1977 nr. 40 13. maí/ Lög um tilkynningarskyldu íslenskra skipa
Lagasafn. Uppfært til janúar 2002. Útgáfa 127a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um tilkynningarskyldu íslenskra skipa
1977 nr. 40 13. maí
1. gr. Öll íslensk skip, sem búin eru talstöð, önnur en varðskip, skulu tilkynna:
a. brottför skipsins úr höfn;
b. staðsetningu skipsins a.m.k. einu sinni á sólarhring, fiskiskip samkvæmt ákvörðun eftirlitsmiðstöðvar og farþegaskip eftir aðstæðum;
c. komu skipsins í höfn.
[Í sjálfvirku tilkynningarkerfi skulu skip tilkynna brottför og komu í höfn og staðsetningu sína á eftirfarandi hátt:
a. Skip sem eru 24 metrar að lengd eða lengri skulu tilkynna sig á tólf klukkustunda fresti.
b. Skip sem eru styttri en 24 metrar og er heimilt að sigla utan þjónustusvæðis sjálfvirks tilkynningarkerfis á metrabylgju skulu tilkynna sig á einnar klukkustundar fresti.
c. Skip sem eru styttri en 24 metrar og sigla á þjónustusvæði sjálfvirks tilkynningarkerfis á metrabylgju skulu tilkynna sig á fimmtán mínútna fresti.
d. Farþegaskip sem notuð eru í atvinnuskyni skulu tilkynna sig á fimmtán mínútna fresti.
e. [Undanþegin ákvæðum c-liðar eru skip sem ekki eru notuð í atvinnuskyni. Samgönguráðherra er heimilt að ákveða að skip sem stunda veiðar nálægt landi verði undanþegin ákvæðum c-liðar.]1)]2)
1)L. 73/2000, 1. gr. 2)L. 39/1999, 1. gr.
2. gr. Texti tilkynningarinnar skal vera sem hér segir:
Við brottför: Skipsheiti, kallmerki eða skipaskrárnúmer, brottfararstaður og tími.
Á sjó: Skipsheiti, kallmerki eða skipaskrárnúmer, reitnúmer, stefna og tími.
Við komu í höfn: Skipsheiti, kallmerki eða skipaskrárnúmer, komustaður og tími.
[Í sjálfvirku tilkynningarkerfi skal að lágmarki tilkynna auðkenni skips og staðsetningu þess.]1)
1)L. 39/1999, 2. gr.
3. gr. Öllu hafsvæðinu í kringum landið skal skipt í tilkynningarreiti. Við tilkynningum af reitum þessum taki síðan strandstöðvar, beint eða um aðrar stöðvar ef beint samband næst ekki. Tilkynningarnar skal senda strax til eftirlitsmiðstöðvar, sem fylgist með að engar skyldutilkynningar vanti. Telji eftirlitsmiðstöðin að ástæða sé til eftirgrennslunar, leitar eða björgunar, skal hún þegar gera nauðsynlegar ráðstafanir og hafa um þær samráð við alla þá aðila er aðstoð geta veitt við eftirgrennslan, leit eða björgun.
[Ákvæði 1. mgr. taka jafnframt til sjálfvirks tilkynningarkerfis.]1)
1)L. 39/1999, 3. gr.
4. gr. Náist ekki beint samband við landstöðvar, skal tilkynna með aðstoð eftirlitsskips, sé það á miðunum, annars um önnur skip.
5. gr. Fiskibátar, sem eigi eru búnir talstöðvum, skulu tilkynna viðkomandi eftirlitsstöð eða þeim, er hún tilnefnir, brottför sína, áformaðar ferðir og komu samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð, sem sett skal í samráði við [Siglingastofnun Íslands]1) og Slysavarnafélag Íslands.
1)L. 7/1996, 6. gr.
6. gr. Stærð tilkynningarreita þeirra, sem um ræðir í 3. gr., ákvarðast af eftirlitsmiðstöð í Reykjavík og skal hún sjá um útgáfu og dreifingu reitakorta.
Sé reitakort ekki fyrir hendi skal gefa staðarákvörðun í breidd og lengd.
7. gr. [Sá sem annast rekstur fjarskiptanna skal sjá til þess að fjarskiptavirki séu til staðar til móttöku tilkynninga og áframhaldandi sendingar þeirra til eftirlitsstöðvar.]1)
1)L. 39/1999, 4. gr.
8. gr. Slysavarnafélag Íslands fer með yfirstjórn tilkynningarskyldunnar og eftirlitsmiðstöðvarinnar í Reykjavík.
[Handvirka tilkynningarkerfið skal rekið í allt að þrjú ár samhliða sjálfvirka tilkynningarkerfinu.]1)
1)L. 39/1999, 5. gr.
9. gr. [Fyrir þjónustu í handvirka tilkynningarkerfinu og tilkynningar um gervihnattasamband greiða eigendur skipanna fyrir fjarskiptin samkvæmt gjaldskrá þess sem þjónustuna veitir.
Fyrir þjónustu í sjálfvirka tilkynningarkerfinu skal eigandi hvers skips greiða umsamið árgjald sem rennur til Slysavarnafélags Íslands til að mæta kostnaði þess.]1)
1)L. 39/1999, 6. gr.
10. gr. Brot gegn lögum þessum varða sektum sem fari hækkandi við ítrekuð brot. Sektarfé skal renna til ríkissjóðs.
[11. gr. Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerð1) um nánari framkvæmd þessara laga.]2)
1)Rg. 220/2001. 2)L. 39/1999, 8. gr.
[Ákvæði til bráðabirgða. Ákvæði e-liðar 2. mgr. 1. gr. skal endurskoða fyrir árslok 2000.]1)
1)L. 39/1999, 9. gr.