Lagasafn. Uppfært til janúar 2002. Útgáfa 127a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um jöfnun flutningskostnaðar á sementi
1973 nr. 62 30. apríl
1. gr. Framkvæma skal jöfnun á flutningskostnaði sements, þannig að kostnaðarverð í vöruskemmu á hverri sementstegund frá hverjum innlendum framleiðanda eða innflutningsaðila verði hið sama á öllum verslunarstöðum, sem jöfnun þessi nær til. Jöfnun flutningskostnaðar samkvæmt lögum þessum nær til allra verslunarstaða á landinu, sem jafnframt eru aðaltollhafnir. Heimilt er viðskiptaráðherra að ákveða með reglugerð,1) að jöfnun þessi á flutningskostnaði skuli einnig ná til annarra tilgreindra verslunarstaða.
1)Rg. 937/2001.
2. gr. Leggja skal flutningsjöfnunargjald á allt sement, sem framleitt er í landinu eða flutt er til landsins. Gjald þetta ákveður viðskiptaráðuneytið fyrir allt að eitt ár í senn, og skal upphæð þess við það miðuð, að tekjur af því nægi til að greiða flutningskostnað á því sementi, sem flytja þarf frá framleiðslustað eða innflutningshöfn til þeirra verslunarstaða, sem jöfnun flutningskostnaðarins nær til, þannig að fullnægt verði þaðan eftirspurn eftir sementi, hvar sem er á landinu.
[Flutningsjöfnunargjaldið skal reikna og greiða á hvert selt tonn af sementi. Skulu innlendir framleiðendur og innflytjendur, sem stunda endursölu á sementi á minnst tveimur verslunarstöðum sem jafnframt eru aðaltollhafnir, greiða gjaldið til flutningsjöfnunarsjóðs sements af sölu í hverjum mánuði eigi síðar en á síðasta virka degi að tveimur mánuðum liðnum frá lokum sölumánaðar. Flutningsjöfnunargjald af öðru innfluttu sementi skal innheimt með aðflutningsgjöldum. Annast tollstjórar innheimtuna og skulu þeir skila gjaldinu til flutningsjöfnunarsjóðs sements.]1)
[Þrátt fyrir 1. mgr. skal ekki leggja flutningsjöfnunargjald á sement sem notað er til framleiðslu á viðgerðarefnum eða tilbúnum múrblöndum. Flutningsjöfnunarsjóður greiðir ekki flutningskostnað á sementi til þeirra nota.]1)
1)L. 151/2000, 1. gr.
3. gr. Tekjur af flutningsjöfnunargjaldi samkvæmt 2. gr. skal leggja í sérstakan sjóð, flutningsjöfnunarsjóð sements. Úr sjóðnum skal greiða flutningskostnað á sementi frá framleiðslustað eða innflutningshöfn til annarra verslunarstaða, sem jöfnun flutningskostnaðar nær til í samræmi við ákvæði 1. gr.
Fé það, sem á hverjum tíma er í flutningsjöfnunarsjóði, skal ávaxta í banka á sérstökum reikningi.
4. gr. Nú verður tekjuafgangur á flutningsjöfnunarsjóði í árslok, og skal hann þá yfirfærast til næsta árs. Ef tekjur sjóðsins eitthvert ár hrökkva ekki fyrir gjöldum skv. 3. gr., skal greiða það, sem á vantar, af fyrstu tekjum sjóðsins næsta ár.
5. gr. [Viðskiptaráðherra skipar til fjögurra ára í senn flutningsjöfnunarsjóði þriggja manna stjórn án tilnefningar og skipar viðskiptaráðherra formann sjóðstjórnar.]1) Stjórnin skal annast framkvæmd laga þessara undir yfirstjórn viðskiptaráðherra, sem jafnframt sker úr ágreiningsatriðum, er upp kunna að koma.
1)L. 151/2000, 2. gr.
6. gr. Stjórn flutningsjöfnunarsjóðs úrskurðar, hvað teljast skuli flutningskostnaður, sbr. ákvæði 1. málsl. 1. gr. [Er stjórninni meðal annars heimilt að ákveða að jöfnun flutningskostnaðar milli tiltekinna verslunarstaða, þar á meðal framleiðslustaðar eða aðaltollhafnar og annarra verslunarstaða, skuli takmörkuð við kostnað af þeim flutningsháttum sem ódýrastir eru á hverjum tíma og skemmstu flutningsleið.]1) Sömuleiðis skal henni heimilt að synja um greiðslu tiltekins kostnaðar úr sjóðnum að hluta eða að fullu, ef sýnist um að ræða misnotkun á jöfnunarkerfinu í tilteknum viðskiptum.
…1)
1)L. 151/2000, 3. gr.