans.
3. gr. Háskólaráðinu er skylt að gefa almanak út árlega, í nægilega mörgum eintökum og svo snemma, að almenningur eigi þess kost að afla sér þess fyrir ár það, sem í hönd fer, hjá útsölumönnum í hverri sýslu eða kaupstað fyrir hver áramót.
4. gr. Ráðherra ákveður verð almanaka Háskólans, eftir tillögum Háskólaráðsins.
5. gr. Það er brot á einkarétti Háskólans skv. 1. gr., ef maður:
   
1. Flytur inn í landið til sölu eða afhendingar með öðrum hætti önnur almanök eða dagatöl en þau, er í 1. gr. segir.
   
2. Selur hér á landi eða afhendir með öðru móti önnur almanök eða dagatöl en þau, sem einkaréttur Háskólans nær til.
   
3. Gefur út hér á landi á prenti eða með öðrum hætti almanök eða dagatöl eða kafla úr þeim.
   
4. Prentar upp eða fjölritar almanök Háskólans eða dagatöl eða kafla úr þeim, til þess að selja eða láta af hendi með öðrum hætti.
6. gr. Ráðherra getur, eftir tillögum Háskólaráðs, leyft að gefa út dagatöl og þess konar bækur eða töflur, svo og að flytja inn í landið útlend almanök eða dagatöl, enda greiði útgefandi eða innflytjandi gjald, sem ráðherra ákveður eftir tillögum Háskólaráðs, til Háskólans af hverju eintaki, sem hann gefur út eða flytur inn, og sé nægt eftirlit með því, að eintakafjöldi sé rétt tilgreindur og að leyfi verði ekki notað á annan hátt en til er ætlast.1)
Heimilt er og að taka kafla úr erlendum almanökum eða almanaki Háskólans í vísindarit eða kennslubækur og þess konar rit til skýringar, einnig að flytja inn í landið og selja sams konar útlend rit með köflum úr almanökum, enda megi þeir teljast, að dómi ráðherra, aðeins óverulegur hluti ritsins eða bókarinnar.
   1)Augl. 806/1982
.
7. gr. [Brot samkvæmt 5. gr. laganna varðar sektum …1)]2)
Leggja skal þegar hald á rit þau, sem ólöglega hafa verið flutt til landsins, gefin hér út eða seld eða af hendi látin samkvæmt 5. gr., og skal síðan gera þau upptæk með dómi.
Skaðabætur skal hver sá greiða, sem sekur verður eftir 5. gr. Miða skal bætur, ef því verður við komið, við samanlagt söluverð ólöglegra seldra eða afhentra eintaka að frá dregnum hæfilegum sölulaunum. Ella skal ákveða bætur eftir atvikum.
   1)
L. 10/1983, 15. gr. 2)L. 35/1958, 1. gr.
8. gr. Nú ná íslenskir dómstólar ekki til þess manns, sem brotlegur hefur orðið samkvæmt 5. gr., vegna vistar hans erlendis, og skal þá sá svara til sakar, til refsingar eða skaðabóta, sem óheimilt samkvæmt 5. gr. geymir hér, selur eða afhendir eða prentar eða fjölritar rit, eða kafla úr þeim. Ráðherra kveður á um það, hvern skuli sækja, ef um fleiri er að velja, eða hvort fleiri menn en einn skuli sækja fyrir sama brot.
9. gr. Mál út af brotum samkvæmt 5. gr., sbr. 7. og 8. gr., skal eigi höfða, nema Háskólaráðið krefjist þess. …1)
Refsikrafa samkvæmt lögum þessum fyrnist á árs fresti frá því er rektor Háskólans varð kunnugt um, hver brots er valdur, og aldrei skal dæma til refsingar fyrir brot á lögum þessum, ef 2 ár líða svo frá því er brotið er gegn þeim, að mál hefur ekki verið höfðað.
   1)
L. 19/1991, 194. gr.
10. gr. Hreinan arð af útgáfu almanaka ár hvert, skaðabætur og sektir fyrir brot á einkaréttinum, andvirði upptækra rita og gjöld samkvæmt 6. gr. skal leggja í sérstakan sjóð, sem Almanakssjóður heiti, og stjórnar Háskólaráðið honum. [Tekjum sjóðsins skal verja til eflingar stærðfræðilegum vísindum á Íslandi.]1)
   1)
L. 35/1958, 2. gr.
11. gr. Háskólaráðið semur og ráðherra staðfestir reglur, þar sem nánar verður kveðið á um tilhögun almanaksins, hvað í það skuli taka og hvernig útgáfu þess og útsölu skuli haga.1) Með sama hætti skal setja reglur um meðferð Almanakssjóðsins og um annað, sem lýtur að framkvæmd laga þessara og eigi er látið um mælt í þeim.2)
   1)
Rg. 16/1922. 2)Rg. 407/1973.